"Aftur inn í torfkofana".

Ekki er fyrr sagt frá stuðningi Darrens Aronofskys við íslenskt náttúruverndarfólk en upphefst gamli söngurinn á blogginu um að Aronofsky sé í hópi "öfgamanna sem vilji að við förum aftur inn í torfkofana." 

Aronofsky er þó aðeins að túlka það, sem meira en 80% erlendra ferðamanna segja vera aðalástæðuna fyrir því að þeir komi til landsins, en það sé hið einstæða samspil elds og íss á ósnortnum víðáttum, sem enn sé að finna hér. En þetta er sem sagt allt "öfgafólk." 

Á þessu ári mun ferðaþjónustan fara fram úr sjálfum sjávarútveginum sem gjöfulasti atvinnuvegur landsins en á sama tíma eru þeir kallaðir "öfgamenn, sem eru á móti atvinnuuppbyggingu", sem benda á að aðeins með verndarnýtingu grunnsins að velgengni ferðaþjónustunnar, verndun og varðveislu náttúruundranna, verði hægt að tryggja áframhaldandi viðgang hennar.

Þeir sem kalla náttúruverndarfólk "öfgamenn" telja vafalaust sig sjálfa vera hófsemdarmenn sem krefjast þess að öll virkjanleg orka landsins verði virkjuð fyrir stóriðju og að arðurinn af því hverfi allur úr landi til erlendra stórfyrirtækja.  En þessu halda þeir fram sem algildri stefnu án þess að depla auga. 

Og þegar sex risaálver verða risin, sem krefjast allrar virkjanlegar orku landsins og eyðileggingar náttúru þess, fá aðeins 2% af vinnuafli landsins atvinnu í þessum álverum.

Og séu "tengd störf" tekin með, innan við 5% af vinnuafli landsins. Samt er talað um að þetta sé "eina leiðin til atvinnuuppbyggingar". 

Þá verða eftir 95% af vinnuaflinu, fólki sem samkvæmt skilningi þessara hófsemdnarmanna munu fara aftur inn í torfkofana, þótt búið verði að virkja 15 sinnum meira en við þurfum sjálf til okkar eigin nota fyrir heimilin og fyrirtækja okkar.

Hófsemdarmennirnir miklu gleyma að geta þess að þegar hafa verið reistar um 30 stórar virkjanir sem framleiða fimm sinnum meiri raforku en við þurfum sjálf.

Ævinlega er látið eins og að það sé verið að byrja á núllpunkti, rétt eins og við séum enn inni í torfkofunum.

Það er makalaust að þurfa endalaust að hlusta á þetta torfkofatal, sem hefur verið síbylja síðustu fimmtán árin.

Einhverjir kunna að segja að þetta sé ekki svaravert, - það eigi ekki að vera elta ólar við þetta. En síbyljan heldur samt áfram og þeir sem hana kyrja vita að ef síbyljan er látin óáreitt verður hún að sannleika eins og slunginn maður mælti forðum.  

 


mbl.is „Þú þuklar ekki á Mónu Lísu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Drill, baby, drill" sagði Sarah Palin.

Ál, krakkar, ál segir okkar Sarah Palin, Ragnheiður Elín.

Öfgafullur teboðari orðinn iðnaðararmálaráðherra. Fylgjast þarf vel með kellunni, treysti henni ekki fyrir fimm aura.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 20:51

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja voru 238 milljarðar króna árið 2012.

Erlendir ferðamenn
voru að meðaltali 6,6 gistinætur hér á Íslandi að vetri til en 10,2 nætur sumri til árið 2012.

Það ár voru 77% gistinátta erlendra ferðamanna á hótelum eða gistiheimilum, samtals 2,2 milljónir gistinátta.

Rúmlega 94% þeirra heimsóttu þá Reykjavík sumri til en 72% Þingvelli, Gullfoss eða Geysi og 42% Mývatnssveit en að vetri til 95% Reykjavík og 61% Þingvelli, Gullfoss eða Geysi en 33% Vík í Mýrdal.

Færri
erlendir ferðamenn heimsóttu hins vegar Mývatnssveit sumarið 2012 en Vík í Mýrdal (52%), Skaftafell (48%) og Skóga (45%) en jafn margir heimsóttu Akureyri og Húsavík (42%).

Um 44% gistinátta erlendra ferðamanna voru á höfuðborgarsvæðinu sumri til árið 2012 en 77% vetri til.

Níu af
hverjum tíu Íslendingum ferðuðust innanlands árið 2012, líkt og árið 2011.

Íslendingar voru að meðaltali 15 gistinætur á ferðalögum innanlands árið 2012, þar af samtals 465 þúsund á hótelum eða gistiheimilum.

Og það ár heimsóttu 43% þeirra Akureyri en 27% Þingvelli, Gullfoss eða Geysi og 18% Mývatnssveit.

Þorsteinn Briem, 8.6.2013 kl. 20:59

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ferðaþjónusta hér á Íslandi í tölum árið 2012 - Ferðamálastofa í apríl 2013

1.6.2013:


Líklega nóg komið af álverum - Frosti Sigurjónsson þingmaður Framsóknarflokksins


Um 3,4 milljónir manna heimsóttu Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum árið 2012 en garðurinn var stofnaður árið 1872 og ég veit ekki betur en að hann sé í góðu lagi.

Yellowstone National Park


"Hann var það
, Steini, þegar ég kom þangað 2008."


Ómar Ragnarsson
, 20.3.2013 kl. 21:12

Þorsteinn Briem, 8.6.2013 kl. 21:09

4 identicon

Eins og ég skildi hann, þá var hann að deila á  túrista og hversu óheft aðgengi þeir hafa á náttúruna. Eins og menn vita þá er landið orðið eitt  drullusvað á helstu náttúruminjasvæðum eins og á Gullfossi og Geysi þar sem ferðamenn þramma um þannig að  stór sér á náttúrunni.

Öðruvísi með uppbyggingu iðnaðar þar sem að ekki færst rekstalreyfi fyrir verksmiðju án þess að  allir pappírar séu í lagi varðandi umhverfismál og varúðarráðstafanir, virðist sem  að ferðaþjónusta  fái að gera hvað sem er án leyfa. Leyfi ég mér að  nefna  í því sambandi Þríhnjúkagíga og aðra ferðastaði þar sem engar kröfur  virðast gerðar varðandi mengun eins og iðnaður þarf að búa við.

Umhverfið við álverið í Straumsvík er snöktum betra en víða hér í Reykjavík eða annarsstaðar á helstu ferðamannastöðum  á landinu.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 21:19

5 identicon

"......þar sem að ekki fæst rekstrarleyfi fyrir verksmiðju án þess að allir pappírar séu í lagi varðandi umhverfismál og varúðarráðstafanir."

Nonsence. Pappírar kannski í lagi (the proof of the pudding is the eating), þó spúa þeir út öllu sem hugsast getur. Og enginn fylgist með, control Null. 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 21:41

6 Smámynd: Sigurður Antonsson

Sara Palin er mikill útilífsmannseskja og náttúrubarn. Olíuiðnaðurinn blómstraði þegar hún var ríkisstjóri og fyrir hennar tilstuðlan var lagt á sérstakt olíugjald sem rann til Alaska.

Ragnheiður Elín kom á óvart þegar hún fór í smiðju Steingríms á Bakka. Vildi kanna meiri eftirgjafir án þess að samningar um orkuverð lægju fyrir. Margt hefur breyst síðan Kárahnúkavirkjun varð að veruleika?

Sigurður Antonsson, 8.6.2013 kl. 21:48

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Rafn Haraldur Sigurðsson,

Þá er að ráða fleira fólk til að gera til dæmis nýja göngustíga og halda þeim eldri vel við, svo og landvörslu allt árið.

Útgjöld erlendra ferðamanna
til íslenskra fyrirtækja voru 238 milljarðar króna árið 2012 og ekki ætti nú að vera mikið mál að verja litlu broti af þeirri upphæð til slíkra verka.

"Erlendir sjálfboðaliðar (Iceland Conservation Volunteers) hafa komið til Íslands undanfarin sumur til að sinna viðhaldi og dýrmætum úrbótum á friðlýstum svæðum og útivistarperlum Íslands."

Þorsteinn Briem, 8.6.2013 kl. 21:51

8 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Hvað ætli mörlandanum þætti ef Kínverjar yfirtæku álbræðslu Alkóa og vildu segja upp „rándýru“ íslensku vinnuafli en flytja hingað 500 Kínverja til að vinna sömu störf?

Þess má geta að þeir hafa yfirtekið Járnblendið og spurning hvenær „hagræðing“ í rekstri í þessa átt verði staðreynd.

Því miður er svo, að í huga vissra valdamanna er náttúruvernd sama og að vera á móti öllu. Hverjir skyldu hafa verið á móti nýrri stjórnarskrá, Rammaáætlun, skattlagningu hátekjumanna og útgerðarinnar, breytingu á Stjórnarráðinu og ýmsum öðrum mikilsverðum málum? Í raun eru þessir sömu aðilar fulltrúar versta afturhaldsins á Íslandi. Það eru „jakkalakkarnir“ með hálstauið og hvítu skyrturnar sem græða á daginn á kostnað okkar hinna og grilla á kvöldin. Einnig meira og minna á kostnað okkar hinna.

Svo gefa þessir menn út „Móatíðindin“ gamla Morgunblaðið. Þar birtist eitthvað aumkunarverðasta íhaldsraus á gjörvöllum Norðurlöndum, jafnvel þó víðar væri leitað.

Guðjón Sigþór Jensson, 8.6.2013 kl. 22:10

9 identicon

Góður Guðjón. Nákvæmlega. Hugmyndasnauðir afturhaldsraftar.

Ömurlegt lið, grillandi og græðandi, en alltaf á kostnað annara.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 22:29

10 identicon

Steini Briem,

Ég er sammála þér að það beri að halda í horfinu  og fyrirbyggja að aukin umferð um landð verði ekki  náttúrunni til skaða. Og ef einhver vill byggja stíga fyrir ekki neitt, þá er það hið besta mál, en er ekki eitthvað sem hægt er að byggja  á til framtíðar.  

Kanski er kominn tími til að þeir sem troða niður landið borgi fyrir uppbygginguna?

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 22:45

11 Smámynd: Þorsteinn Briem

Rafn Haraldur Sigurðsson,

Ferðaþjónusta hér á Íslandi er til framtíðar.


Hvað skrifaði ég hér að ofan?!

"Þá er að ráða fleira fólk til að gera til dæmis nýja göngustíga og halda þeim eldri vel við, svo og landvörslu allt árið.

Útgjöld erlendra ferðamanna
til íslenskra fyrirtækja voru 238 milljarðar króna árið 2012 og ekki ætti nú að vera mikið mál að verja litlu broti af þeirri upphæð til slíkra verka."

Þorsteinn Briem, 8.6.2013 kl. 23:01

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Erlendum ferðamönnum hér á Íslandi FÆKKAÐI á milli ára um 2% árið 2009, þrátt fyrir gengishrun íslensku krónunnar haustið 2008.

Gríðarleg fjölgun
erlendra ferðamanna hérlendis frá árinu 2009 skýrist því væntanlega að mestu leyti af öflugri landkynningu síðastliðin ár, jafnvel einnig eldgosum hér árið 2010 og dvöl frægra útlendinga hérlendis, frekar en gengishruni íslensku krónunnar haustið 2008.

Frá ársbyrjun 2010 þar til nú hefur gengi evrunnar og dönsku krónunnar LÆKKAÐ um 12% gagnvart íslensku krónunni en verð á vörum og þjónustu hér á Íslandi hækkað í íslenskum krónum um 16%.

Og frá sama tíma hefur gengi Bandaríkjadollars LÆKKAÐ gagnvart íslensku krónunni um 3%, breska sterlingspundsins um 8%, norsku krónunnar um 4%, Kanadadollars um 2% og japanska jensins um 10%.

Þar af leiðandi er nú MUN DÝRARA fyrir langflesta erlenda ferðamenn að ferðast hingað til Íslands en í ársbyrjun 2010.

Steini Briem
, 3.6.2013 kl. 20:03

Þorsteinn Briem, 8.6.2013 kl. 23:06

13 identicon

Steini Briem!

Já ég er alveg sammála þér!

En svo vil ég bæta við þar sem þú sagðir að allt væri í lagi í Yellowstone, það er ekki alveg rétt? 

Að vísu er fallegt í Yellowstone, og mig minnir að ég hafi borgað 25 dollara fyrir viku passa fyrir bílinn en ég tók eftir því hversu stór hluti hans hafði brunnið í skógareldurm. 

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 23:09

14 identicon

Gott að þú minnir á þetta Steini Briem. Enn er fullyrt að Ísland sé svo ógeðslega ódýrt vegna krónunnar. En innbyggjarar eru æri snöggir í verð hækkunum, standa þar flestum ef ekki öllum á sporði.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 8.6.2013 kl. 23:18

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í Yellowstone-þjóðgarðinum greiða gestir gjald fyrir þjónustu og kostnað við viðhald garðsins en ekki til að sem fæstir komi þangað.

Laun þjóðgarðsvarða og gerð til að mynda bílastæða og nýrra göngustíga, svo og viðhald þeirra gömlu er að sjálfsögðu ekki ókeypis.

Yellowstone National Park Service - Fees and Reservations

Þorsteinn Briem, 8.6.2013 kl. 23:32

16 identicon

Rafn Haraldur:

"Eins og menn vita þá er landið orðið eitt  drullusvað á helstu náttúruminjasvæðum eins og á Gullfossi og Geysi þar sem ferðamenn þramma um þannig að  stór sér á náttúrunni."

Mig langar til að vita hvenær þú varst þar síðast. Og hvaða samanburð þú hefur m.v. fyrir 10 árum, 20 árum eða lengur.
Ég var þarna í dag með ferðamenn. Líka í fyrradag. Og líka í síðustu viku. Og oftsinnis fyrir 20-25 árum, þegar ferðamannafjöldinn var bara brot af því sem hann er í dag.
Eins og það var, þá hefði ekki verið möguleiki að taka á móti þessum fjölda líkt og í dag, - ætli fjöldi ferðamanna hafi ekki áttfaldast á svona 25 árum eða svo (kannski 28).
Ég fullyrði að "drullusvöðin" hafi verið verri þá, rusl meira, og áhætta m. slys mun meiri.
Merkingar eru í dag betri, og mikil uppbygging búin að eiga sér stað með pallastíga og girðingar.
Það sem vantar er meiri dreifing á þéttleika fólks (t.a.m. með fleiri stöðum að sækja heim) og að halda áfram á stefnu með betra aðgengi á þessum stöðum sem mikið eru heimsóttir.
Mér gengur enn illa að finna landskemmdir af átroðningi Rafn, en sæmilega að finnaýmislegt "annað".
Og aftur Rafn, - :
"Kanski er kominn tími til að þeir sem troða niður landið borgi fyrir uppbygginguna?"
Kannski er ekki rétt gagnvart viðkomandi, - Kannski er kominn tími til að sá peningur sem plokkaður er af okkar gestum í formi VSK, Eldsneytisgjalda, Flugvallargjalda, og almenns okurs+VSK af því skili sér í einhverju formi til aðstöðubóta. Þetta er sívaxandi pottur upp á tugmilljarða, fullur VSK af útflutningsgrein sem er að skríða fram úr sjávarútvegi, vaxtarmöguleikinn er verulegur að auki.
Hverjir eru annars þeir sem troða niður landið? Eða troða niður landi?

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 01:09

17 identicon

Það eina sem við "virkjunarsinnar" förum fram á er að í stað þess að tala um að gera eitthvað annað þá komi menn með RAUNHÆFAR tillögur.

Það er ekki einsog ekki hafi verið reynt að hlúa að annarri atvinnustarfsemi og lokka til landsins annars konar fyrirtæki en álver.

Menn einblína á hvað ferðamenn eyða hér á landi en ég hef ekki séð neinar tölur um kostnaðinn þeim samfara.

Grímur (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 07:34

18 identicon

Það er eðlilegt að taka gjald fyrir þá sem fara á þessi svæði og það verði notða til uppbyggingar. Þetta er allstaðar gert nema á Íslandi.

Einnig væri hægt að stór auka aðkomu leyðsögumanna á íslandi að ferðabransanum, eðlilegt væri að þegar fólk fer í lokaða garða eða á hálendisleiðir að þeir þurfi að vera með leiðsögumenn eins og þekkist á mörgum stöðum erlendis.

AÐ sjálfsögðu þyrfti að stjórna verðlagningu þar sem að það er þekkt hérna að menn rukki óhóflega. Mér finnst ekkert að því persónulega að borga 100 kall fyrir að fara á klósett á Hveravöllum en þegar það er orðið 3-400 þá hugsar maður sig um. Einnig er þekkt erlendis að heimafólk borgi minna og er það mjög eðlilegt

Einar (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 09:57

19 identicon

Grímur, - innheimtur VSK á allt það sem ferðamenn hér eyða kemur að almestu án nokkurs kostnaðar ríkissjóðs. Og þetta eru svimandi tölur.
Hvað ferðaþjónustufyrirtækin varðar, þá er það flóknara en kannski eitt álver, þar sem þau skipta þúsundum. En flest virðast nú lifa, vaxa og dafna allsæmilega.
Sú atvinnustarfsemi sem mest hefur verið "hlúð að" myndi svo geta talist stóriðja, þar sem á þeirri grund setti ríkið sig í gríðarlegar skuldbindingar, - nógar til að allt sem lagt hefur verið í t.d. ferðamennskuna er smáræðið eitt. Smælki. Snakk. Nada. Penny-pocks. Klínk. Kleingeld. Smánarlegt kák. Og svo baula stóriðjusinnar yfir því að það sé verið að labba landið í svað, á meðan maður fer aftur og aftur heilu túrana með ferðamenn án þess að þurfa að svo mikið sem þrífa spariskóna. Var t.d. á Gullfossi, Geysi, og Þingvöllum í gær, og tókst ekki að finna nein svöð, - en gönguleiðirnar eru nú flestar á timbri.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 10:02

20 identicon

Jón Logi er á réttu róli að hamra á þeim 30-40 milljörðum sem ríkið mun hafa í Vsk tekjur af erlendum ferðamönnum.

Þessar tekjur verður að meta í því ljósi að ríkið hefur ENGAR Vsk tekjur af vinnslu og veiðum á útfluttum fiski eða álverum og stórvirkjunum.

Ferðaþjónustan borgar því margfalt auðlindagjald á við útgerðina og orku og ál geirinn greiðir nær ekkert.

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 10:09

21 identicon

Þó menn bendi réttilega á mikinn beinan kostnað sem við höfum af ferðamönnum hér á landi í formi uppbyggingar á "ferðamannastöðum"...lesist...helstu náttúruperlum Íslands, þá má ekki gleyma óbeinum kostnaði líka.

T.d. stór hluti kolefnisfótspors Íslands felst í flutningi á þessum ferðamönnum til og frá landinu auk útblásturs frá öllum bílaleigubílunum sem eru keyrðir stanslaust um landið allt sumarið. Ég hef heyrt menn giska á að 1 milljón í útflutningstekjur af áli skili minna af CO2 en 1 milljón frá ferðamanni. Ég veit ekki hvort það er rétt...

Annað er að feramannafaraldurinn er að gera það að ömurlegri lífsreynslu að ferðast um landið. Upplifun barnanna okkar er allt önnur en okkar upplifun var sem börn...mannþröngin er orðin slík. Það er meira að segja orðið ónæði af yfirflugi flugvéla og þyrlna sem flytja ferðamenn í uppsveitum Árnessýslu.

Ferðamannaiðnaðurinn er alls staðar talinn ógn við umhverfið (sjá t.d. Flórída) og þjóðir sem reiða sig á ferðamenn í sama mæli og Íslendingar í dag hefur ekki tekist að halda uppi lífskjörum á par við nágranna (sjá t.d. Spán, Grikkland).

Að ferðamenn séu einhverjir "bjargvættir" frá "stóriðjustefnu" er bara villuljós. Mér hugnast ekki sú framtíðarsýn að við séum þjóð rútubílstjóra og herbergisþerna...

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 10:23

22 identicon

Það eru ýkjur á báða bóga. Vonandi komast menn á jörðina og tala af skynsemi. Það virðist eina áhugamál "umhverfisverndarsinna" að ráðast gegn hverskonar orkumannvirkjum. Á hinn bóginn velja þeir fjölga ferðamönnum, á sama tíma og aðstæður til móttöku þeirra eru í molum. Allskonar vafasamir gististaðir, aðstöðuleysi við helstu náttúruperlur, sbr, Þingvelli, Dettifoss, Geysi og svo má lengi telja. Mengun við strendur þéttbýlisstaða, o.s.frv. Ekki ljúga, ekki ýkja, haldið ykkur við staðreyndir.

Stearn (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 12:25

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ísland er eitt strjálbýlasta land í heimi.

Þeir sem ekki eru á ferðalögum utan síns heimabæjar ferðast þar flestir nær daglega til og frá skóla og vinnu. Og fólk er yfirleitt ekki á ferðalögum utan síns heimabæjar nema nokkrar vikur á ári.

Langflestir menga því mun meira í sínum heimabæ en utan hans, hvort sem þeir búa hérlendis eða erlendis.


Í hverri rútu og flugvél eru yfirleitt fjölmargir farþegar en í hverjum einkabíl á höfuðborgarsvæðinu hér á Íslandi er eingöngu bílstjórinn í fjölmörgum tilfellum.

Ef erlendir ferðamenn kæmu ekki hingað til Íslands myndu þeir ferðast til annarra landa og menga álíka mikið í þeim ferðum.

Og innan við 1% af flugvélaflota Evrópu flýgur með farþega sem hér dvelja.


Þar að auki er yfirleitt ekki hægt að banna útlendingum að koma hingað til Íslands eða Íslendingum að veita þeim þjónustu.

Þorsteinn Briem, 9.6.2013 kl. 13:52

24 identicon

Það er erfitt að vera með rök í máli þegar forstjóri Landsnets kemur með fullyrðingar sem standast ekki barnaskóla eðlisfræði. Akademíst menntaðir menn láta pólítíkusa ráða sínum ummælum.

Þorgeir Þorsteinsson (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 13:56

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vísindavefurinn:

"Regnskógareyðing er í öðru sæti, á eftir notkun jarðefnaeldsneytis, yfir það sem veldur mestri koltvíildismengun á jörðinni.

Skógareyðing á einum degi losar meira koltvíildi út í andrúmsloftið en tugþúsundir flugvéla sem fljúga á milli Bandaríkjanna og Evrópu.
"

Þorsteinn Briem, 9.6.2013 kl. 14:00

26 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ferðamenn sem eru erlendir ríkisborgarar og búa ekki á Íslandi geta fengið hluta virðisaukaskatts af vörum endurgreiddan."

"Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt til erlendra ferðamanna af varningi sem þeir hafa fest kaup á hér á landi."

"Heimilt er að endurgreiða virðisaukaskatt af vörum á einum og sama vörureikningi sé kaupverð þeirra samtals fjögur þúsund íslenskar krónur eða meira ásamt virðisaukaskatti, þó einn eða fleiri munir nái ekki tilskilinni lágmarksfjárhæð.
"

"Það er skilyrði endurgreiðslu að kaupandi vörunnar hafi hana með sér af landi brott innan þrjátíu daga frá því er kaup gerðust."

Endurgreiðsla á virðisaukaskatti erlendra ferðamanna hér á Íslandi gildir því ekki til að mynda um þjónustu, svo og mat og drykki á veitingahúsum, hvað þá salernisferðir.

Reglugerð um endurgreiðslu á virðisaukaskatti nr. 294/1997 með síðari breytingum

Þorsteinn Briem, 9.6.2013 kl. 14:04

27 identicon

Endurgreiddur VSK (TAX-BACK) er afar auð-rýnanleg tala, þar sem mest allt fer í gegn um Leifsstöð. Laukrétt hjá Steina að benda á þjónustuliðinn o.þ.h. sem ekki er undanþeginn VSK.
Svo ber þess að gæta að allir þeir sem starfa við ferðaþjónustu eru skattskyldir, og svo allur hagnaður af þeirra starfsemi.
ERGO: Ríkissjóður er að moka inn ótrúlegu fjármagni frá erlendum gestum okkar.

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband