7.7.2013 | 00:22
Hertar öryggiskröfur hluti af skýringunni?
Það eru góð tíðindi að umferðarslysum fækki en ekki auðvelt að staðhæfa, hvað valdi því.
Ástæðan er sú að öryggi bifreiða hefur fleygt fram og eiga svonefndar NCAP-prófanir og stjörnugjöf upp í fimm stjörnur drjúgan þátt í því.
Þetta liggur í augum uppi varðandi það að sjálfir bílarnir hafa verið hannaðir þannig að þeir hlífi farþegunum sem best og auk þess hefur loftpúðum í þeim fjölgað jafnt og þétt, þannig að jafnvel næstminnsti bíllinn á markaðnum, Toyota IQ er með alls níu púða.
Hitt er kannski ekki eins augljóst, að NCAP-prófunin getur haft áhrif á slys á gangandi vegfarendum.
Ástæðan er sú að eitt atriði þessarar prófundar, er það hve illa fótgangandi vegfarendur farí út úr árekstri við viðkomandi bíl og eru gefnar stjörnur fyrir það allt upp í fimm stjörnur.
Ekki þarf annað en að líta á útlit nýjustu bílanna til að sjá að mjúkar og bogadregnar línur hafa rutt sér til rúms og raunin er sú að með því að hanna lag bílanna þannig að þeir meiði vegfarendur sem minnst ef þeir lenda á þeim, hefur öryggi hinna gangandi verið bætt mikið.
Árekstur á litlum hraða, sem áður olli einhverjum meiðslum, getur nú með breyttu lagi bílsins orðið til þess að hin gangandi manneskja slasist ekkert.
Og einnig getur þetta atriði líka átt þátt í því að slysin verði ekki eins alvarlega og áður.
Erfitt er að gera sér grein fyrir því hve stóran þátt tæknilegar endurbætur á bílum eiga í fækkandi slysum, en líklegt er að hlutur þeirra sé það drjúgur að þar liggi jafnvel eina skýringin á færri slysum og banaslysum.
Aldrei hafa færri fótgangandi slasast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er ekki nærtækari skýring að það er bara ekki nokkur maður á ferðinni fótgangandi lengur!
-Í það minnsta eru þer sjaldséðir á götunum. Gangstéttir, lýsing og bílljós eru líka betri en áður. En bílarnir eru líka skárri.
Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 7.7.2013 kl. 01:36
Mun betri hemlunareiginleikar eru ein skýring
Að sama skapi hafa aðrir áhættuþættir aukist
enginn hristingur í öskubakka eða annað þó of hratt sé ekið og mun fljótari upp í þann hraða - það er varla að maður trúi hraðmælinum
Snjallsímanotkun undir stýri, margir hafa fyrir vana að hringja um leið og sest er inn í bílinn og svo er bakkað út úr stæðinu með annari hendi, sent SMS eða vefurinn skoðaður
Grímur (IP-tala skráð) 7.7.2013 kl. 07:20
Sá sem fer á bíl eða með strædó til vinnu er bæði gangandi og hjólandi vegfarandi á leið til vinnu. Ef hann fer á hjóli verður hann nær eingöngu hjólandi vegfarandi.
Fækkkun í einum hóp leiðir til fækkunar slysa í þeim hóp en líka aukningar annarstaðar því fólk þarf jú að komast til vinnu.
þannig er átakið hjólað í vinnuna einn líklegur orsakavaldur á breytingum á tölfræðinni.
http://www.lhm.is/images/stories/2013/1MyndLlatnirSlasadir2006-2012.png
Það sem ég les út úr þessu riti er að þeir einu sem eru að ná marktækum árangri í fækkun slysa í umferðinni á íslandi eru framleiðaendur bíla út í heimi.
Guðmundur Jónsson, 7.7.2013 kl. 10:58
Slys á gangandi vegfarendum í Reykjavík - September 2007:
"Slysum með alvarlegum meiðslum og banaslysum gangandi vegfarenda hefur fækkað verulega í Reykjavík á undanförnum áratugum."
"Umferðar- og gangbrautarljósum, einnar akreinar hringtorgum, samfelldum girðingum, 30 km hverfum, hraðahindrunum ýmiss konar og mislægum götutengslum hefur fjölgað mjög. Þá hefur stígakerfið lengst mjög og hönnun þess batnað.
Aðgerðir á aðalgatnakerfinu miða að því að aðskilja akandi og gangandi umferð þar sem ökuhraðinn er mestur og fækka þverunarstöðum gangandi vegfarenda annars staðar. Aðgerðir innan hverfa miða hins vegar að því að halda ökuhraða niðri.
Umferðinni er ennfremur stýrt betur nú en áður, meðal annars með hringtorgum og umferðarljósum, og þverunarstaðir gangandi vegfarenda hafa verið gerðir öruggari með gangbrautarljósum, girðingum og miðeyjum."
"Sebragangbrautum var fækkað því þær gáfu falskt öryggi, þar sem ökumenn virtu ekki rétt þeirra."
"Götulýsing hefur víða verið bætt sérstaklega við þverunarstaði óvarinna vegfarenda."
"Aðgerðir innan hverfa miða einkum að því að minnka ökuhraða og innan 30 km hverfa hefur alvarleiki umferðaslysa minnkað verulega."
"Umferðaróhöppum þar sem slys verða á fólki hefur fækkað að meðaltali um 27% og alvarlegum slysum um 62% í 30 km hverfum."
Slys á gangandi vegfarendum í Reykjavík - September 2007
Þorsteinn Briem, 7.7.2013 kl. 12:09
Í árekstrum skiptir væntanlega skriðþunginn (hraðinn sinnum massinn) mestu máli.
Þannig gæti til að mynda rafskutla valdið alvarlegra slysi á gangandi vegfaranda en maður á reiðhjóli, enda þótt rafskutlan og reiðhjólið hafi verið á sama hraða.
Hjólreiðamenn í Reykjavík eru nú þrefalt fleiri en fyrir þremur árum.
Og farþegar strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu voru 30% fleiri árið 2012 en 2009.
Í umferðinni í Reykjavík voru gangandi og hjólandi 21% árið 2011 en 9% árið 2002.
Aðgerðir í loftslagsmálum - Maí 2013
Fólksbílar hér á Íslandi voru að meðaltali tólf ára gamlir árið 2012 (11,95 ára en 11,6 ára 2011).
Ársskýrsla Umferðarstofu 2012
Þorsteinn Briem, 7.7.2013 kl. 13:09
Meðalaldur bílanna segir ekki alla sögu því að til dæmis veldur fjölgun fornbíla því að meðalaldurinn hækkar en vegna þess hvað þeim er margfalt minna ekið en yngri bílunum, flestum nánast ekki neitt, er ekki þar með sagt að meðalaldur bíla í umferðinni hverju sinni sé svona hár.
Hann er til dæmis meiri á sumrin en á veturna, þegar gömlu bílunum er ekki ekið.
Ómar Ragnarsson, 7.7.2013 kl. 22:50
Árið 2011 voru 206.123 fólksbílar á skrá hér á Íslandi og 39.297 þeirra voru fimm ára eða yngri, eða 19%, og 111.761 tíu ára eða yngri, eða 54,2%, en 167.663 fimmtán ára eða yngri, eða 81,3%, og 184.270 tuttugu ára eða yngri, eða 89,4%.
Eldri en 20 ára voru hins vegar 21.853, eða 10,6%.
Í árslok 2005 voru 162.515 fólksbílar í umferð hérlendis og meðalaldur þeirra var 9,5 ár.
Þorsteinn Briem, 8.7.2013 kl. 00:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.