26.6.2013 | 12:56
Of góðu vön ?
"Óvenjuleg lægð" sem nú ræður veðrinu hér á landi, þykir að vonum sæta tíðindum, en þó kannski meira en efni standa til þegar þess er gætt að undanfarin sumur hafa verið alveg einstaklega ljúf með meiri stillum og góðviðri en venja er.
Okkur bregður því við þegar það hvessir núna.
Þetta er þó ekkert einsdæmi.
Þegar hlýindatímabilið 1920-65 stóð sem hæst í kringum 1940 kom óveður í júnílok sem gerði usla hjá breska setuliðinu, sem þá hafði verið hér í tæpa tvo mánuði.
Á níunda áratugnum gerði eitt sinn hret sem var kallað Jónsmessuhretið og færði mörgum landsmönnum snjó um hásumar.
Svo að aftur sé vikið að sumrinu 1940 færði það landsmönnum mikil viðbrigði frá sumrinu árið áður, sem var mesta góðviðrissumar í manna minnum.
Sumarið 1940 var umhleypingasamt og rakt og birti ekki til að gagni með staðviðrum og stillum fyrr en í október.
Þessu komst ég að þegar ég leitaði upplýsinga hjá Trausta Jónssyni veðurfræðings um veðrið þetta sumar vegna gerðar kvikmynda- / bókarhandrits um hugsanlega innrás Þjóðverja í landið og töku þess af Bretum haustið 1940.
Þegar nokkur hlý góðviðrissumur hafa komið í röð er viðbúið að viðbrigðin verði meiri en ella þegar allt í einu skellur á "venjulegt" íslenskt sumar.
Siggi stormur hefur spáð slíku sumri og ég held að hann hafi ekki þurft að taka mikla áhættu af þeirri spá miðað við það hve algeng slík sumur eru.
Eða eins og Jónas Guðmundsson stýrimaður sagði einu sinni: "Alltaf undrast ég hina óhæfilegu og undarlegu bjartsýni Íslendinga þegar þeir halda útihátíðir að sumarlagi. Það er eins og þeir haldi að það rigni aldrei nema 17. júní."
Óvenjuleg lægð í vændum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Stórhöfði er syðsti punktur Heimaeyjar, sem er stærsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum.
Á Stórhöfða hefur verið veðurathugunarstöð frá árinu 1921 og hún er fræg fyrir að hafa mælt einn mesta vindhraða sem mælst hefur á norðurhveli jarðar."
"Nokkrum sinnum hefur það komið fyrir að miklir vindar hafa gert nokkurn usla á tjöldum [á þjóðhátíð í Eyjum] og rigningar kælt og bleytt margar þúsundir manna, sem láta það þó yfirleitt lítið á sig fá."
"Meðalhiti á Stórhöfða yfir daga þjóðhátíðar á árunum 1974-1991 var 9.9°C"
"Meðalvindur var mestur árið 1976, um 25,4 hnútar (um 13 m/s) - þá var Þjóðhátíð haldin á Breiðabakka."
Þorsteinn Briem, 26.6.2013 kl. 14:16
Þola bæði vatn og vind,
vestmanneyskir karlar,
upp á fara Ingu Lind,
í Árna hertir jarlar.
Þorsteinn Briem, 26.6.2013 kl. 19:39
"Mikil breyting varð á húsnæðislánamarkaði síðari hluta ársins 2004.
Bankarnir tóku að bjóða húsnæðislán til langs tíma og lána nú allt upp í 100% af kaupverði.
Íbúðalánasjóður hækkaði lánshlutfall upp í 90% af kaupverði."
Áhætta við hærri veðsetningu íbúðarhúsnæðis - Seðlabanki Íslands árið 2005
Þorsteinn Briem, 3.7.2013 kl. 16:16
Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði:
Þorsteinn Briem, 5.7.2013 kl. 20:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.