Annað "Lúkasarmál"?

Enn er svonefnt "Lúkasarmál" á Akureyri í minnum haft og meira að segja er búið að gera leikrit, sem byggist á því.

Málið er eitthvert besta dæmið um það hvernig hægt er að blása upp stórmál í fjölmiðlum og á netinu upp úr engu og gera úr því sannkallað fár.

Lúkas átti að hafa verið drepinn á hrottalegann hátt og meintur morðingi meira að segja nafngreindur og ofsóttur.

Síðan birtist Lúkas allt í einu stálsleginn og "góð frétt" varð allt í einu ónýt.

Nú er svo að sjá sem svipað mál hafi gosið upp í Garðabæ. Því var tekið sem staðreynd og tíundað í fréttum að ungur maður, gott ef ekki kornungur maður,  hefði ekið á ofsahraða í áttina að börnum á hestbaki, flautað ákaflega og fælt hestana, svo að börnin féllu af baki og eitt þeirra stórslasaðist.

Voru netheimar glóandi um þetta fyrst á eftir og hneykslun og reiði mikil sem von var, ekki síður en þegar fréttirnar af drápi Lúkasar voru á allra vörum.

Nú leiðir lögreglurannsókn í ljós að þetta hafi verið alls ekki borið svona að, flaut hafi ekki fælt hestana og því síður að ekið hafi verið flautandi á ofsahraða að þeim, heldur hafi að vísu bíll flautað á annan bíl í grennd en það ekki haft nein áhrif á hestana.  

Minnir óneitanlega svolítið á Lúkasarmálið, ekki satt?


mbl.is Bílflautið fældi ekki hestana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

Hver vill ekki meiri spennu, drauga og grýlur. Dóttir mín fjögra ára bað mig um mold og ánamaðka í kvöldsólinni. Þegar ég lyfti steini og tók tvo sprelllifandi upp í bolla varð henni ekki um sel.

Að vekja upp draug er annað. Hvar eru mörkin?

Sigurður Antonsson, 2.7.2013 kl. 22:51

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Níu á hann Lúkas líf,
lengi var þó dauður,
oft var drepinn hann með hníf,
hann er enginn sauður.

Þorsteinn Briem, 2.7.2013 kl. 23:22

3 identicon

Davíð Hjálmar Haraldsson orti þetta dásamlega tregaljóð um Lúkas.

Hann sem var hengdur og skotinn

og hálshöggvinn, stunginn og brotinn

um árið, og sökkt var í sjó.

Og píndur af groddum svo grimmum

og grafinn og brenndur af krimmum.

- hann Lúkas - á dúnsæng hann dó.

Bragi Guðmundsson (IP-tala skráð) 3.7.2013 kl. 09:03

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ómar hér er fyrripartur:

Þó Gróa á leiti sé löngu dauð

þá Lúkas lengi lifir

:)

Guðmundur Ásgeirsson, 3.7.2013 kl. 12:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband