Virkjanirnar, ekki heimilin í fyrsta forgang?

Athyglisverð frétt var á Stöð 2 í kvöld og tilheyrandi viðtali við Bjarna Benediktsson. Upplýst var að færa ætti 18 virkjanakosti í áttina að því að virkja, ýmist úr verndarflokki í biðflokk eða úr biðflokki í virkjanflokk eftir atvikum.

Á fyrsta vinnudegi ríkisstjórnarinnar virðist þetta vera kristaltært. Það er ekki amalegt að komin sé almennileg ríkisstjórn sem kemur nauðsynlegustu málunum strax í verk á fyrsta degi en lætur önnur minni mál, eins og skuldamál heimilanna,  í hendurnar á ótal nefndum og starfshópum.

Samkvæmt fréttinni á að færa Bitru og Grændal, virkjanir með brennisteinsmengun, náttúruspjöllum og rányrkju við bæjardyr Hvergerðinga, úr verndarflokki í biðflokk  og þar með er stefnt að því að 18 af 19 virkjanaáætlunum á Reykjanesskaga fari á endanum í framkvæmd og að tryggt verði að ekkert verði friðað nema Brennisteinsfjöll. 

Gjástykki, svæði, sem á engan sinn líka í heiminum, er á listanum, og Norðlingaalda með uppþurrkun stórfossa Þjórsár og innrás í Þjórsárver. Og nú dúkkar Bjallavirkjun upp, með stíflu og miðlunarlóni við innganginn í Landmannalaugar.  Og aðrar 14 virkjanir. 

Á ráðstefnu um orkumál í gær sýndi bandarískur fyrirlesari á korti hvernig Yellowstone býr yfir langmestri orku í Bandaríkjunum í formi jarðvarma og vatnsorku. 

Verður þá ekki þessi gríðarlega "hreina og endurnýjanlega orka" virkjuð?

Nei. Þetta svæði er "heilög jörð" í augum Bandaríkjamanna" sagði fyrirlesarinn. Samt kemst Yellowstone ekki í flokk 40 merkilegustu náttúruundra jarðar eins og hinn eldvirki hluti Íslands gerir.

Bjarni Benediktsson fór með síbyljuna um "hreina og endurnýjanlega orku" og "forystu Íslands í umhverfismálum sem heimsbyggðin öll dáir okkur fyrir" og var hallelújasöngur ráðstefnunnar í gær frá upphafi til enda. 

Ég spurði forseta Íslands hvort Íslendingar skulduðu ekki sjálfum sér og umheiminum að hætta þeirri rányrkju að klára orku jarðvarmasvæðanna á 50 árum og vitnaði í kröfur "frumstæðra" indíánaþjóðflokka í Ameríku til sjálfra sín um sjálfbæra þróun eða endingu auðlinda í minnst sjö kynslóðir. 

Forsetinn svaraði með því að segja söguna af Sitting Bull, sem var eini indíánahöfðinginn, sem neitaði að semja um eitt eða neitt við hvíta menn.

Í kaffihléi töldu viðmælendur mínir að mér hefði ekki verið svarað.

Eftir næstum fimm klukkustunda hallelújasöng til dýrðar okkur spurði einn fundarmanna síðasta ræðumann álits á því að Íslendingar seldu orku fyrir 20 mills, helmingi minna fé en næmi kostnaðarverði, sem væri 40 mills.

Ræðumaðurinn sagðist ekki þurfa að fjalla neitt sérstaklega um þetta. "Þetta er rétt", sagði hann.

Fundi slitið og allir ánægðir. Amen og hallelúja!

Minnti mig á það á dögum vandaræðamála Bill Clintons þegar ungur blaðamaður ætlaði að slá um sig á blaðamannafundi með Mitterand Frakklandsforseta og spurði hann: "Er það rétt að þú hafir átt hjákonu í mörg ár?"

"Já", svaraði forsetinn. "Næsta spurning, gerið svo vel." Málið dautt. 


mbl.is Skattar lækki strax í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Segi fyrir mitt leyti að ef þessi áform verða að veruleika þá er ég til í að leggja mitt á vogarskálarnar með öllu mögulegu móti að berjast gegn þessu. Veit að það sama gildir um marga aðra í þessu þjóðfélagi. Það er kominn tími til að láta náttúruna ganga fyrir skammtímagróða flokksgæðinga.

Einar Björnsson (IP-tala skráð) 24.5.2013 kl. 21:15

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn umboð frá íslensku þjóðinni til að reisa allar þessar virkjanir með tilheyrandi umhverfisspjöllum og raflínum úti um allar koppagrundir?!

Flokkar sem fengu um helming atkvæða (51,1%) í síðustu alþingiskosningum.

Vilja þeir stríð við þann helming þjóðarinnar sem kaus þá ekki og fjölmarga úr eigin flokkum?!


Og hversu mörg hundruð milljarða króna lán þarf að taka erlendis til að reisa allar þessar virkjanir?!

Þorsteinn Briem, 24.5.2013 kl. 22:06

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

23.3.2011:

"Landsvirkjun og Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB) skrifuðu í dag, 23. mars, undir nýjan lánasamning að fjárhæð 70 milljónir evra, jafnvirði 11,3 milljarða króna.

Lokagjalddagi
lánsins er á árinu 2031 og ber lánið millibankavexti, auk hagstæðs álags.

Í lánasamningnum er ákvæði um lágmarks lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Lánið er mikilvægur áfangi í fjármögnun Búðarhálsvirkjunar en Landsvirkjun undirritaði sambærilegt lán frá Norræna fjárfestingarbankanum þann 16. mars síðastliðinn að fjárhæð 70 milljónir Bandaríkjadollara [um níu milljarðar króna].

Þorsteinn Briem, 24.5.2013 kl. 22:13

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"19. nóvember 2008:

Stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti fyrir stundu á fundi sínum beiðni Íslendinga um 2,1 milljarða Bandaríkjadollara lán.

Íslenskt efnahagslíf þarf á fimm milljörðum dollara að halda, að mati ríkisstjórnarinnar.

Sú upphæð jafngildir um 700 milljörðum króna, miðað við Seðlabankagengi."

Þorsteinn Briem, 24.5.2013 kl. 22:17

5 identicon

Það segir mikið um þessa umræðu að Bjarni, Sigmundur og umhvefisráðherraígildið nefna aldrei grunnhugtökin:!

-Arðsemi raforkusölunnar!

-Auðlindarenntu til eigenda auðlindanna!

Þeir sem ekki minnast á þessa grundvallarþætti raforkuframleiðslunnar eru í raun búnir að stimpla sig út úr vitrænni umræðu.

Sjálfbærni, umhverfisvernd og mengunarvarnir eru svo hugtök sem meiga gjarnan fljóta með. En þessi virkjanafetismi er fyrir löngu farin að minna á ofsatrú.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 25.5.2013 kl. 14:24

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Búast má við gríðarmiklu málþófi á Alþingi gegn þessum virkjanahugmyndum Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, rétt eins og málþófi þeirra í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili.

Þorsteinn Briem, 25.5.2013 kl. 14:38

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

25.5.2013 (í dag):

"Þegar Norðmaðurinn ætlar að framkvæma eitthvað byrjar hann á því að leggja allt niður fyrir sér, kynna sér lög og reglugerðir um málið og gera kostnaðaráætlun."

"Í augum Norðmanna eru Íslendingar hins vegar ákaflega tækifærissinnaðir, allar ákvarðanir hér á Íslandi virðast vera teknar á staðnum og miðað við aðstæður hverju sinni."

Í augum Norðmanna eru Íslendingar ákaflega tækifærissinnaðir

Þorsteinn Briem, 25.5.2013 kl. 16:24

8 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Setjum bara rammalögin í þjóðaratkvæði og hættum þessu pexi.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 25.5.2013 kl. 19:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband