Neðanjarðar dekkjahagkerfi í gangi ?

Dekkjaþjófnaður virðist vera orðinn nokkurs konar atvinnugrein hóps manna hér á landi og í gangi ákveðið hagkerfi verslunar með notuð dekk.

Fyrir hálfu öðru ári var stolið frá mér bíl, sem stóð á bílasölu og hirt undan honum 38 tommu nýleg óg nær óslitin jeppadekk með fallegum felgum, en þetta tvennt var helsta verðmæti bílsins, sem var orðinn 20 ára gamall. 

Í rannsókn minni á þessu máli var skyggnst inn í heim þjófnaða af þessu tagi, sem er ekki ólíkur fíkniefnaheiminum að því leyti að það er á margra vitorði hverjir eru að verki og hverjir stjórna þessu, jafnvel meðan þeir sitja og afplána dóma á Hrauninu.

En það að sitja í fangelsi er auðvitað einhver besta fjarvistarsönnun, sem hugsast getur!  

Þjófarnir boruðu gat á bensíngeymi bílsins til að geta náð af honum sem mestu bensíni, söguðu af honum stigbrettin og hirtu rúðuþurrkur og númer, sem væntanlega voru síðan notuð til að stela bensínu á bensínstöðvum með því að setja þau á aðra bíla.

Nú nýlega var stolið af öðrum 20 ára verðlausum smájeppa í minni eigu, sem stóð á geymslulóð,  35 tommu óslitnum dekkjum með góðum felgum og bíllinn skilinn eftir standandi á bremsuskálunum.

Þjófarnir eru vel að sér um bíla og stór og dýr jeppadekk með tilheyrandi felgum ásamt aukabúnaði eru pottþétt verðmæti.   

Í fyrra tilfellinu tilkynnti ég þjófnaðinn til lögreglu og notaði bloggsíðu mína til þess að reyna að upplýsa málið. Sjálfur fann ég atriði sem þrengdu hringinn svo mjög, að ég gæti vitað hver stóð fyrir þjófnaðinum, hvað þeir hétu sem voru handbendi hans og útsendarar, sem frömdu verknaðinn og meira að segja hvar þýfi þessa þjófnaðahrings væri geymt í skemmu.

En allt kom fyrir ekki. Það vantaði nægilega örugg sönnunargögn. Þegar seinni þjófnaðurinn dundi yfir tók því ekki að tilkynna lögreglu um hann.

Þegar fyrri jeppinn stóð eftir strípaður fór ég af rælni að skoða hvort hægt væri að finna dekk í staðinn sem ég réði við að kaupa.

Þá var engu líkara en skyggnst væri inn í hinn enda þessa neðanjarðarhagkerfis, sölu á notuðum dekkjum.

Upp í hendur mér bárust samdægurs 38 tommu dekk, að vísu svolítið slitin, en þó vel nothæf, fyrir lítið brot af verði dekkjana, sem hafði verið stolið.

Ég ætlaði að fara að skyggnast inn í þennan kima með því að reyna að rekja feril dekkjanna og skoðaði netsíður, þar sem dekk eru auglýst, en það bar engan árangur.

Svo virðist sem eitt atriðið í því að viðhalda þessu neðanjarðarhagkerfi í dekkja- og felgusölu sé að eigendaskiptin séu ekki ein, heldur fleiri.

Og lágt verð bendir til þess að þegar dekkjaþjófarnir eru hvað afkastamestir, verði framboðið á notuðum dekkjum það mikið að verðið fellur.  

Ekki er óhugsandi, að ef ég hefði átt meiri peninga og reynt að kaupa lítið notuð 38 tommu dekk hefði ég fengið stolnu dekkin mín til baka með gríðarlegum afslætti!  

 


mbl.is Grímuklæddur dekkjaþjófur á ferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband