13.7.2013 | 01:04
Velheppnuð "retro"hönnun.
Hönnuarsaga Fiat 500, bílsins, sem verið er að faðma í Kringlunni í auglýsingarskyni, er um margt merkileg og lærdómsrík.
Dante Giacosa, aðalhönnuður Fiat verksmiðjanna frá miðjum fjórða áratugnum fram á þann áttunda, hannaði bílinn, sem kom á markað 1957 og varð með árunum svipað tákn fyriri Ítalíu og Bjallan fyrir Vestur-Þýskaland, Trabant fyrir Austur-Þýskaland, Bragginn fyrir Frakkland og Mini fyrir Bretland.
Upprunalegur Fiat 500 var í forystu í skrúðgöngu Vetrar-Ólympíuleikanna í Torino og Top Gear valdi hann sem kynþokkafyllsta bíl veraldar.
Hann er einfaldleikinn sjálfur, með tveggja strokka fjórgengisvél, sem var upphaflega með aðeins 499 rúmsentimetra sprengirými og 18 hestöfl. Samt mögulegt að Blönduóslöggan stöðvaði hann, - þyngdin aðeins 480 kíló.
En ferill bílsins var ekki jafn glæsilegur alla tíð.
Um 1970 þóttu bogadregnar línur hans orðnar svo púkó og hallærislegar að hann seldist illa og gerð var önnur yfirbygging og bíllinn kallaður Fiat 126, rosalega "in", með flottar kantaðar línur.
Hann var framleiddur til ársins 2000 og samanlagt smíðaðir um 8,5 milljónir bíla af Fiat 500 og Fiat 126 gerðum.
Fiat 126 var lengst af framleiddur í Póllandi og kallaður "Maluch", sem þýðir "litli maðurinn" eða "Lilli" á pólsku og varð sams konar tákn Póllands og 500 bíllinn á Ítalíu.
Þegar Mini var endurlífgaður fannst konu framkvæmdastjóra Fiat tilvalið að sama yrði gert við Fiat 500.
Sami maður var fenginn til að hanna 500 og Mini og verður að segjast að hönnun 500 er miklu betur heppnuð, svo vel heppnuð, að bíllinn hefur slegið í gegn alls staðar í Evrópu nema á Íslandi.
Bæði nær hann mun betur svip fyrirrennarains og einnig léttleika, er um 200 kílóum léttari en nýi Mini og auk þess fáanlegur með hinum snilldarlegu Twin-Air vélum, sem eru tveggja strokka eins og á fyrirrennaranum.
Á árunum 2005-2008 voru litlir bílar nánast verðlausir og fengust sumir gefins í þenslunni og mér áskotnuðust bæði Fiat 500 og Fiat 126 í gegnum Ebay fyrir skít á priki.
Upp úr 2008 mátti sjá á Ebay að hlutverkaskipti höfðu orðið með þessum bræðrum. Fiat 500 frá árunum 1972-76 seldist á fjórum sinnum hærra verði en jafngóður Fiat 126, svo hallærislegur þótti hinn kantaði 126 þá en hinn rúnnaði 500 hins vegar svo flottur!
Faðma Fiat í Kringlunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Afturendinn afar mjúkur,
og ákaflega sexí,
yfir renna allar lúkur,
og ástin Fiat vex í.
Þorsteinn Briem, 13.7.2013 kl. 03:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.