13.7.2013 | 14:39
Vegur 63 er svakalegur!
Sumarið 1996 gerði ég frétt fyris Sjónvarpið um ástand vegar númer 63, sem liggur frá Bíldudal um Suðurfirði Arnarfjarðar upp á Dynjandisheiði.
Síðsumars fór nýkjörinn forseti Íslands í opinbera heimsókn á þessar slóðir og ástand vega á sunnanverðum Vestfjarðakjálkanum varð fyrsta málið, sem Ólafur Ragnar lét til sín taka í fjölmiðlum.
Á leiðinni vestur um daginn þurfti eins og eðlilegt er að aka um ókláraða vegi og torleiði á þeim langa kafla í Múlasveit sem nú er verið að leggja.
En það var hátíð miðað við veg 63. Ég gat ekki séð betur en að sá vegur væri ekki aðeins í nákvæmlega sama ástandinu og fyrir 17 árum, heldur öllu verri! Engu líkara en að hann hefði aldrei verið heflaður eða neitt átt við hann í öll þessi sautján ár.
Sömu klappirnar, sömu hvörfin, sömu þvottabrettin og stóru holurnar og höfðu verið á þessum vegi frá því fyrir hálfri öld ! Gamlir kunningjar en ekki vinalegir eða ljúfir.
Ég var rúmlega tvítugur þegar ég fór þennan veg í fyrsta sinn og verð líklega dauður áður en honum verður breytt !
Hve langt fram eftir 21. öldinni á að bjóða heilum landshluta upp á það að sitja einn eftir með samgöngur frá því fyrir meira en hálfri öld?
Stór hluti í gagnið næsta sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ætíð kannar ástandið,
Ólafur Ragnar keikur,
ógeðslegt er allt landið,
aldrei er þó smeykur.
Þorsteinn Briem, 13.7.2013 kl. 15:15
Hárrétt Ómar. Ég fer þarna um að jafnaði nokkrum sinnum á ári og hef gert síðan 1986 eða svo og oft og tíðum er vegurinn hreint skelfilegur. Allt upp í (eða niður í) að eitt sinn þurfti ég að fara þrisvar sömu vikuna milli Ísafjarðar og Bíldudals, þá var að mér komið að fara um Barðaströnd, Patreksfjörð og Tálknafjörð þó það sé mun lengra, svo slæmur var vegurinn. Gott að fleiri vekja athygli á þessu.
Eggert Stefánsson (IP-tala skráð) 13.7.2013 kl. 17:24
Eitt sinn þegar ég vann á Tálknafirði og tók að mér kennslu í leiðinni, datt mér í hug að skjótast á málþing á Ísafjörð. Ég varð örlítið seinn fyrir þrátt fyrir að aka eins hratt og hægt var á jeppanum.
Þar var verið að ræða afrek við skólahald á Ströndum með margmiðlunartækni, ásamt því að efla þyrfti Ísafjörð sem miðstöð menntunar á Vestfjörðum.
Ég benti þá á annan vanda.
Sá tími sem það tók mig að aka í loftköstum á Ísafjörð frá Tálknafirði umrætt kvöld, hefði dugað mér til að aka frá Reykjavík til þennan skóla á Stöndunum ásamt því að stoppa til að fá mér kvöldverð á leiðinni.
Skúli Guðbjarnarson, 14.7.2013 kl. 09:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.