9.6.2013 | 11:31
Áttum fjármálaráðherra, sem var töframaður.
Kátrín Jakobsdóttir er að vísu fyrsta konan sem gengur í Hið íslenska töframannafélag en hún er ekki fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn sem kann fyrir sér í töfrabrögðum.
Tómas Árnason, sem var Alþingismaður 1974-84, fjármálaráðherra 1974-78 og viðskiptaráðherra 1980-83, var nokkuð sleipur töframaður, þótt hann væri ekki að flíka því.
Á þeim tíma var ekki til neitt félag töframanna á Íslandi en ég gæti vel trúað því að Tómas hefði verið gjaldgengur i þvi félagi, því að ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá hann framkvæma töfrrabrögð sín á skemmtunum á Sólheimum í Grímsnesi við góðar undirtektir og hrifningu samkomugesta, sem voru heimamenn og gestir úr Reykjavík.
Tómas var virkur félagi í Lionsklúbbnum Ægi og fór árlega ferðir með félögum í klúbbnum, sem einbeitti starfi sínu að uppbyggingu og stuðningi við Sólheima.
Tómas var ekki aðeins lipur og vinsæll stjórnmálamaður heldur bjó hann yfir ýmsum hæfileikum. Hann var til dæmis liðtækur frjálsíþróttamaður á yngri árum og keppti í ýmsum ólíkum greinum, enda skyldur Vilhjálmi Einarssyni.
Ekki fer sögum af því hvort töframannshæfileikar Tómasar nýttust honum í embættum fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, enda þótt full ástæða hefði verið til að nýta sér slíka kunnáttu í þeim embættum, enda flíkaði hann þeim ekki nema í innsta vinahópi.
Hann framkvæmdi þau til dæmis aldrei á hinum geysifjöllmennu og vinsælu kútmagakvöldum Ægis þar sem margir af helstu áhrifamönnum á ýmsum sviðum þjóðfélagsins voru gestir.
Tómas verður níræður í júlí næstkomandi og þarf vonandi engin töfrabrögð til að ná þeim virðulega og háa aldri.
Viðskiptaráðherrar þurfa helst að kunna nokkuð fyrir sér á sviði viðskiptanna og líklega hafa hvergi verið framkvæmd stórkostlegri töfrabrögð á Íslandi en þar voru höfð í frammi í aðdraganda Hrunsins.
Nær allir trúðu því að í gangi væri einhver stórkostlegasta og pottþéttasta viðskiptasnilld í heimssögunni, "tær snilld", "ný hugsun", "Kaupthinking", dæmi um andlega yfirburði þjóðarinnar sem hefði fóstrað nokkra helstu landkönnuðum sögunnar.
Þessu lýstu kannski best orð Björgólfs Thors Björgólfssonar í heimildamynd Helga Felixsonar um Hrunið.
Eftir að lýst hafði verið í myndinni hvernig virði og arður í rekstri fyrirtækja margfölduðust á ógnarhraða með því að stunda kaup og sölur á þeim með tilheyrandi kennitöluflakki og áætlaðri aukningu viðskiptavildar upp á tugi milljarða í hvert sinn, var Björgólfur spurður, hvað hefði orðið um alla þessa peninga sem telja mætti í hundruðum milljarða.
"Þeir hurfu bara" var svarið og við slíku svari ofurtöframanns var ekkert hægt að segja.
Óvenjulegt tómstundagaman formanns VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
En Sigmundur Davíð og Framsóknarflokkurinn voru orðaðir við töfrabrögð fyrir kosningar.Eru þetta ekki alvöru töframenn?
Jósef Smári Ásmundsson, 9.6.2013 kl. 11:56
Átta mig ekkert á þessu en það skiptir nákvæmlega engu máli.
Aðalatriðið er að við sitjum uppi með ríkisstjórn sem virðist ofar raunveruleikanum. Lesið eigin pistil Sigmundar Davíðs: http://sigmundurdavid.is/ad-berjast-vid-eigin-fuglahraedur/
Þarna eru rökfærslur þessa manns ansi frjálslegar og maðurinn virðist lifa í allt öðrum raunveruleika en flestir aðrir landsmenn. Svona hefur heimurinn setið uppi með áþekka þokkapilta sem sumir leiddu af sér miklar hörmungar og hrylling eins og einn strákur uppalinn í Austurríki, Adolf nokkur að nafni, sem ekki hneppti tölur sínar sömu hnöppum og aðrir samtíðarmenn hans.
En sjálfsagt er að leyfa honum að sprikla um stund, hann var ansi brattur í kosningaloforðum rétt eins og Adolf á sínum tíma. Mætti þakka guðunum fyrir að enginn er her á Íslandi, þá gæti farið illa.
Góðar stundir en helst án framsóknarfyrirhyggjunnar.
Guðjón Sigþór Jensson, 9.6.2013 kl. 16:30
Íslenskir töframenn:
Um tíma var ég öryggisvörður í Seðlabankanum og sá á hverju kvöldi þegar ég var þar á vakt að skrifborð Jóhannesar Nordal, seðlabankastjóra 1961-1993 og töframanns, var þakið alls kyns útreikningum og minnismiðum.
Bankastjórar Seðlabankans voru hins vegar þrír þegar ég var þar öryggisvörður og hinir tveir voru framsóknar- og töframaðurinn Tómas Árnason og sjálfstæðis- og töframaðurinn Geir Hallgrímsson.
Geir Hallgrímsson var forsætisráðherra á árunum 1974-1978 en verðbólgan hér á Íslandi fór í um 50% árið 1975.
Tómas Árnason var fjármálaráðherra á árunum 1978-1979 og viðskiptaráðherra 1980-1983 en það ár fór verðbólgan hér í 84%.
Ekki var hins vegar að sjá að á skrifstofum Tómasar og Geirs væri nokkuð unnið, fyrir utan ræstingar.
Skrifborðin voru auð, engar bækur í hillunum, engar tölvur komnar þá og ekki nokkrar mannvistarleifar yfirhöfuð.
Alþýðuflokks- og töframanninum Jóni Baldvini Hannibalssyni var á þessum árum tíðrætt um "blýantsnagara" í Seðlabankanum en engin sönnunargögn fann ég þar um blýantsnag seðlabankastjóranna.
Jón Baldvin Hannibalsson var fjármálaráðherra 1987-1988 en verðbólgan hér fór í um 25% árið 1987.
Alþýðubandalags- og töframaðurinn Ragnar Arnalds, átrúnaðargoð Jóns Vals Jenssonar, var hins vegar fjármálaráðherra á árunum 1980-1983.
Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og forsætisráðherra, nú á jötu sægreifanna og kominn út í móa, er einnig mikill töframaður.
Stýrivextir Seðlabanka Íslands voru komnir í 18% haustið 2008 og verðbólgan hér á Íslandi var 18,6% í janúar 2009, þegar Davíð Oddsson var ennþá seðlabankastjóri og töframaðurinn Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra.
Mikla töframenn þyrfti hins vegar til að brjótast inn í gullgeymslu Seðlabankans, því þar er handleggsþykk stálhurð og einungis tveir menn kunna á talnalásinn.
Á milli útveggja geymslunnar er lofttæmi og komist loft þar inn hringja viðvörunarbjöllur með svo miklum látum að Breiðhyltingar myndu þeytast upp úr lúxusrúmunum sínum frá Víðishúsgögnum, sem smíðuð voru á sjöunda áratugnum.
Einungis einu sinni fór ég í gullgeymsluna, og þá ásamt yfirmönnum bankans, lyfti þar einum hinna meintu gullklumpa til að að kanna hvort hann væri ekki úr plasti og því enn ein töfrabrögð Mörlendinga í efnahagsmálum.
Þungur var hann en ég gæti hins vegar best trúað að hið meinta gull sé í raun brennisteinskís og því í raun glópagull.
Hagsaga Íslands
Verðbólgan hér á Íslandi 1940-2008
Þorsteinn Briem, 9.6.2013 kl. 16:55
"Árið 1980 skáru stjórnvöld tvö núll aftan af íslensku krónunni, þannig að í einu vetfangi urðu 100 krónur að einni krónu.
Ef þetta hefði ekki verið gert hefði á árinu 2000 hálfur lítri af kók kostað í sjoppu hér á Íslandi um tíu þúsund íslenskar krónur."
Þorsteinn Briem, 9.6.2013 kl. 17:19
Frábær pistill Steini Briem. Frábær!
Oft er húmorinn eina vopnið gegn bulli innbyggjara.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 9.6.2013 kl. 17:20
Já, nú sé ég að það var margt líkt með síðustu ríkisstjórn og sirkushópnum sem ég skrifaði um hér: http://fornleifur.blog.is/blog/fornleifur/entry/1301876/
Þarna voru í báðum flokkum töframenn og stjórnendur með hvítt úfið hár og utanríkistrúður.
FORNLEIFUR, 9.6.2013 kl. 18:14
Takk, Steini, fyrir innleggið. Þegar Halldór E. Sigurðsson var ráðherra notaði hann flott töfrabragð til þess að komast hjá því að nota orðið gengisfelling þegar gengi krónunnar var aftur og aftur. Hann harðneitaði að um gengisfellingu væri væri að ræða, heldur væri á ferðinni "gengissig í einu stökki".
Ómar Ragnarsson, 9.6.2013 kl. 19:36
Afsakið, að orðið "fellt" vantar í setninguna "þegar gengi krónunnar var fellt aftur og aftur.
Ómar Ragnarsson, 9.6.2013 kl. 19:37
Tómas Árnason varð svo Seðlabankastjóri í nokkur ár. Alveg til 1993, minnir mig.
Með gengisfellingar á þessum árum, þá man maður vel eftir þeim. Eilíft argaþras og feluleikur í kringum efnið. Því það mátti helst ekki fréttast hvenær nákvæmlega gengið átti að breytast.
Það var alltaf verið að hringla með gengið og raun snrei spurningin alltaf eða matsatriðið að því, hve mikið ætti að fella gengið. Ekki hvort heldur hve mikið. Eg man að í eitt skipti fann Tómas uppá því að það væri raun ekki verið að fella gengið. Það væri verið að breyta viðmiðinu! Var í sjálfu sér rétt hjá honum. 'islensk króna er bara ákveðið viðmið við erlenda alvöru gjaldmiðla og við þetta viðmið er notast hér innanlands einhverra hluta vegna.
Alveg skrautlegt náttúrulega.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 9.6.2013 kl. 22:20
Árið 1904 var tímakaup í verkamannavinnunni 25 aurar. Þrem árum síðar eða fjórum kostaði kýr 100 krónur. Verkamaðurinn þurfti að vinna í 400 tíma til þess að geta keypt sér kú.
Á Kreppuárunum var kaupið komið í 1 krónu og 30 aura. Sumarið 1968 var kaupið í Garðyrkjunni í Reykjavík 49 krónur 75 aurar. Og nokkrum árum seinna eða um miðjan 8. áratuginn komst eg í það að kaupa 2ja herbergja íbúð í Verkamannabústöðum fyrir vinnu í Sigöldu í 3 sumur.
Í vetur voru mánaðarlaunin að passa krakka í Skólaseli tæp 100.000 krónur eða litlu minna en kýrverðið var fyrir rúmri öld en verðmætamat Ríkisskattstjóra metur kúna núna á 108.000 krónur.
Svona er sagan endalausa um kaup, kaupmátt og dýrtíðina í landinu. Er von að þessi fræði séu kennd við hin döpru vísindi?
Góðar stundir!
Guðjón Sigþór Jensson, 12.6.2013 kl. 22:21
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.