Náttúru norðausturhálendisins var aldrei gefið tækifæri.

Í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar var ég stundum spurður að því á fundum, hvaða skoðun ég hefði á henni. Þá var ég fréttamaður hjá Sjónvarpsinu og forðaðist því að segja eða gera nokkuð það sem gæti túlkast annað hvort sem andstaða mín eða meðmæli. 

Ég svaraði því þannig að enn hefði ég ekki nógu góðar upplýsingar um málið til að geta tekið opinbera afstöðu.

Til þess að geta gert það þyrfti að hafa rannsakað tvo nýtingarmöguleika.

1. Að reisa álver í Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun og afmá Jökulsá á Brú af yfirborði jarðar. 

2. Að bíða með þetta og gefa fyrst 10-20 ár til þess að setja virkjanasvæðið á heimsminjaskrá UNESCO og gera það sem þjóðgarð aðgengilegt fyrir ferðamenn. Höfða til þess að ekkert fljót í heiminum og skriðjökullinn, sem það kemur úr, búa yfir jafn hröðum sköpunarmætti í krafti aurburðar og jafn miklum rennslissveiflum og Jökla og Brúarjökull; - að flest sköpunarverk þeirra, Krákustígshryggirnir, Hraukarnir, sethjallarnir í Hjalladal, Staparnir, Rauðaflúð og komandi Rauðagljúfur og Dimmugljúfur, eiga sér enga hliðstæðu. Í Jökulsá í Fljótsdal tveir af tólf stórfossum Íslands og hinn þriðji í Kringilsárrana. Eftir 20 ára reynslutíma yrði metið hvort gæfi meira af sér, orkunýting eða verndarnýring.

Það yrði að kanna þetta í þessari röð, friðun fyrst, því að munur á friðun og virkjun er sá, að ef virkjað er á óafturkræfan hátt eins og eysra, útilokar það friðun síðar.

En friðun útilokar ekki virkjun síðar.  

Þegar niðurstaða samanburðar lægi fyrir og yrði ég lifandi þá, skyldi ég taka opinbera afstöðu.

Til þess kom ekki. Það var vaðið í álerið. Náttúru norðausturhálendisins var aldrei gefið tækifæri. Einblínt var á byggð í miðju fjórðungsins en ekki á þá möguleika fyrir allt svæðið, sem þjóðgarður gæfi fyrir allar byggðirnar í kring, bæði á Miðausturlandi og í jaðarbyggðunum.

Lengi hafa verið möguleikar á því að gera Egilsstaði og Fljótsdalsheiði að miðstöð jólasveinsins með mun meiri og fjölbreyttari möguleikum til þess en Rovaniemi í Finnlandi hefur og nýtir sér allt árið.

Það hefur verið afgreitt með þögninni og háðsyrðunum "eitthvað annað"  þótt Rovaniemi byggi ferðamannastraum allt árið á jólasveininum.

Nú er of seint að bregðast við. Ferðamenn frá stórskógalöndum Evrópu og Ameríku munu ekki streyma til Austurlands til að fara í Hallormstaðaskóg eða skoða álver og stíflur. Raunar oft ófært til stíflanna snemmsumars í bestu og björtustu veðrum vegna leirfoks úr lónstæði Hálslóns.  

Nú er kvartað yfir dauða Lagarfljóts og ljótum lit þess og yfir lítlum ferðamannastraumi eystra. Það var allt fyrirsjáanlegt og menn vildu þetta.  


mbl.is Vilja millilandaflug til Egilsstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verulega Valgerðar,
vingjarnlegar dætur,
vissulega vel gerðar,
vilja spjallabætur.

Þorsteinn Briem, 4.6.2013 kl. 17:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband