21.5.2013 | 19:55
Meiri samfelldur snjór en í mörg ár á NA-hálendinu.
Meiri samfelldur snjór er nú á norðausturhálendinu en ég hef séð í mörg ár seinni partinn í maí.
Hins vegar hefur snjór á suðvestanverðu hálendinu hefur sjaldan verið minni á þessum árstíma.
Myndirnar hér á síðunni voru teknar í flugi á TF-REX í gær, en þá var bjart á norðausturlandi.
Það voru viðbrigði að fara héðan að sunnan og enda ferðina eins og í annarri heimsálfu hinum megin á landinu.
Það þurfti að krækja suður fyrir Mýrdalsjökul og fara síðan þvert norður yfir miðjan Vatnajökul, en veðraskil með þykkum skúra- og éljaskýjum lá frá vestanverðum Skeiðarársandi norður yfir miðjan Vatnajökul.
Þegar komið var á norðanverðan jökulinn blöstu Kverkfjöll og Herðubrreið við.
Varla var á dökkan díl að sjá, sem er ólíkt því sem verið hefur undanfarin vor.
Það er auðvelt að fylgjast með veðri þarna heima hjá sér á vefnum vedur.is, en mjög fáa daga hefur hitinn farið yfir frostmark seinni part vetrar og miklu oftar úrkoma á þessu úrkomuminnsta svæði landsins en venja er en hins vegar lítið um stórviðri.
Sauðárflugvöllur var þakinn jafnföllnum snjó eins til eins og hálfs metra þykkum eins og sjá má.
Veðurmælingastöð Veðurstofunnar er skammt suðvestan við völlinn.
Í baksýn í 35 kílómetra fjarlægð eru Kverkfjöll.
Það, hve sléttur snjórinn er, staðfestir það að ekki hefur verið stórviðrasamt í vetur, sem og það að báðir vindpokarnir eru heilir, en þeir endast yfirleitt ekki nema 2-3 ár ef stórviðrasamt er.
Í gær var þarna logn eða andvari eins og sést á vindpokunum.
Í fyrra opnaðist völlurinn um mánaðamótin maí-júní en spáð er svölu veðri næstu dagana svo að búast má við að völlurinn og slóðar um norðausturhálendið opnist mun síðar en í fyrra.
Síðustu þrjá daga hefur hitinn komist upp í nokkur stig yfir bládaginn, en það hefur hrokkið skammt.
Stafirnir SA á þaki húsbílsins, sem er þarna sem flugstöð og athvarf, eru síðari hlutinn af alþjóðlegum einkennisstöfum flugvallarins, sem eru BISA.
BI er tákn fyrir Ísland en SA eru tveir fyrstu stafirnir í "Sauðárflugvöllur", þ. e. Sauðarflugvöllur International Airport !
Snjórinn lætur undan eftir langan vetur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
16.5.2013:
"Trausti Jónsson, sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum á Veðurstofu Íslands, segir að í grunninn hafi hlýindin síðastliðin 15 ár haldið áfram.
Norðanáttin sem leikið hafi suma landshluta grátt í vetur hafi verið hlýrri en venjulega og þar af leiðandi úrkomusamari.
Í rauninni megi því segja að hlýindin hafi orsakað snjóþyngslin fyrir norðan og austan, eins undarlega og það kunni að hljóma.
"Norðanáttin er samt aldrei hlý, hún er kaldasta áttin, en hefur verið hlýrri en venjulega og óvenjulega ríkjandi," segir Trausti.
Þar sem snjóþyngslin hafi verið mikil bráðni snjórinn hægt, þrátt fyrir að farið sé að hlýna.
Á meðan tún séu ennþá hvít endurkastist sólarljósið af þeim og snjórinn bráðni því síður en um leið og fari að glitta í jörð gangi bráðnunin hraðar fyrir sig."
Hlýindi valda snjóþyngslum
Þorsteinn Briem, 21.5.2013 kl. 21:19
Þetta var ærið góður sprettur hjá þér í gær kallinn.
Gustasamur dagur með éljum í suðri í dag. TF-REX er í góðu standi hvar hann stendur, og hefur ekki haggast. Flug á morgun?
Jón Logi (IP-tala skráð) 21.5.2013 kl. 23:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.