1.7.2013 | 09:40
Skoða þarf útsýni og landslag vel.
Ég áttaði mig ekki á því hvað skógur drepur vel niður vind og óveður fyrr en ég ók með Jóni bróður mínum um fjallvegina á Varmalandi í Svíþjóð, sem eknir voru í heimsmeistarakeppninni í ralli í Sænska rallinu 1981.
Þá gekk svo mikið óveður yfir sunnanverða Skandinavíu að skip fórust á Skagerak en inni í skógunum í 500 metra hæð horfðum við á skýin æða yfir fyrir ofan trjátoppana en nutum skjóls á meðan niðri í skóginum.
Einn er þó galli á gjöf Njarðar hvað snertir skjól af skóginum, en hann er sá að sums staðar getur hann eyðilagt fallegt og mikilfenglegt útsýni.
Ef gróðursetja á skóg meðfram vegum Íslands þarf að gæta vel að því að það gangi ekki svo langt að verðmætir útsýnisstaðir fari forgörðum.
Á leiðinni frá Hvalfjarðargöngum til botns Kollafjarðar eru nokkrir staðir, þar sem útýni til suðurs yfir Kollafjörð til Reykjavíkur er tilkomumikið og minnisvert, einkum fyrir þá sem koma til borgarinnar í fyrsta sinn. Vel þarf því að vanda til skjólbeltisræktunar á þessari leið svo að farinn verði vegur meðalhófs í þessu efni og það á við um fleiri staði á vegum landsins.
Á flestum vegunum í Svíþjóð, þar sem skógurinn drap niður vindinn, var útsýnið ekkert til að hrópa húrra fyrir, - landslagið ekki þess eðlis. En víða í Noregi óskaði maður sér þess á köflum, að aðeins rofaði í trén þar sem útsýnið leið fyrir það að vera falið fyrir ferðamönnum.
Kosturinn við ræktun skógar er hins vegar sá, að ef mönnum snýst hugur á einstaka stað, má fella trén og "endurheimta" útsýni og landslag sem nýtur sín hindranalaust.
Vilja trjábelti á Kjalarnesi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Umferðarslys (sum mannskæð) á Vesturlandssveginum á Kjalarnesi hafa flest stafað af snörpum vindhviðum (fjallabylgjum) í norðanátt undan Esjunni sem feykt hafa til bílum, einkum í hálku að vetrarlagi. Eins og Geir Gunnar Geirsson bendir réttilega á, gæti einföld og ódýr lausn með margþættum efnahagslegum og samfélagslegum ávinningi falist í markvissri ræktun skjólskóga í Esjuhlíðum Kjalarness og ræktun hraðvaxinna skjólbelta norðan vegarins. Fyrirmyndina má finna aðeins austar undir rótum Esjunnar: á Mógilsá. Þar gætir ekki lengur hvassviðris og sviptivinda undan Esjunni sem áður fylgdu norðanáttinni.
Skjól af skógi myndast ekki á einni nóttu - en einhversstaðar verður að byrja. Og nú er rétta efnahagsumhverfið til að huga að mannfrekum, atvinnuskapandi verkefnum, við metnaðarfulla ræktun skjólskóga á Kjalarnesi sem bæta munu lífgæði íbúa og umferðaröryggi vegfarenda um ókomna tíð. Fórnarkostnaðurinn af skertu útsýni yrði ekki tiltakanlegur ef meginþungi ræktunarinnar yrði norðan vegarins. Betur þyrfti að vanda til verka ef ræktaður yrði skógur sunnan Vesturlandsvegar; þar þyrfti að gæta að útsýnisstöðum til suðurs.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 1.7.2013 kl. 10:11
Þá má einnig horfa öðrum augum á skógrækt meðfram vegum en hér er gert. Trjágróður fangar mengun frá bílum og getur einnig tekið niður hljóðmengun allt að 50%. Það má nota trjágróður til að fela vegi og umferð í fögrum sveitum landsins, svo þeir sem raunverulega eru að njóta útsýnis og útivistar þar fái frið fyrir þeirri truflun sem af vegunum stafar, tala nú ekki um íbúa sveitanna. Tek síðan undir þau sjónarmið að ef ráðist yrði í þessa framkvæmd þyrfti að skipuleggja hana vandlega, þannig að sem flestum líki. Þeir sem eru mótfallnir trjágróðri verða samt ekki sáttir, sama hversu vandlega og mikið er skipulagt.
Helgi Gíslason (IP-tala skráð) 1.7.2013 kl. 10:15
Alveg rétt, Helgi. Skógrækt getur m.a.s. dregið úr lyktar-, ammoníak- og svifryksmengun frá kjúklingabúunum á Kjalarnesi og þannig dregið úr nágrannaerjum, sbr.:
"Planting just three rows of trees around poultry farms can cut nuisance emissions of dust, ammonia, and odors from poultry houses and aid in reducing neighbor complaints, according to scientists from the University of Delaware."
http://www.eurekalert.org/pub_releases/2008-08/acs-tko072308.php
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 1.7.2013 kl. 10:58
Mikill er nú ótti "útsýnismanna".
Að trjágróður á klakanum verði slíkur að ekki megi bílstjórinn með gemsann á lofti og "aðra hönd á stýri", njóta landslagsins.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 1.7.2013 kl. 11:58
Á Íslandi nú ekkert sér,
Ómar fyrir trjánum,
yfir sé ég allt þó hér,
ef ég stend á tánum.
Þorsteinn Briem, 1.7.2013 kl. 12:25
Ég tel það nú hógværa ósk að ef settur verður niður hávaxinn skógur meðfram vegum landsins sé með útsjónarsemi fundnir einhverjir örfáir staðir þar sem hægt er að njóta útsýnis þar sem það er best.
Síðan finnst mér það dálítið fyndið að víða um land þar sem áður blöstu við reisulegir bæir og kirkjur, sumar mjög fallegar og sérstæðar, hafa þessi hús verið kaffærð í skógarlundum sem eru þó ekki stærri en það, að þeir virðast gegna því eina hutverki að kaffæra húsin svo að engir njóti þess að fá að sjá þau.
Ómar Ragnarsson, 1.7.2013 kl. 13:19
Mér finnst það vera orðinn furðulega útbreiddur misskilningur á Íslandi, Ómar, að eini tilgangur trjáræktar og skógræktar sé að skerða og byrgja fyrir allt útsýni.
Þótt sjálfsagt og eðlilegt sé að komið sé til móts við hógværar kröfur um útsýni frá útsýnisstöðum, hlýtur að teljast óeðlilegt að hvergi meðfram nokkrum þjóðvegi landsins megi "skerða útsýni" með skógrækt.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, 1.7.2013 kl. 13:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.