6.6.2013 | 13:34
Mývetnskt þor.
Nokkrum sinnum á ferli mínum sem fréttamaður og síðar kvikmyndagerðarmaður hef ég upplifað þrúgandi þöggun varðandi ákveðin mál í byggðum landsins. Það ríkti ástand, sem byggðist á því að þögn væri sama og samþykki við því sem átti að gera og gert var.
Sú stærsta var í gangi í aðdraganda stórvirkjana á Austurland þegar þeir, sem ekki þýddust fullkomlega í einu og öllu það sem virkjanamenn héldu fram, lentu í djúpri ónáð og aðkasti.
Út á við var mikil áhersla lögð á einhug vegna framkvæmdanna og var einróma samþykkt allra sveitarstjórna fjórðungsins gott dæmi um það, því að fyrirsjáanlegt mátti vera að þegar frá liði myndu ruðningsáhrif framkvæmdanna bitna á jaðarbyggðum og að verið var að fórna möguleikum til verndarnýtingar virkjanasvæðisins sem gæti haft jafnari og dreifðari áhrif.
Það var nóg að sýna myndir af þessu svæði til að fá skammaryrðið "óvinur Austurlands númer eitt."
Ég skynjaði svipað ástand í Vesturbyggð þegar sagt var að 99,9% líkur væri á að olíuhreinsistöð risi þar.
Maður heyrði engan á þeim tíma fyrir vestan sem áræddi að segja neitt misjafnt um þetta, - það ríkti alger þöggun, sem maður tók þátt í til að halda friðinn.
Frá og með 2007 var ég á ferli í Mývatnssveit í nokkur ár, stundum vikum saman og margoft á öllum árstímum og upplifði svipaða þöggun þar, - algera þögn, sem skoðast skyldi sem samþykki við hverju eina sem virkjanamenn segðu, ekki síst landeigendur Reykjahlíðar.
Ég var farinn að halda að þetta ástand yrði til frambúðar. En þegar meira en 200 manns komu saman til að minnast sprengingar Miðkvíslarstíflu sumarið 1970.
Allt í einu spratt þetta fólk fram, mér og fleirum til mikillar gleði.
En síðan virtist sem sækti í fyrra far. Formaður Landeigendafélags Reykjahlíðar skrifaði þrjár greinar í Morgunblaðið um nauðsyn þess að virkja allt sem virkjanlegt væri í þeirri gríðarstóru landareign og þá einkum Gjástykki.
Á borgarafundi um Bjarnarflagsvirkjun síðsumars í fyrra þögðu nær allir heimamenn þunnu hljóði.
Við Hjördís Finnbogadóttir vorum eitthvað að spyrja og malda í móinn og maður fann fyrir einmanakennd.
Svo virtist sem bloggskrif mín, birtingar mynda og greinarskrif í Fréttablaðið í ársbyrjun hefðu ekki haft hin minnstu áhrif, hvað þá fleiri skrif sem birtust í vetur.
Síðan var haldinn annar borgarafundur á dögunum og allt í einu var þögnin rofin og fjöldi heimamanna kvaddi sér hljóðs og spurði gagnrýnna spurninga.
Og nú koma sex landeigendur af sextán og segja að fréttatilkynning frá stjórn félagsins hafi ekki lýst afstöðu allra landeigenda.
Hér á árum áður voru tvö byggðarlög á Íslandi, þar sem manni skildist á ferðum sínum, að fólk væri sjálfstæðast og héldi fast fram gagnstæðum skoðunum, Jökuldalur og Mývatnssveit.
Hákon Aðalsteinsson var dæmi um Jökuldæling sem þessu marki var brenndur, þorði að andæfa virkjununum þótt nánustu skyldmenni hans tæki hressilega undir virkjanakórinn.
Á tímabili síðustu ár var ég farinn að halda, að Kísiliðjan og Krafla hefðu barið allt slíkt niður í Mývatnssveit.
En nú er komið í ljós að mývetnskt þor er ekki liðið undir lok, sem betur fer, þökk sé þeim, sem nú hafa stigið svo sem minnihluti landeigenda Reykjahlíðar, sem kannski er ekki minnihluti, hver veit?
Lýsir ekki afstöðu allra landeigenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Af er það sem áður var,
enginn lengur sprengir,
undir valdi una þar,
aumir Mývatnsdrengir.
Þorsteinn Briem, 6.6.2013 kl. 15:52
Stóra spurningin í Mývatnssveit snýst ekki um það hvort byggja eigi Bjarnarflagsvirkjun eða láta það ógert.
-Stóra spurningin snýst um það hvort virkjunin er ásættanleg fyrir náttúru, lífríki og samfélag.
Landsvirkjun hefur ekki tekist að svara hver áhrif virkjunarinnar verða á vatnafar og Landsvirkjun hyggst ekki hreinsa brennisteinsvetni úr útblæstri.
Það segir mikið um þessar fyrirætlanir að búið er að koma upp síritandi mælitækjum á skólalóð Reykjahlíðarskóla sem mæla stöðugt styrk eiturgassins brennisteinsvetnis.
Brennisteinsvetni er eyðileggur blóðrauða hraðar en kolmónoxíð og er þar að auki virkt taugaeitur.
Það þarf ekki nema 0,5Kg af efninu eða þriðjung úr rúmmetra til drepa alla samstundis í skólastofu af hefðbundinni stærð.
Það er engin hætta að þau 2.700 tonn brennisteinsvetnis sem virkjunin á árlega að blása í næsta nágrenni skólans rati inn í kennslustofur í þessum bráðdrepandi styrk.
En þetta er æði vafasamt uppátæki og metnaðarleysi Landsvirkjunar í mengunarmálum er ekki við hæfi á þessari öld!
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 6.6.2013 kl. 16:09
"Eins og komið hefur fram á mbl.is gaf Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis út skýrslu í mars síðastliðnum um mælingar á brennisteinsvetni í Kópavogi.
Í niðurstöðu heilbrigðisnefndarinnar segir að vaxandi styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti á höfuðborgarsvæðinu sé áhyggjuefni en langtíma áhrif lágs styrks brennisteinsvetnis á heilsufar hafa lítið verið rannsökuð."
Kópavogur lýsir yfir áhyggjum af loftgæðum
Þorsteinn Briem, 6.6.2013 kl. 16:28
"Morgunútvarpið hefur fjallað um brennisteinsvetni í andrúmsloftinu i vikunni, það er að segja mengun frá Hellisheiðarvirkjun sem berst yfir íbúðabyggð - til dæmis á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta getur valdið fólki óþægindum og til dæmis eru vísbendingar um að sala á astmalyfjum aukist í kjölfarið á mengunartoppum frá virkjuninni.
En brennisteinsvetni hefur áhrif á fleira, meðal annars er ýmiss konar tækjabúnaður viðkvæmur fyrir þessari mengun - til dæmis rekja tæknimenn í Útvarpshúsinu margvíslegar bilanir til þessa."
Brennisteinsvetni skemmir tæki
Þorsteinn Briem, 6.6.2013 kl. 16:32
"Þegar geisla- og DVD-spilarar hætta skyndilega að virka og skruðningar heyrast í hljómflutningstækjum heimilisins má ef til vill rekja bilunina til brennisteinsmengunar.
Sama mengun veldur því að jólasilfrið hefur undanfarin ár verið ansi svart.
Brennisteinsmengun í andrúmslofti hefur aukist á höfuðborgarsvæðinu frá því að jarðvarmavirkjanir voru teknar í gagnið á Hellisheiði árið 2006.
Brennisteinsvetni myndar nýtt efnasamband þegar það kemst í snertingu við silfur þannig að það fellur á málminn."
"Algengt er að þetta sé ástæðan þegar komið er með biluð raftæki í viðgerð, segir Arnar Sigurður Hallgrímsson, rafeindavirki hjá Sjónvarpsmiðstöðinni."
"Arnar segir dæmi um það að fólk komi með sömu tækin aftur og aftur vegna þessa vandamáls."
Brennisteinsvetni skemmir hljómflutningstæki
Þorsteinn Briem, 6.6.2013 kl. 16:38
"Líklegt er að Orkuveita Reykjavíkur beri samkvæmt dómafordæmum hlutlæga ábyrgð á jarðskjálftum sem verða vegna niðurdælingar á Hellisheiði.
Til skamms tíma hefði þótt undarlegt - hreint grín - að ræða um ábyrgð á jarðskjálftum.
Jarðskjálftar eru meðal náttúruhamfara og hafa ekki verið taldir af mannavöldum.
Prófessor Róbert R. Spanó skrifar grein í Fréttablaðið í dag sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum og ræðir hann um jarðskjálfta í kjölfar niðurdælingar affallsvatns á Hengilssvæðinu út frá sjónarhóli mannréttinda.
Fram kemur í grein Róberts að hann fjalli að þessu sinni um annað en hugsanlega skaðabótaskyldu vegna tjóns af völdum þessara manngerðu jarðskjálfta; bótaábyrgð er hins vegar umfjöllunarefni þessa pistils."
Bótaábyrgð vegna jarðskjálfta af mannavöldum - Talsmaður neytenda
Þorsteinn Briem, 6.6.2013 kl. 16:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.