17.7.2013 | 23:23
Góð samtök og gott verkefni. Hvar er spotti Gísla ?
Ég hef lítillega kynnst samtökunum SEEDS og hrifist af hugsjónum þessa unga fólks.
Var vestur í Selárdal á dögunum í einni af ferð minni að Uppsölum, en ég skilgreini mig sem "bónda" á tveimur stöðum á landinu, "minningabónda að Uppsölum í Selárdal" og "flugvallarbónda á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum!.
Góðir grannar eru á báðum stöðum, Jytte Marcher og afkomendur hennar og Helga Jónssonar heitins á næsta bæ, Selárdal, og Völundur Jóhannesson, ræktunarbóndi í Grágæsardal á Brúaröræfum.
Ég tók eftir því að enda þótt mjög góð verk hafi verið unnin í dalnum eftir að hinu stórmerka verkefni "Vor í dal" var hrint í framkvæmd í ráðherratíð Guðna Ágústssonar, - og hann og hans góði samverkamaður Níels Árni Lund hafi brytjað upp á nýrri aðferð við að hleypa lífi í afskekktar byggðir, þarf sífellt að gera betur.
Umgengni gesta, sem hafa komið í húsið á Uppsölum, hefur verið til mikillar fyrirmyndar og nær allir haft í heiðri þau tilmæli að hver gestur sé safnvörður þar á meðan á heimsókninni stendur.
Ein undantekning sást þó í ferðinni.
Síðan ég var þarna síðast hefur einhver tekið í burtu nokkra smáhluti, til dæmis snærisspotta með lítilli lykkju, sem Gísli heitinn hafði fest við tvo nagla efst í stiganum upp í herbergið sitt, til þess að geta hjálpað sér upp stigann með því að toga í spottann.
Stiginn er brattur, stigaopið þröngt, og karlinn orðinn gamall, kannski í myrkri með eitthvað undir hendinni þegar hann var að paufast upp stigann og gott að geta tekið í spottann.
Ég er yfirleitt með dráttartaugar í ferðalögum mínum og setti nýjan spotta í staðinn, eins og myndin sýnir, með því að taka part af spottanum sem ég var með, og koma fyrir nýjum spotta með lykkju, sem var eins og fyrirmyndin, en undrast af hverju einhver hefur ekki getað látið þennan litla hlut í friði, sem segir svo sterka sögu um kjör einbúans.
Er virkilega einhver sem hefur yndi af því að sýna gestum sínum spottann og hæla sér af því að eiga þennan einfalda grip úr eigu Gísla?
Og einhverjir gestir hans eða kunningjar, sem finnst þetta bara allt í lagi og dást að?
Af hverju mega þúsundirnar, sem þarna koma og ganga vel um, ekki njóta staðarins með því að sjá það sem þarna varð eftir þegar Gísli var allur?
Ég skora á þann sem tók spottann að senda mér hann í pósti og sjá með því að sér. Í staðinn heiti ég honum því að málið verði ekki rekið frekar.
Selárdalur er svo sérstakur staður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki er víst að allir hafi sama skilning á Hamiðjugarni á þessum stað og minningarbóndinn.
Bóndanafnið er dulmagnað, hlaðið ástríðu og þrautsegju.
Kunningi minn, iðnmeistari í sveit með meiru tilar sig bónda í símaskránni. Honum þykir vænt um bóndanafnbótina, enda á hann kindur og hesta sem hann hirðir í veglegu húsi. Ekki nóg með það hann á borholu með heitri gufu. Hann selur heitt vatn og ég titla hann borholubónda sem honum þykir engin vegsemd af.
Mig langar að berja Sultartanga augum í gönguferð sumarsins. Þar eru að finna framandi nöfn eins Seytla, Eiristorfur, Tangafoss, Skúmstungur, Fögrulindir, Uppgöngur, Hald og Stóru Hestatorfu. Aðeins skáld og bændur gætu gefið slík nöfn. Enginn bóndi vildi vera kenndur við Sultatanga? Jafnvel ekki á raföld! Sá er nær skilningi og innihaldi þessara nafngifta á rétt á að vera öðlast nafngiftina bóndi.
Sigurður Antonsson, 18.7.2013 kl. 00:46
Íslendingar eru því miður margir hverjir þjófóttir og til vandræða, þannig að svona hlutir fá ekki að vera í friði.
Hérna í Danmörku er þetta einfaldlega ekki svona, fornmunir fá yfirleitt að vera í friði. Hinsvegar er margt fólk sem virðir þetta ekki og stelur svona hlutum, aftur á móti eru sektir háar og jafnvel fangelsi fyrir viðkomandi sem stendur í því að stela svona hlutum. Á Íslandi er því miður lítið gert, og stundum ekki neitt jafnvel, þannig að fólk tekur þessum afbrotum með léttúð og heldur þeim áfram vegna þess að það veit að því mun ekki verða refsað.
Jón Frímann Jónsson, 18.7.2013 kl. 02:51
Getur verið einhverjir unglingar sem hafa gert þetta í fljótfærni,,,kannski?
droplaugur (IP-tala skráð) 18.7.2013 kl. 09:38
SEEDS-Sjálfboðaliðar umhverfis landið
Þorsteinn Briem, 18.7.2013 kl. 11:01
"Á bænum Reyni, sem stendur sunnan undir vesturodda Akrafjalls, bjó um árið 1700 einn frægasti sonur Akraness, Jón Hreggviðsson "snærisþjófur af Akranesi", einn kunnasti sakamaður landsins.
Jón var aðalpersónan í skáldverki Halldórs Laxness, Íslandsklukkunni."
Markaðs- og atvinnuskrifstofa Akraneskaupstaðar
Þorsteinn Briem, 18.7.2013 kl. 11:50
Ég veitti athygli í skrifum þínum þessu: "...hæla sér af því að eiga þennan einfalda grip úr eigu Gísla?"
Ég lít svo á að enginn geti átt það sem hann tekur og er annarra eign. Í mínum huga er það þjófnaður og ég er sammála þér... "er virkilega einhver sem hefur yndi af því að sýna ..."
hluti sem hann sannarlega ekki á.
Hólmfríður Sólveig (IP-tala skráð) 18.7.2013 kl. 12:04
„..brytjað upp á...“ „...bryddað upp á...“?
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 18.7.2013 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.