Að reka flugvöll fyrir ríkið ?

Á íslenska hálendinu hefur Isavia (Flugmálastjórn) haldið út alls sjö flugvöllum.

Þessir vellir geta verið öryggisatriði eins og í ljós kom fyrir 15 árum, þegar rúta valt ofan í Hólsselskíl á Hólsfjöllum og flytja þurfti slasaða farþega flugleiðis til Akureyrar.  

Þyrlu var ekki að fá úr Reykjavík og Twin Otter flugvél frá Akureyri bjargaði málinu. 

Þegar litið er á kort af Íslandi sést að völlunum er misskipt á milli tveggja aðalsvæða hálendisins.

Fimm lendingarstaðir, Veiðivötn, Sprengisandur, Nýidalur, Kerlingarfjöll og Hveravellir, eru á sunnan- og vestanverðu svæðinu en aðeins tveir, Herðubreiðarlindir og Grímsstaðir, á norðan- og austanverðu hálendinu. Raunar stendurvöllurinn skammt frá hringveginum og Grímsstöðum og getur því alveg eins talist til byggðaflugvalla þess vegna. 

Því má segja að Isavia haldi aðeins út einni flugbraut á norður/austur-svæðinu, sem er þó fjær þyrlumiðstöð Landhelgisgæslunnar en suður/vestur-svæðið.  

Og gallinn við allar framantalda hálendisflugvelli hefur verið sá, að þeir hafa aðeins verið nothæfar fyrir litlar flugvélar eða skammbrautavélar og því ekki getað talist nothæfir fyrir nauðlendingar eða venjulegar lendingar stærstu vélanna í innanlandsfluginu, eins og Fokker 50 eða Dash 8.

Í ofanálag er sá annmarki á Herðubreiðarlindarflugbrautinni, að hún getir verið varasöm eða ófær til notkunar ef vindur stendur á hana ofan af Herðubreið, sem er rétt hjá honum.

img_9304_1205465

2010 tók ég í notkun Sauðárflugvöll á Brúaröræfum, sem er nú næst stærsti flugvöllur landins hvað samanlagða lengd flugbrauta snertir, næst á eftir Keflavíkurflugvelli.

Á honum geta lent allar flugvélar sem fljúga í innanlandsflugi hér á landi, allt upp í Fokker F50, og einnig gætu lent þar stórar herflugvélar á borð við Lockheed Hercules og Boeing C-17.

Í mælingum Isavia á honum vegna löggildingar og alþjóðlegrar viðurkenningar hans komu ekki fram umtalsverðar hindranir í aðflugi og fráflugi og þaðan af síður vandkvæði vegna misvindis eða hliðarvinds, enda eru brautir vallarins alls fimm og 4,7 kílómetrar samtals að lengd, sú lengsta 1300 metrar brúttó.

7. nóvember 2007 missti Fokker F50 afl á báðum hreyflum norður af vellinum og fyrsta tilkynning til farþega hljóðaði upp á viðbúnað fyrir nauðlendingu inni á öræfunum án vélarafls.

IMG_9238

Síðan tókst að koma afli á annan hreyfilinn en hafa slökkt á hinum og var vélinn flogið til Egilsstaða og lent þar á einum hreyfli, en farþegar fengu áfallahjálp.

Þetta atvik sýndi að þörf er á nothæfum flugvelli á því tugþúsunda ferkílómetra svæði norðan Vatnajökuls, þar sem leiðir flugvéla liggja, og orðið geta hópslys og hafist eldgos, flóð eða náttúruhamfarir.

Flugvélar hafa lent á þessum stað í tíu ár og fyrir mig persónulega er ekki þörf á því að þetta sé viðurkenndur og löggiltur flugvöllur sem haldið sé við og hann starfræktur eftir þeim kröfum, sem um slíka flugvelli eru gerðar, af því að vél mín er tryggð fyrir lendingar utan valla Isavia. 

Öðru máli gildir um flesta aðra flugvélaeigendur, sem hafa flugvélar þannig tryggðar, að þær eru aðeins tryggðar á flugvöllum viðurkenndum af Isavia.

 Að útbúa völlinn þannig að hann fengi viðurkenningu hefur verið hugsjónamál fyrir mig vegna þess gildis sem hann getur haft og áður hefur verið lýst  og vegna þess að áður en hann kom var aðeins ein flugbraut með takmörkuðu notagildi á öllu norðausturhálendinu.  

Viðhald og eftirlit með vellinum kostar mig nokkrar ferðir alla leið þangað frá Reykjavík á hverju sumri og auk þess þarf ég að borga gjöld til Isavia fyrir að halda honum viðurkenndum og löggiltum.

Hann er hins vegar skráður sem einkavöllur og í krafti þess getur Isavia losnað við allan kostnað við að viðhalda honum og innheimt í staðinn gjöld af mér vegna hans.  

Ég lít svo á að með því að halda þessum velli opnum og nothæfum sé bæði bætt úr vöntun á slíku mannvirki og spöruð útgjöld við viðhald þess. 

Því fyndist mér það því eðlilegt að þurfa ekki að borga gjöld til ríkisins fyrir að reka nauðsynlegt mannvirki fyrir það.  

En svona virkar nú blessað kerfið margumtalaða.  

 

 

 


mbl.is Haldi við girðingu endalaust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Presidentinn ætti að næla á þig orðu og bjóða þér í nýsoðna ýsu á Bessastöðum fyrir þessa merku flugvallarstarfsemi, Ómar minn.

Hins vegar þótti nú ekki gott til afspurnar í minni sveit að hæla fólki, enda reyni ég að gera sem minnst af því.

Þorsteinn Briem, 17.7.2013 kl. 22:11

2 identicon

Steini Briem.

Kona forsetans heitir forsetning. Er að að vísu ensku slétta, en "so what"?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 17.7.2013 kl. 22:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband