22.6.2013 | 15:10
Af hverju mistókst þeim "eyðileggingin" í 10 þúsund ár ?
Íslenski refurinn hafði algeran frið frá afskiptum manna í minnst 10 þúsund ár fyrir landnám til þess að "eyðileggja lífríkið" eins og sagt er að hann sé að gera núna, til dæmis á Hornströndum, þar sem hann er friðaður.
Ég velti því fyrir mér hvers vegna honum sé að takast það nú á örfáum árum, sem honum mistókst á þúsund sinnum lengri tíma, því að ekki er vitað annað en að landnámsmenn hafi sagst hafa komið að blómlegu lífríki þegar þeir námu land.
Sá eini, sem var höfðingborinn, Geirmundur Heljarskinn, nam meira að segja land á Hornströndum, þar sem lífríkið hefði átt að vera löngu dautt vegna refsins.
Þegar hvalveiðar hófust hér við land á 19. öld höfðu hvalir sömuleiðis haft gott næði í friði frá afskiptum mannsins í hundruð þúsunda ára til þess að "eyðileggja fiskistofnana". Samt hafði þeim ekki tekist það, en nú segja sumir að það verði að veiða þá hressilega til þess að bjarga fiskistofnunum.
Raunar er sá fjöldi hvala, sem nú er veiddur, svo örlítið brot af hvalastofnunum í heild, að það þyrfti að margfalda hvalveiðarnar til þess að þær hefðu einhver áhrif í þessu efni.
Fyrir 25 árum spurði ég hvalasérfræðing út í þetta, en þá höfðu hvalveiðar nýlega verið bannaðar, og svar hans var það, að náttúran leitaði yfirleitt sjálf nýs jafnvægis við aðstæður sem þessar.
Þegar hvölum hefði fjölgað upp að ákveðnu marki, myndi fæðuskortur sjá til þess að halda stærð stofnsins í skefjum.
Ég hef svosem ekkert við refaveiðar að athuga umfram aðrar nytjar manna af veiðum á dýrum og fiskum, sem samkomulag er um. Og betur gest mér að fuglasöng og fuglalífi en að vita af tilvist refsins.
En alhæfingar um "eyðileggingar"mátt refa og hvala, nánast gereyðingarmátt, sýnast vera hæpnar.
Og ef menn telja það hressa upp á mófuglana að veiða ref, þá er það mér að meinalausu að þeir geri það og segi það sama og Laddi lagði í munn norðlensku skyttunni: "Skjóta helvítið'"
Tófan að eyðileggja lífríkið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Refir og hvalir voru ekki í samkeppni við manninn á þeim tíma. Ef refir útrýma fuglunum í kringum sig, þá fækkar þeim. Svo jafnar lífríkið sig aftur og hringferðin hefst á ný. Sömuleiðis ef dýrategundum fjölgar óeðlilega mikið, þá tekur náttúran í taumana. Sjúkdómar aukast vegan þéttleika.
Í annálum fyrri alda er oft talað um algjöran aflabrest. Ekki var það vegan ofveiði mannsins, en gæti það hafa verið vegan offjölgunar hvala?
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.6.2013 kl. 15:53
"Ísbrúin gerði refnum kleift að sækja til Íslands frá mismunandi heimskautasvæðum, svo sem frá Norður-Ameríku, Grænlandi og Rússlandi."
"Genasamsetning refanna til forna [hér á Íslandi á 9.-12. öld] var ætíð hin sama en núverandi refastofnar á Íslandi hafa fimm afdráttarlaus genamengi."
Melrakki - refur.
"[Árið] 1306 II. Forniannáll: Braut skip norður við Melrakkasléttu og týndust nær 70 manna."
"Heimskautsrefurinn eða fjallarefurinn er ein af tuttugu tegundum refa í heiminum og býr nyrzt þeirra allra."
"Hann færði sig norður eftir Evrópu með hopandi ísaldarjöklinum og varð hér eftir þegar ísbrýr hans rofnuðu og einnig er líklegt að refir hafi borizt hingað með rekísnum frá Grænlandi á ísaárum.
Þeir eru fylginautar hvítabjarna langt út á hafísinn eins og Hansaleiðangurinn varð var við á árunum 1869-70, þegar refur fannst miðja vegu milli Íslands og Grænlands."
Heimskautsrefurinn
Melrakkasetur Íslands í Súðavík
Þorsteinn Briem, 22.6.2013 kl. 16:03
Maðurinn talar um að draga úr "ójafnvæginu", verið sé að "mismuna náttúrunni", því verði að grípa til stórtækra aðgerða.
Hætt er við því að menn verði ekki á eitt sáttur um þetta svokallaða "ójafnvægi"og að í mörg horn verði að líta ef við ætlum að stilla strengi náttúrunnar með tilliti til skammtímahagsmuna og "sentimentality".
Látum náttúruna og Darwin kallinn taka á þessu?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.6.2013 kl. 16:31
Góð spurning. En sennilega er minknum um að kenna. Minkur hefur ekki verið hér á landi nema nokkra áratugi, en í sveitarfélagi þar sem ég þekki til austur á landi dettur engum í hug að skella skuldinni á refinn þótt mófuglarnir séu hættir að syngja. Ef til vill má líka kenna fæðusamkeppni við minkinn að refurinn leiti meira til mannabyggða en áður.
Hvað hvalinn varðar þá veit enginn neitt um hvað raunverulega er í gangi í úthöfunum. Þó mun hvalurinn eiga náttúrulega óvini, svo sem hákarla. Gæti verið að hákörlum sé að fækka - las það síðast í dag að einhverjar hákarlategundir séu að hverfa.
Kolbrún Hilmars, 22.6.2013 kl. 16:39
Eitt hundrað hrefnur eru um 0,2% af hrefnustofninum hér við Ísland og 150 langreyðar um 0,4% af langreyðarstofninum.
Þar að auki er langreyðurin einungis hluta af árinu hér við Ísland.
Hrefnur og langreyðar éta mjög lítið af verðmætasta fiskinum og enda þótt hér yrðu veiddar 100 hrefnur og 150 langreyðar á ári skiptir það nánast engu máli fyrir lífríkið í hafinu hér.
Af fæðu hrefnunnar er ljósáta 35% fæðunnar, loðna 23%, síli 33% og þorskfiskar 6%.
Og langreyðar éta svifkrabbadýr (ljósátu), loðnu og sílategundir, samkvæmt rannsóknum Hafrannsóknastofnunar.
Um 16 þúsund langreyðar eru á hafsvæðinu milli Íslands og Austur-Grænlands en tæplega 19 þúsund á milli Austur-Grænlands, Íslands og Jan Mayen (norðan 50. breiddargráðu), samkvæmt talningum Hafrannsóknastofnunar.
Á Mið-Atlantshafssvæðinu eru um 72 þúsund hrefnur og þar af eru um 56 þúsund dýr á íslenska landgrunninu.
Íslendingar og Norðmenn hafa étið hrefnukjöt en Norðmenn hafa sjálfir veitt töluvert af hrefnu, þannig að ekki seljum við hrefnukjötið til Noregs.
Og við getum eingöngu selt langreyðarkjöt til Japans en Japanir hafa sjálfir veitt stórhveli.
Veiðar á langreyði hér við Ísland eru ekki okkar einkamál, því þær eru fardýr sem eru einungis hluta af árinu hér við land. Um þær gilda alþjóðlegir sáttmálar sem okkur Íslendingum ber að virða.
Við getum því ekki veitt hér langreyðar eins og okkur sýnist og markaður verður að vera fyrir langreyðarkjötið. Ekki étum við það sjálfir og því getum við ekki ætlast til að aðrir éti það.
Verð á langreyðarkjöti í Japan myndi lækka mikið með stórauknu framboði af slíku kjöti héðan frá Íslandi og japanskir hvalveiðimenn yrðu nú ekki hrifnir af því.
Þorsteinn Briem, 22.6.2013 kl. 16:50
þetta með að refur sé að úrýma mófuglum stenst enganveginn.
Mófuglar eru auðvitað vel aðlagaðir refnum efir þúsunda ára sambýli.
Það er innbyggt kerfi hjá mófuglum að mikil afföll verða. Eða aðlögun sem gerir ráð fyrir miklum afföllum. Refir eru algjört aukaatriði þar. Mófuglar þurfa aðeins að koma upp um 1-2 ungum á allri æfinni til að viðhalda varpstofninum.
Vissulega getur tófan haft áhrif á mófugla tímabundið og staðbundið ef aðstæður eru þannig. En að tófa útrými mófuglum er tóm steypa bara.
Jafnframt eru dæmi um að fuglum fjölgi samhliða fjölgun tófu.
Þetta eru bara fordómar gegn tófunni sem eru algengir hjá eldra fólki enn í dag. Vissulega er ljótt að sjá tófubitna kind - en það er afar sjaldgæft í heildarmyndinni. Hundabitin kind er sennilega algengari heilt yfir.
Þessir fordómar gegn tófunni eru álíka og fordómarnir gegn örnum fyrr á tíð. Frægt viðtal við gamlan mann sem tekið var af ríkisútvarpinu um 1970, minnir mig, sem var alveg brjálaður útí vestfirðinga fyrir að hafa ekki útrýmt erninum eða helvítis össunni, eins og hann kallaði, minnir mig.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.6.2013 kl. 17:26
Hér á Íslandi hefur refum fjölgað úr tvö þúsund dýrum á áttunda áratug síðustu aldar í 8-10 þúsund, að sögn Esterar Rutar Unnsteinsdóttur, forstöðumanns Melrakkaseturs Íslands í Súðavík.
Unnir voru um tvö þúsund refir hérlendis árið 1960 en um sex þúsund árið 2009.
Villtur getur refurinn orðið 6-10 ára gamall en hann hefur verið veiddur hér frá Landnámsöld.
"Heimildir frá fyrri öldum benda til að yfirleitt hafi verið mikið um ref í landinu. Vitað er um sveiflur í stærð stofnsins en ekki er þekkt hvort þær eru reglubundnar eða tilviljanakenndar."
Frá árinu 1980 hefur refum fjölgað hér á Íslandi og skýringar á því eru einkum taldar liggja í tvennu:
"1. Náttúrulegum viðbrögðum stofnsins við auknu veiðiálagi en þau komu fram í aukinni frjósemi dýranna þannig að yrðlingar urðu fleiri í hverju greni, auk þess að gelddýrum fækkaði.
2. Auknu framboði á fæðu, meðal annars vegna mikillar aukningar á útbreiðslu fýls sem hefur orðið æ mikilvægari þáttur í fæðu refsins. "
Hámarksverðlaun fyrir unninn ref eru sjö þúsund krónur en yrðlinga 1.600 krónur fyrir hvert dýr.
Og hámarksverðlaun fyrir unninn mink eru þrjú þúsund krónur fyrir hvert dýr.
26.10.2011:
Refastofninn stækkar ört
Refaveiðar - Umhverfisstofnun
Þorsteinn Briem, 22.6.2013 kl. 18:38
Maðurinn olli ójafnvægi í kerfinu þegar hann kom með sauðféð fyrst, þá var meira handa tófunni en hafði verið þessi 10.000 ár áður, og það styrkti stofnin. Enda byrjaði landnámsmaðurinn að berjast við tófuna strax til að verja sitt fé. Þegar svo fiskveiðar hófust fyrir alvöru og landbúnaður var nútímavæddur varð allt í einu til offramboð af fæði fyrir refinn. Það skýrir það að honum hefur fjölgaðu úr rúmlega 1000 dýrum í nálægt 10.000 dýrum sem stofnin er áætlaður núna síðan uppúr 1970. Þessvegna er refurinn að hafa þessi áhrif á fuglastofnana í dag. Hann var alin upp af manninum óafvitandi, og núna þegar meir kröfur eru gerðar til urðunar á úrgangi sláturhúsa og þessháttar þá er orðið svo mikið magn af ref að hann nær að koma þungu höggi á fulgastofna. Það sér það hver sem vill sjá að refurinn hefur aldrei verið svona nálægt byggð áður, og aldrei sést svona mikið.
Það segir sig sjálft að ef maðurinn hefði ekki komið með allt þetta fæði, þá væru mófuglastofnarnir góðir og refastofninn í jafnvægi við þá og aðra stofna. En þegar maðurinn kemur og setur vistkerfið úr jafnvægi, sem hann gerir iðulega, verður hann að beita mótvægisaðgerðum svo skaðinn verði ekki þeim mun meiri...
Magnús Ragnarsson (IP-tala skráð) 22.6.2013 kl. 18:53
Nei. Þetta stenst enganvegin. Það er verið að tala um að ref hafi fjölgað samfellt frá því að rannsóknir hófust á 9. áratugnum til þessa dags. Það er ekkert verið að tala um að refir hafi verið 1000 við fyrr á tímum.
Nú, það er líka eitt í þessu, að veiðar mannsinns á ref höfðu nánast ekkert að segja fyrr en seint og síðar meir, sennilega á 19.öld. Vegna augljósra ástæðna.
Íslendingar verða að læra að lifa með tófunni og hætta þessum fordómum gagnvart henni.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.6.2013 kl. 20:09
Ps. frá því rannsóknir hófust á 9. áratug 20. aldar þ.e.a.s. En þá vann Páll Hersteins doktorsverkefni í ref.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.6.2013 kl. 20:10
Það er eitt að því bjánalegasta sem maður heyrir þegar fólk ætlar að fara að stjórna náttúrunni og velja góðu og vondu dýrin.
Jón Ingi Cæsarsson, 22.6.2013 kl. 22:40
Ps. Aðeins nánar með stofnstærð refa á Íslandi, að allt bendir til að stofnstærðin hafi alltaf varið upp og niður allar götur í gegnum aldirnar - rétt eins og flestar dýrategundir.
Rannsóknir á þessu aftur í tímann eru þó af skornum skamti og deila má um ýmis smáatriði.
Talandi um ref og útbreiðslu, að þá var eg eitt sinn á göngu á breiðstræti í Kaupmannahöfn - og þá kom bara refur þar eftir götunni í mestu makindum. Rauðrefur að vísu. Íslendingurinn og sveitamaðurinn var nú frekar hissa á þessu og fór að spyrjast fyrir. Þá sögðu innfæddir að þetta væri alvanalegt og að mér skildist hefði verið viðloðandi Kaupmannahöfn lengi. Þetta þótti mér merkilegt.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 22.6.2013 kl. 23:06
Ég verð að játa það á mig að hafa stjórnað náttúrunni heilmikið. Svona eins og ég get, og geri enn.
Jón Ingi kemur með þetta:
"Það er eitt að því bjánalegasta sem maður heyrir þegar fólk ætlar að fara að stjórna náttúrunni og velja góðu og vondu dýrin."
Skal ég hér segja sögu sanna.
Hvar ég bý er feyknarlegt mólendi og mýrlendi í grennd.
Svo bar við, að sílamávar, hettumávar og kjóar urðu að dómínerandi fuglategundum í mólendinu. Hrafnar voru svo alltaf nærtækir.
Þessir höfðu sitt æti milli lands og eyja, og þurftu ekki að spyrja flugmálastjórn um lofthæfnisskírteini í sinni átuleit.
Eftirréttur góður var gjarnan mófuglsungi, smáegg, stropað egg og svo framvegis.
Tók nú sig til bóndi, og eyddi ca 2 árum í að skjóta niður alla mávana, kjóana, og hrekkja burt hrafnana. Það vannst, og fuglaflóran í dag saman stendur af næstum því öllu sem telst til mófugla, - mávar, kjóar og hrafnar eru sjaldséðir, en mikið af jaðrakann, hrossagauk, lóu, tjaldi og allslags kykvendum öðrum.
ERGO, það er ekkert mál að hafa áhrif á lífríkið. Það er alveg hægt að hafa áhrif á náttúruna og stjórna eða stýra henni á vissan hátt.
Jón Logi (IP-tala skráð) 22.6.2013 kl. 23:52
Góð ábending hjá Kolbrúnu, að mjög líklega hefur refurinn breytt hegðun sinni töluvert eftir að samkeppnin við minkinn kom til sögunnar á síðustu öld. Sama gerðist auðvitað fyrir 1140 árum, þegar mannskepnan gerbreytti lífríkinu, rebbi aðlagaðist því.
Vissulega leitar náttúran jafnvægis í fjölda rándýra (fyrr eða síðar mun það einnig gilda um mannkynið). Til dæmis mun ref ekki fjölga endalaust í friðlandi sínu á Hornströndum. Þegar hann er búinn að nánast útrýma eigin fæðu leitar hann á önnur svæði. Skiljanlega er svoleiðis "jafnvægi" ekki það sem æðarbændur sækjast eftir og ekki heldur þeir sem vilja njóta návistar við smáfugla.
Stefán Jónsson, 23.6.2013 kl. 11:43
Ástæða þess að refur leitar meir til byggða en fyrir nokkrum árum - er að stofninn er í uppsveiflu.
Varðandi æðarbændur, að þá sennilegast er refurinn þeirra besti vinur!
Vegna þess einfaldlega að refurinn veldur því ma. að æðurinn leitast við að verpa þétt á afmörkuðu svæði ef maðurinn aðstoðar við það.
Refurinn er besti verkmaður æðarbænda.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 23.6.2013 kl. 12:31
Refurinn er jafngóður vinur æðabænda eins og vinalegur raðmorðingi í stofunni hjá Ómari Bjarka.
Mjög þægilegt, - það er ég viss um.
Jón Logi (IP-tala skráð) 23.6.2013 kl. 21:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.