24.6.2013 | 00:25
Geta Reykvíkingar "farið norðanlands" ?
Hvers konar spurning er þetta eiginlega?, kunna einhverjir að spyrja. Hvaða bull er þetta? Farið frá hvaða stað norðanlands til hvaða staðar norðanlands?
En það er þá líka bull að segja: Fólk "fer erlendis", þegar átt er við það að fólk fari til útlanda.
Í frétt í fjölmiðli í kvöld var sagt að frá því um ákveðinn hlut: "Hann var sendur erlendis."
Hvaðan erlendis og til hvaða staðar erlendis var hann sendur?
Það má deila um málvenjur og þróun málsins, en þegar málvenjur myndast, sem eru rökleysur, er rétt að staldra við.
Við Reykvíkingar förum til Austurlands ef svo ber undir en engum dettur í hug að segja að við "förum Austanlands". Þess vegna förum við til útlanda en förum ekki erlendis.
Athugasemdir
Habbðu heill mælt um þetta svívyrðilega orðskrípi: „að fara erlendis“. Aldrei hefur nokkrum hugsandi manni dottið í hug að tala svona, amk. væri hann mæltur á íslenska tungu. Og þó: Þegar Jónas Hallgrímsson mælti eftir vin sinn, Tómas Sæmundsson, látinn sagði hann sem svo í minningargreininni: „En er herra Steingrímur varð að fara erlendis [leturbr. mín] vetrarlangt að taka biskupsvígslu í Danmörku kom hann Tómasi í Bessastaðaskóla.“ (Fjölnir 1843) „Og það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð Gíslason samþykkt það kalla ég íslensku“, er haft eftir Sigurði Nordal.
En eigum við nokkuð að taka mark á þessum fuglum, enda eru þeir löngu dauðir?
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 24.6.2013 kl. 00:47
Jónas er að sjálfsögðu mesti yfirburðamaður á íslenska tungu sem við þekkjum, en rökleysan verður áfram rökleysa, hver sem segir hana. Enginn er algerlega óskeikull.
Ómar Ragnarsson, 24.6.2013 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.