12.7.2013 | 18:26
Þegar hið smæsta verður stórt.
"Það er lítið sem hundstungan finnur ekki" segir máltækið, og oft getur hið smæsta orðið stórt í íþróttum.
Það hefði verið afar neyðarlegt miðað við hina miklu yfirburði Aníu Hinriksdóttur í grein sinni fram að þessu ef hún hefði verið felld á því að hafa snert hliðarlínu hárfínt í upphafi undanúrslitanna í dag.
Sem betur fer kom í ljós að það munaði hárfínt og munaði því nógu.
Íþróttasagan greinir frá mörgum dæmum um það hvernig hið smæsta getur orðið stórt og afdrifaríkt.
Til dæmis skipti einn sentimetri sköpum í spjótkastskeppninni í gær.
Linford Christie, sem var í allra fremstu röð spretthlaupara heims lengur en nokkur annarr fyrr eða síðar, eða allt til 35 ára aldurs, var frægur fyrir það hve ofurmannlega snarpt viðbragð hans var.
Hann var dæmdur úr leik í úrslitum 100 metra hlaupsins á Ólympíuleikunum 1994 fyrir að þjófstarta tvisvar, en hann var yfirleitt svo fljótur í startinu að stundum var hægt að draga hvort tveggja í efa, að hann hefði þjófstartað eða ekki þjófstartað.
Hefur jafnvel verið rökstutt að hann hafi ranglega verið dæmdur úr leik 1994.
Mikill kurr varð í öðrum bardaga þeirra Muhammads Alis og Sonny Listons 1965 þegar enginn virtist sjá höggið, sem felldi Liston í gólfið. Fyrir bragðið hlaut það heitið "phantom punch" eða vofuhögg og allt til dagsins í dag geta menn deilt um það hvort Liston var í raunninni rotaður almennlega.
Ali sagði sjálfur að höggið hefði aðeins sést á einum ramma kvikmyndarinnar, sem tekin var af bardaganum, en einn rammi tekur 1/25 úr sekúndu í sýningu.
"Það er álíka langur tími", sagði Ali, "og það tekur fólk að depla augunum, og enginn í salnum sá höggið af því að allir depluðu augunum á sama tíma!"
Þegar myndin er skoðuð sést að höggið lendir leiftursnöggt á kjálka Listons og höfuð hans snýst jafnhratt um 10 sentimetra, þannig að höggið var raunverulegt. Annað atriði réði þó meiru um það hve magnað þetta högg var.
Vitað er í hnefaleikum að hnefaleikarar, sem eru þrautþjálfaðir við að fylgjast með handleggjum og hnefum andstæðinsins, þjálfast upp í það að "rúlla með högginu" þegar það kemur þótt þeir geti ekki vikið sér undan því.
Ef þeir hins vegar sjá aldrei höggið og eru meira að segja á leið áfram á móti því, þarf oft ekki nema nákvæmt og snöggt högg til þess að fella menn og rota þá, þótt höggið sýnist ekki þungt.
Dæmi um þetta fyrirbæri var rothöggið sem felldi Manny Pacquiao þegar hann missti titilinn, högg Jerey Joe Walcott, sem steinrotaði Ezzard Charles 1952, "fullkomnasta högg allra tíma" sem Sugar Ray Robinson felldi Gene Fullmer með, í eina skiptið sem sá gaur fór í strigann,- högg Alis, sem felldi Cleveland Williams óvænt 1966, og höggið sem felldi Oscar Bonavena 1970 í fyrsta sinn sem sá hnefaleikari fór í strigann.
Allir voru þessir rotuðu menn á leið áfram við að slá eigin högg þegar eldingin laust þá úr launsátri.
En endanlega uppreisn fékk Ali 1975 þegar eldsnöggt högg hans af löngu færi felldi Ron Lyle og bardaginn var úti.
Á kvikmynd sést ekki einu sinni að höggið hafi hreyft höfuð Lyles, svo fáránlega snöggt var það.
Ali fékk ekki uppreisn í "vofuhöggs" málinu fyrr en þá, þótt enn sé deilt um hvort Liston hefði getað staðið fyrr upp en hann gerði í bardaganum 1965.
Ali var einfaldlega einn um það að hafa hraða, nákvæmni, tækni og getu til að geta slegið svona "leysigeisla-högg".
Aníta hleypur í úrslitum! - dómurinn dreginn til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Lengi hljóp hann Linford Christie,
Liston felldi Ali,
Aníta nú alltaf fyrst í,
öllu sem hún skal í.
Þorsteinn Briem, 12.7.2013 kl. 19:04
Móðursystir Anítu Hinriksdóttur (17 ára) er hlauparinn Martha Ernstsdóttir, sem nú, 48 ára, er 46 kg og 159 cm.
Martha Ernstsdóttir - Afrekaskrá
Þorsteinn Briem, 12.7.2013 kl. 19:26
Ali vs Liston - Fight 2 - 1st Round Knockout (sýnt hægt frá 2:20)
Þorsteinn Briem, 12.7.2013 kl. 21:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.