26.6.2013 | 21:07
"Litli hringurinn."Minnsta ferðin."
Okkur Íslendingum hættir oft til að vanmeta náttúruverðmæti sem eru beint fyrir framan nefið á okkur.
Þannig finnst mörgu fólki sem býr á höfuðborgarsvæðinu að nágrenni þess hafi upp á fátt að bjóða og sjá því oft enga möguleika til að bjóða erlendum ráðstefnugestum, sem stansa aðeins eina helgi, upp á neina skoðunarferð, af því að það tekkur of langan tíma fyrir það að fara "Gullni hringinn".
En þvert á móti er hægt að skipuleggja ýmsar styttri ferðir, sem gefa mikið af sér, þótt þær séu ekki eins langar og Gullni hringurinn.
Sú stysta er aðeins 12 kílómetrar samanlagt, frá Hafnarfirði inn að Kaldárbotnum og til baka og enginn erlendur ferðamaður hefur það knappan tíma að hann hafi ekki tíma til að fórna korteri í þessa stuttu ferð.
Frá góðum útsýnisstað rétt austan við Kaldársel sést vítt yfir Reykjansskagann sunnanverðan og á þessari stuttu leið er hægt að sjá og útskýra flest af þeim fyrirbærum, sem gera Reykjanesskagann einstæðan á heimsvísu, sem eina staðinn þar sem sést hvernig skil meginlandsfleka ganga á land.
Einkum finnst útlendingum mikið til þess koma að Kaldá sé aðeins örlítill hluti af svo stórri neðanjarðar bergvatnsá, að við Straumsvík gátu sjómennirnir forðum daga ausið upp fersku vatni sér til drykkjar, án þess að fara í land.
Síðan er annar möguleiki sem ég hef notað oftar en einu sinni, en það er "Litli hringurinn", Reykjavík-Hellisgerði-Kaldársel-(Straumsvík)-Krýsuvík-Grindavík-Bláa lónið-Eldvörp-Keflavíkurflugvöllur/Reykjavík.
Ef útlendingarnir eru á leið úr landi eru Kapellan og Straumsvík tekin í suðurleið, en annars á leið til Reykjavíkur.
Þessi leið býður upp á möguleika til lengingar eftir þörfum.
Auðvitað er enginn goshver á þessari leið en hins vegar dugar Krýsuvík furðu vel sem hverasvæði og í Grindavík finnst útlendingum mikið koma til innsiglingarinnar og þess sýniglugga íslensks mannlífs í sjávarplássi, sem þar er, ekki hvað síst ef hann gustar svolítið úr suðri og brimið er magnað.
Enn meira hrífast þeir ef þeim er gerð grein fyrir lífsbaráttu fyrri kynslóða við óblíðar aðstæður á þessu svæði. Á Gullna hringnum er enginn staður sem líkist Grindavík.
Við gleymum því nefnilega að það sem okkur finnst hversdagslegt finnst erlendum gestum óvenjulegt og merkilegt, einkum ef þeim er vel þjónað í þeim efnum af gestgjöfunum að draga slíkt fram.
Þeir útlendu gestir, sem heyra það að í Krýsuvík standi til að gera það svæði að virkjunar/iðnaðarsvæði, verða undrandi við að heyra það, líklega ekki minna undrandi en ef þeim væri sagt svipað ef þeir væru við Geysi.
Ánægðir með Íslandsferðina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
26.6.2013 (í dag):
"Umhverfisvernd er ekki einkamál vinstri manna og hægri menn ættu að átta sig á þeim verðmætum sem geta falist í henni.
Þetta segir annar forsvarsmanna nýrra samtaka sem bera heitið Sjálfstæðir umhverfisverndarsinnar."
Umhverfisvernd er ekki einkamál vinstri manna
Þorsteinn Briem, 26.6.2013 kl. 22:18
"Þetta ætti að segja manni, sem vill kenna sig við hægristefnu eða markaðshyggju, að stóriðjustefna sé eitthvað sem hann á að láta eiga sig."
"Hvernig stendur á því, í ljósi alls þess sem að ofan greinir, að það hafa verið hægrimenn sem hafa barist fyrir stóriðju en vinstrimenn gegn henni?
Er þetta ekki allt saman einn stór misskilningur?"
"Og ættu umhverfissinnar ekki að taka upp markaðshyggju sem vopn í sinni baráttu?"
Opið bréf til hægrimanna: Hættum stóriðjustefnunni - Ungir sjálfstæðismenn
Þorsteinn Briem, 26.6.2013 kl. 22:30
Nú er ég tiltölulega nýlega búinn að rússa með útlendinga um Reykjanesið, og er stórhrifinn af þeim náttúrudjásnum sem þar eru. Allar stuttferðir sem Ómar myndi nefna væru örugglega skemmtilegar.
Á Reykjanesinu vantar þó betri merkingar, - og verð ég að púkaskap nokkrum að játa það eð ekki tókst mér að finna eldvörpin svona í hendingu. Var ég þó stutt frá.
Jón Logi (IP-tala skráð) 26.6.2013 kl. 22:50
Það er ekkert skrítið að þú hafir ekki fundið Eldvörpin þar sem vegurinn er lokaður af HS orku. Í það minnsta er skilti þar sem segir svo og varar einnig við háspennu þó engin háspennulögn liggji um svæðið. Svo er vegurinn að Eldvörpum ákaflega illa farinn vegna vinnu HS orku við að leggja lögn meðfram honum sem síðan á að tengjast umdeildri lögn til sjávar við Arfadalsvík sem ekki er komið framkvæmdaleyfi fyrir.
Það er sama hvar gripið er niður í ferðaþjónustu í kringum þetta svæði að Bláalónið virðist vera miðpunkturinn á þessu svæði en það er vel haldið utan um þá ferðamenn sem koma þangað að sleppa þeim ekki út fyrir Bláalónið því þá gætu þeir uppgötvað að það sé margt meira og merkilegra en Bláalónið á þessu svæði.
Jónas Pétur Hreinsson, 27.6.2013 kl. 10:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.