25.6.2013 | 23:12
Fossaþöggunin.
Hvað er hægt að gera þegar stanslaus fréttaflutningur er um Norðlingaölduveitu í fjölmiðlum án þess að minnast á stórfossana, sem þurrka á upp og alltaf látið eins og að með því að vatnsflutningarnir verði utan við Eyvaver og núverandi friðland verði engin umhverfisáhrif?
Ég var að blogga um þetta í fyrradag og hef gert það ótal sinnum áður en ætla nú fyrir mitt leyti að rjúfa þöggunina um fossana hér á þessari bloggsíðu í hvert skipti sem þagað verður um þá í fréttum fjölmiðlanna.
Þótt það kosti bloggfærslu á hverjum degi og að fjölmiðlarnir hafi yfirburði í því að ná til meira en hundrað þúsund manna á dag en þessi síða aðeins til brots af þeim fjölda, verður að hafa það.
Það verður þá varla sagt að á þessari bloggsíðu hafi verið tekið þátt í þessari þöggun.
Þó er aldrei að vita. Að ósekju er er ég iðulega sakaður um slíkt varðandi aðrar virkjanir eins og Bjarnarflagsvirkjun og Hellisheiðarvirkjun og þar með að hafa átt þátt í gerð þeirra, en jafnvel samtímis sakaður um það að "vera á móti öllu."
Nú er tíundaður sá kostnaður sem Landsvirkjun hafi gjaldfært sem kostnað vegna Norðlingaölduveitu.
Ekki er að efa að sama verður gert varðandi komandi kostnað við rannsóknir vegna virkjunar Skjálfandafljóts, svo að hægt verði þrýsta á um að þeir peningar verði ekki "ónýttir."
Athyglisverð tilviljun að strax í kjölfar fréttanna af fyrirhuguðum fjáraustri í virkjun Skjálfandafljóts kemur fréttin um hið sama vegna Norðlingaölduveitu.
En hvort tveggja má flokka undir "túrbínutrixið" sem stjórn Laxárvirkjunar beitti 1970 þegar keyptar voru allt of stórar túrbínur í virkjunina til þess að geta sagt, að þessi kaup "mættu ekki fara í súginn", heldur yrði að virkja margfalt stærra svo að túrbínurnar nýttust.
Þá var Skjálfandafljót á aftökulistanum alveg eins og nú. Það virðist lítið hafa breyst á þeim 43 árum sem liðið hafa síðan svonefnd Gljúfurversvirkjun var talin nauðsynleg.
Búið að verja 1,3 milljörðum í Norðlingaölduveitu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þessi bloggsíða er lesin meðal annars af blaðamönnum, þingmönnum og ráðherrum, þannig að eitt til tvö þúsund innlit hér á dag segja ekki alla söguna í þessum efnum.
Þorsteinn Briem, 25.6.2013 kl. 23:23
Mér fannst þeir segja á stöð 2, að Landsvirkjun ætlaði að fara að stjórna vatnsmagni fossanna.
Það er ekkert í lagi með þessa menn. Eg botna ekki í hvað þeim gengur til - því það kemur ekki til greina að þeir fari að djöflast þarna.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 25.6.2013 kl. 23:57
Mig skortir réttu lýsingarorðin , til að lýsa hryggð minni yfir hugsunarleysi eða er það græðgi ( ? ) íslenskra ráðamanna .
Er ekki nóg komið ?
Edda Snorradottir (IP-tala skráð) 26.6.2013 kl. 00:14
Jamm...þarfar ábendingar. Ein spurning þó. Þegar baráttan hefur skilað þeim árangri að ekki verður virkjað og stórfenglegu og einstöku stórfossunum hefur verið bjargað, búið er að malbika að fossunum, gera rútubílastæði, klósett, minjagripa- og ullarvöruverslun, hamborgarastað og Starbucks, göngustíga og girðingar, upplýsingaskilti og ljósastaura, allt á kostnað skattgreiðenda....hvað finnst Ómari þá vera eðlilegt gjald fyrir sömu skattgreiðendur til að koma og berja fossana augum?
Mætti miða við lendingargjöld á eina mannvirki Íslendinga sem hugsanlega sést úr geymnum...Sauðárflugvelli ?...eða eru þau kannski engin? Aðgöngumiðann að Kerinu? Námaskarði? Silfru?
Eða væri rétt að miða við það velferðartap sem þjóðfélagið verður fyrir vegna yfirflugs ferðamanna og annarra flugáhugamanna við náttúruperlur?
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 26.6.2013 kl. 09:44
Það sem við erum fóðruð á er m.a. :
1. Við höfum ódýrt rafmagn þar sem útlendingar niðurgreiða það fyrir okkur.
2. Við þurfum að virkja meira til að halda ódýra rafmagninu.
3. Átroðningur ferðamanna er að fara með náttúruperlur landsins.
4. Aðalútflutningur þjóðarinnar er ál.
5. Sjávarútvegur og landbúnaður eru byrðar á þjóðinni.
Þetta er fyndið, en hættir að vera það þegar maður áttar sig á því hve margir eru nógu vitlausir til að trúa svo miklu sem staf af þessu.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 26.6.2013 kl. 10:47
Þakka þér fyrir Ómar. Mitt framlag í dag var að deila þessu bloggi á Facebook.
Ingibjörg Atladóttir (IP-tala skráð) 26.6.2013 kl. 12:40
Á mínu fróma heimili hef ég oft búið til hamborgara án þess að hafa verið atyrtur fyrir það.
Og ég hef eins og aðrir Evrópubúar greitt bændum styrki til framleiðslu á til dæmis kjöti og mjólk.
Þar að auki er næsta víst, eins og Bjarni Fel. myndi orða það, að malbikaðir verði vegir til að mynda á Vestfjörðum og Austurlandi, og grafin þar jarðgöng áður en einhverjir vegir á hálendinu verða stórbættir og malbikaðir.
Í Skíðadal, sem nú er í Dalvíkurbyggð, er sami vegur og þar var fyrir hálfri öld.
Og þar hafa til að mynda verið ferðaþjónusta, leikbrúðugerð, kúabú, sauðfjárrækt, hrossarækt, loðdýrarækt og mannrækt.
Þorsteinn Briem, 26.6.2013 kl. 13:00
Þar sem ég vann, í Þýskalandi hafði bóndi minn það drjúga styrki út á landspildu nokkra, sem hann leigði, að styrkurinn dugði fyrir leigunni. Þá voru eftir styrkir pr. grip sem hann hafði á landinu.
Þessi styrkjaveruleiki er ekki til handar hjá íslenskum bændum.
Jón Logi (IP-tala skráð) 26.6.2013 kl. 13:17
Ef Landsvirkjun hefur eytt milljörðum í rafveitu sem aldrei hefur komist í gegnum umhverfismat og ekki víst að svo verði, þá getur Landsvirkjun bara sjálfri sér um kennt.
Hvaða tegund af fábjánum eyðir milljörðum í undirbúning framkvæmdar sem aldrei hefur verið samþykkt og ekki víst að verði samþykkt? Kannski þeir sem vita að ríkið hleypur alltaf undir bagga og veltir kostnaðinum á skattgreiðendur?
Þessi aðferð að eyða tugum eða hundruðum milljóna í áætlaða framkvæmd og kvarta síðan yfir því ef hún stenst ekki faglegt umhverfismat, er hætt að vera fyndin. Sennilega er það viljandi gert til að sveigja umhverfismatið í rétta átt, en það á ekkert að láta menn komast upp með það, hvorki Landsvirkjun né aðra.
Theódór Norðkvist, 26.6.2013 kl. 14:28
26.6.2013 (í dag):
"Gunnar [I. Birgisson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðiflokksins í Kópavogi,] gagnrýnir Orkuveitu Reykjavíkur harðlega og segir að bæjaryfirvöld í Kópavogi hafi þrýst á Orkuveituna fyrir nokkrum árum að hreinsa gufuna frá Hellisheiðarvirkjun betur, þannig að brennisteinsmengun frá virkjuninni fari ekki yfir lögbundin mörk, eins og gerst hefur í gegnum tíðina.
Þá stendur til að herða löggjöf um loftmengun en þau lög taka gildi um næstu áramót.
"Orkuveitan getur ekki hummað þetta lengur fram af sér," segir Gunnar og bætir við: "Það er algjörlega óþolandi að Orkuveitan geri ekkert í þessu."
Bæjarfulltrúarnir segja svo í lok bókunarinnar að það sé full ástæða til að krefjast þess að Orkuveitan bæti úr þessu vandamáli strax."
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í Kópavogi gagnrýna Orkuveitu Reykjavíkur harðlega fyrir brennisteinsmengun
Þorsteinn Briem, 26.6.2013 kl. 17:20
26.6.2013 (í dag):
Meirihlutinn fallinn í Vogum á Vatnsleysuströnd - Bæjarstjórnin hafi ekki fengið óháðar upplýsingar um Suðvesturlínu Landsnets
Þorsteinn Briem, 26.6.2013 kl. 20:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.