24.7.2013 | 10:39
Er þetta verk Georgs sjötta ?
Það er sagt að fæðing eins barns í Bretlandi geti skapað tuga milljarða innspýtingu í hagkerfi landsins.
Konunglegt stórskotalið hleypir úr fallbyssum og allt er á öðrum endanum. Fjölmiðlar fullir af fréttum um eina fæðingu af mörgum þúsundum þennan dag í Bretaveldi.
Hvernig má þetta vera? Hvað veldur því að heil þjóð, já, heilt samveldi og heimsbyggðin öll stendur á öndinni út af þessu?
Ég og fleiri hafa lengi verið undrandi á þeim nágrannaþjóðum okkar sem viðhalda konungsveldi sem gengur í arf og öllu því prjáli og kostnaði, sem því fylgir.
En myndin "The Kings Speech" gaf svolitla innsýn inn í þetta. Georg sjötti tókst á hendur hlutverk og starf sem hann hefði helst viljað sleppa við. Hann var málhaltur og uppburðalítill og stóð lengi í skugganum af bróður sínum, sem varð kóngur á undan honum, en sagði af sér, að mörgu leyti út af fáránlegum formsatriðum.
Ofan á allt varð stamandi konunugurinn að halda ræðu fyrir þjóðina þegar hún lýsti yfir stríði, sem allir vissu að yrði hrikalegasti hildarleikur sögunnar.
En hann reis undir ábyrgðinni, bæði þá og ekki síður í loftárásunum á London, þegar hann reyndi eftir bestu getu að setja sig í spor þjóðar sinnar, ganga um í rústunum eftir árásir næturinnar og tala kjark í fólk.
Við vitunm að einhver þarf að taka það að sér að vera málsvari og fulltrúi þjóðar og alþjóðalög gera ráð fyrir því að þjóðhöfðingi annist það.
Winston Churchill átti að vísu mestan þátt í því að blása Bretum eldmóð í brjóst með framgöngu sinni og frábærum útvarpsræðum.
Slíka hæfileika og snilli hafði konungurinn ekki. En enda þótt hann væri konungur en ekki "þegn og óbreyttur borgari" eins og Churchill og stjórnmálamennirnir voru, voru það takmarkanir hæfileika hans hvað snerti málheltina og feimnina sem gerðu það líklega að verkum að hann varð samt frekar eins og einn af fólkinu heldur en ef hann hefði verið snillingur í ræðu og riti.
Fólk tók hann, þrátt fyrir tignina, sem jafningja hvað þetta snertir.
Myndin "The Kings Speech" útskýrði þetta fyrir mér. Almenningur virðist haldin þrá til að hugsa og tala um þá, sem hún þekkir eins og þeir væru nánir ættingjar eða vinir, fylgjast með þeim og því sem er að gerast hjá þeim.
Þess vegna voru Hjemmet og Famiiejournalen hvað vinsælust tímarita hér á landi á miðri öldinni sem leið. Þar var fjallað um kóngafólkið og fræga fólkið.
Í fyrsta tölublaði Morgunblaðsins fyrir öld er greint frá því sem fréttir væru, að tilteknir bændur hafi komið til Reykjavíkur og farið þaðan.
Virkaði hlálegt síðar meir, en lítið þið bara á dálkana "Fólk" í blöðum og tímaritum og á tímaritið Séð og heyrt. Þar eru það fréttir hverjir voru á hvaða veitingastað um síðustu helgi.
Kóngafólkið í Bretlandi virðist gegna því hlutverki að sameina þjóðina af því að allir þekkja það og fylgjast með því hvað er að gerast hjá því.
Elísabet önnur hefur að vísu ríkt lengi og farsællega, en sumir aðrir í fjölskyldunni hafa ekki orðið kóngaslektinu til framdráttar.
En ég held að með framgöngu sinni á hinum erfiðu stríðsárum, þegar hann snart hjörtu þegna sinna, hafi Georg sjötti lagt fram stærsta skerfinn til þess að hið forneskjulega og að því er virðist úrelta konungsveldi Breta virðist þrífast nú sem aldrei fyrr.
Prinsinum fagnað með fallbyssum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.