25.6.2013 | 13:57
Gamalkunnugt: Fyrst litli fingurinn og svo öll höndin.
Landsvirkjun er í eigu almennings og því er það ekkert einkamál stjórnenda hennar að eyða fé almennings í rannsóknir á virkjun ofarlega í Skjálfandafljóti, sem hafa mun í för með sér eyðileggingu Aldeyjarfoss og fleiri fossa auk drekkingar á dal, sem er álíka langur og Hvalfjörður.
Dalurinn er eitt best varðveitta leyndarmál hálendisins, vegna þess að hann er að stórum hluta gróinn og einstaklega skjólgóður af því að hann liggur mun neðar en landið allt í kring og nær langt inn á það.
Sú aðferð hefur dugað vel hjá orkufyrirtækjum að eyða fyrst svo miklu fé í rannsóknir, að hægt sé að benda á að það muni verða ónýt fjárfesting ef ekki er virkjað.
Það minnir á orðtakið að ef skrattanum sé réttur litli fingurinn taki hann alla höndina.
Engum Bandaríkjamanni myndi detta í hug að veita rannsóknarleyfi í Yellowstone.
Því hefur verið lýst yfir í Noregi að tími stórra vatnsaflsvirkjana sé liðinn. Punktur.
Það á ekki að líða það að eyða fé almennings í það að valda eins gríðarlegum umhverfisspjöllum og virkjun ofarlega í Skjálfandafljóti veldur.
Ég er á ferðalagi og hef kannski ekki tíma til að birta myndir af þessu svæði en vísa á leitardálkinn vinstra megin á síðunni þar sem finna má fyrri bloggpistla mína um þetta efni.
Rannsaka efri hluta vatnasviðs Skjálfandafljóts | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og notkunin á íbúa jókst úr 38,5 MWh í 51,6 MWh.
Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann en áður hafði hún verið mest í Noregi.
Með Fjarðaáli jókst raforkunotkun stóriðju verulega árið 2008 og hlutur hennar fór þá í 77% af heildarnotkuninni.
Noregur er um fjórum sinnum stærri en Ísland og þar búa einnig fjórum sinnum fleiri íbúar á hvern ferkílómetra en hér á Íslandi.
Bæði löndin eru mjög strjálbýl og Noregur er þar í 211. sæti í heiminum en Ísland í 231. sæti.
Röð landa eftir þéttleika byggðar
Þorsteinn Briem, 25.6.2013 kl. 14:26
Framleiðsla vatnsorkuveranna í Noregi er 113 TWh/a, um 60% af þeirri vatnsorku sem þar væri hægt að virkja.
Og framleiðsla vatnsorkuveranna hefur lítið aukist frá árinu 1990, samkvæmt skýrslu sem Þorkell Helgason skrifaði fyrir forsætisráðuneytið um skattlagningu orkufyrirtækja í Noregi.
Þorsteinn Briem, 25.6.2013 kl. 14:41
Að líkja saman einhverjum dal á hálendinu þangað sem handfylli manna kemur á ári og máski ör-fáir tuga vita af er varla sambærilegur við Yellowstone hvern heimsækja milljónir manna árlega.
Óskar Guðmundsson, 25.6.2013 kl. 16:10
Er munurinn nokkur nema mannfjöldinn og aðgengið?
Jón Logi (IP-tala skráð) 25.6.2013 kl. 16:22
Óskar Guðmundsson,
Þú heldur náttúrlega að fáir viti af "einhverjum dal á hálendinu" um aldur og ævi.
Tugþúsundir manna heimsækja nú fjölmarga staði á íslenska hálendinu, sem örfáir heimsóttu fyrir nokkrum áratugum.
Þorsteinn Briem, 25.6.2013 kl. 16:25
"Að líkja saman einhverjum dal á hálendinu þangað sem handfylli manna kemur á ári og máski ör-fáir tuga vita af er varla sambærilegur við Yellowstone hvern heimsækja milljónir manna árlega."
Skelfilegt að lesa þetta. Er mælistikan á fegurð náttúrunnar sú hvers margir heimsæki staðinn?
Þvílíkur plebbaháttur!
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 25.6.2013 kl. 18:21
Miðað við fjöldaröksemd Óskars væri Smáralind eini staðurinn sem er einhvers virði á Íslandi.
Andri Magnason (IP-tala skráð) 25.6.2013 kl. 22:08
Landsvirkjunin er þessa dagana eins og boltastrákarnir hjá Ríkissjónvarpinu. Í tómarúmi. Dæmið gengur ekki lengur upp, framleiðslukostnaðurinn fer fram úr getu viðskiptamanna til að stunda viðskipti. Nýjar náttúruperlur, dalir og fossar eru alltaf að koma fram.
Nýjar áhugaverðar útvarpsstöðvar með brotabrot af kostnaði risans hafa litið dagsins ljós. Landsvirkjun er að verða einsog nátttröll í óbyggðum. Næsta verkefni Landsvirkjunar er að fá ferðamenn til að heimsækja Búrfellsvirkjun á leið í Dómadalinn og Þjórsárlón. Vendipunkturinn var líklega við Hágöngulón. Barátta Guðmundar Ólafssonar er að skila sér í hús Draumalandsins.
Sigurður Antonsson, 25.6.2013 kl. 22:48
Þegar þjóðgarður var stofnaður í Yellowstone höfðu miklu færri komið þangan að en Aldeyjarfossi. Samkvæmt röksemd Óskars var það firra að gera Yellowstone að þjóðgarði.
Ómar Ragnarsson, 25.6.2013 kl. 22:55
Dyrhóley er eitt af dásemdum Íslands sem hundruð ferðamanna heimsækja daglega. Aðstaða til fyrirmyndar. Reynisfjara, Vík í Mýrdal, Hjörleifshöfði og sandurinn eru spilaverk náttúru sem er enn áhugaverðari eftir gosin í Eyjafjallajökli.
Hoower virkjunin var tímamótaverk verkfræðinga í rafmagnsátaki. Er í dag skólabókardæmi um takmörk vatnsaflsins. Virkjunin ásamt Grand Canyon er einstakt og áhugavert að skoða á álíka stóru svæði og allt Ísland. Hér eru perlurnar við hvert fótmál, nægð af köldu og heitu vatni. Ferskur vindur og rigning sem magna andstæðurnar. Sumarsól og söngur smáfugla sem minnir á að vakta skal dýrðina.
Sigurður Antonsson, 25.6.2013 kl. 23:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.