Sigurbjörn er einstakur !

Sigurbjörn Bárðarson er ekki bara í eftirlæti hjá mér af því hann er rauðhærður heldur vegna þess árangurs sem hann hefur náð í íþrótt sinni um áratuga skeið.

"Þetta eru nú bara hestarnir" segja einhverjir. En það er ekkert meira vit í að segja það heldur en að segja: "Þetta eru nú bara bílarnir" þegar rætt er um árangur ökumanna í bílaíþróttum.

Auðvitað hafa hestarnir og bílarnir sitt að segja, en "veldur hver á heldur."

Sigurbjörn kemur manni alltaf á óvart.

Ég varð til dæmis mjög undrandi þegar hann hafði fyrir því að fara inn á miðja Þórsmerkurleið um kvöld að haustlagi til að fylgjast með keppninni á þeirri sérleið í einu haustrallinu hér um árið.

Ég hafði ekki fyrr séð afreksmann í íþróttum eyða tíma sínum og hafa fyrir því að skoða aðra íþrótt en sína eigin.

"Hefurðu svona mikinn áhuga á bílaralli?" spurði ég hann þegar við hittumst eftir keppnina.

"Nei", svaraði hann, en ég hef áhuga á að kynna mér það sem liggur að baki góðum árangri í íþróttum, sem hægt er að segja að séu skyldar hestaíþróttum."

Síðan lýsti hann í smáatriðum því, sem hann hafði tekið eftir í akstri keppenda á þeim stutta kafla, sem hann hafði valið sér að skoða af ótrúlegu innsæi og dró af því ályktanir um það, hvernig rallið fór.

Tók eftir notkun eða notkunarleysi hemla, hraða, gírskiptingum og því hvernig bílnum var sveiflað í gegnum beygjurnar o. s. frv.

Þarna kynntist ég óvæntri hlið á Sigurbirni, þauhugsun, gaumgæfni, ályktunarhæfni og vinnu sem liggur að baki góðum árangri þeirra sem lengst ná.

Þess vegna kæmi mér ekkert á óvart þótt hann yrði þrefaldur Íslandsmeistari í þetta sinn og bætti enn einni rósinni í hnappagat sitt "á gamals aldri" .

En það kæmi mér heldur ekkert á óvart að hann yrði það ekki núna, heldur seinna þegar hann væri búinn að kryfja allt til mergjar og koma tvíefldur til baka.

Því að menn verða ekki sannir meistarar á því að sigra sem oftast heldur á því hvernig þeir vinna úr ósigrunum.


mbl.is Sigurbjörn gæti orðið þrefaldur Íslandsmeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Sigurbjörn þar áfram æðir,
á afar fögru brokki,
á öllum beygjum Ómars græðir,
yndis beggja þokki.

Þorsteinn Briem, 14.7.2013 kl. 02:58

2 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þessa hlið á Sigurbirni þekkjum við hestamenn vel. Ekki man ég hversu lengi hann er búinn að vera keppnismaður á hestamótum og alloft með marga hesta. Um þá knapa gildir oft að þeir tefjast við að skipta um hesta vegna þess að flestir vilja nota sama hnakk. Én þori næstum að fullyrða að aldrei hafi þurft að bíða eitt andartak eftir að Sigurbjörn mætti í sinn riðil jafnskjótt og nafn hans hafði verið kallað upp á þeim mótum sem ég starfaði við á Vindheimamelum. Oft barst þetta í tal - þetta var svo sérstakt - og allir sem til þekktu voru á einu máli. Þegar á þurfti að halda leysti hann þessi mál með aðstoðarmanni umyrðalaust.

Árni Gunnarsson, 14.7.2013 kl. 08:56

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

IMG_4542

Þorsteinn Briem, 23.7.2013 kl. 20:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband