Gálgahraunsgerræðið: 2007 af verstu gerð.

90 þúsund bílar aka um Miklubrautina við Elliðaár, þar sem eru stærstu gatnamót landsins og leiðir liggja til allra átta á svæði, þar sem næstum 200 þúsund manns búa.

Í hvaða heimi lifir meirihluti bæjarstjórnar Álftanes að gera ráð fyrir fjórföldun umferðar út á Álftanes upp í 22 þúsund bíla á dag til byggðar, þar sem 2700 manns búa?

Þessi tala, 22 þúsúnd bílar á dag,  er langt utan við veruleikann eins og samanburður við aðra staði á höfuðborgarsvæðinu sýnir vel.

Á tíma, þegar velta þarf fyrir sér hverri krónu í útgjöldum þjóðfélagsins líta þessir menn á það sem sjálfsagðan hlut að þeim verði gefnir milljarðar af fjármunum landsmanna til að þjóna mikilmennskubrjálæði þeirra. 

Orðið 2007 er oft notað um loftkastala og sápukúlur í framkvæmdum og fjármálum, sem náðu nýjum hæðum það ár. Gálgahraunsgerræðið er 2007 af verstu gerð.  

Sigurður Sigurðarson notar rétta orðalagið í bloggi sínu: Þeir ætla að hrauna yfir allt og alla, nokkuð sem yfirvöldum tókst ekki hér um árið þegar leggja átti hraðbraut eftir endilöngum Fossvogsdalnum með talsvert skárri rökum en nú á að beita í Gálgahrauni.

Í dag dytti engum í hug að leggja hraðbraut eftir Fossvogsdal. Þar eru nú griðasvæði fyrir fólk og fugla í skógarlundum þar sem hægt er að "upplifa kjarrið í kyrrðinni". 

IMG_8178

Í Gálgahrauni er enn hægt að "upplifa Kjarval í kyrrðinni" við frægar hraunmyndanir og söguslóðir með fótatak genginna kynslóða á dýrmætu svæði, sem er á náttúruminjaskrá, en það ætla jarðýtufíklarnir að hrauna yfir í orðsins verstu merkingu.  

Í lögum er gert skylt að skoða lausn, sem liggur nærri núverandi stöðu mála varðandi vegabætur, en því harðneita hinir yfirgangssömu ráðamenn sem hafa vanist völdum og það miklum og langvarandi völdum. Vald spillir og mikið og langvarandi vald gerspillir.

Vel er hægt að bæta Álftanesleið um sömu slóðir og hún liggur nú með breikkun vegar, tveimur hringtorgum og stýrðum umferðarljósum eins og íbúar vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið sætta sig vel við.

IMG_8185

 En jarðýtufíknir valdsherrar geta ekki látið sér neitt venjulegt nægja. Framkvæmdaleyfið er útrunnið og margt annað er bjagað en engu er líkara en að þeir telji það úrslitaatriði að geta verið hálfri mínútu fljótari á fund forsetans ef svo ber undir.   


mbl.is Breyta ekki fyrri áætlun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það mætti laga núvernadi veg með einföldum að og fráreinum við afleggjara og setja upp umferðareyjur til að hindra frammúrakstur á viðkvæmustu stöðum.

Aksturstími frá hringtorgi við Bessastaðaafleggjara að Herjólfsbraut er 2:24 mínútur á 70Km hraða.

Aksturtími frá Herjólfsbraut að Reykjavíkurvegi er 1:28 mínútur á 50 Km hraða.

Samtals tekur því tæpar 4 mínútur að aka frá Seltjarnarnesi að Reykjavíkurvegi.

Aksturstími á nýjum vegi með 90 Km hámarkshraða er 2:40.

Tímasparnaður af lagningu nýs þjóðvegar með 90Km hámarkshraða er því rúm mínúta í hverri ferð.

Þetta má mæla og skoða á þessum vef:

http://ja.is/kort/?type=aerial&x=354530&y=402145&z=7

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 22.5.2013 kl. 11:27

2 identicon

Sæll Ómar. langar að benda á frábæra grein Andra Snæs; http://www.andrisnaer.is/ymislegt/2013/05/um-alftanesveg-skeidarvog-og-umraedu-uti-i-hrauni/

Segir allt og setur í rétt samhengi, sannar hverskonar bull framkvæmd þetta er.

Kjartan (IP-tala skráð) 22.5.2013 kl. 16:26

3 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Ótrúlegt er að nbokkrum heilvita manni detti í hug að bæta vegakerfi með allt of miklum tilkostnaði og raski eins og áætlanir standa til.

Auðvitað er núverandi vegur út á Álftanes í góðu standi og víðar á landinu þyrfti að bæta aðstæður.

Þessar hugmyndir um færslu vegar er eins og hvert annað bruðl á allmannafé sem væri unnt að nýta betur annars staðar á landinu.

Einu sinni var talað fjálglega um svonefnda Sundabraut frá Reykjavík og upp á Kjalarnes. Talað var um að sú leið yrði farin í síðasta lagi 2006 miðað við fyrstu hugmyndir. Ekki hefur verið lagður einn einasti metri þeirrar brautar nú í dag þó svo sprenglærðir reikningsmeistarar telji braut þess vera einhverja þá arðvænlegurstu á landinu öllu. Svo er Vegagerðin og aðrir aðilar að halda uppi einhverjum tilburðum um nauðsyn þessarar umdeildu götu út á Álftanes eins og sú núverandi sé með öllu ómöguleg.

Eru það e.t.v. verktakarnir sem knýja á um framkvæmdirnar?

Við skulum ekki gleyma því að „lýðræði“ okkar miðast furðu oft við þarfir verktaka fremur en þarfir venjulegs fólks. Verkefnið um færslu Álftanesvegar er væntanlega mjög gott fyrir verktaka þó það hugnist okkur hinum ekki.

Guðjón Sigþór Jensson, 23.5.2013 kl. 20:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband