Ekki eins og í gamla daga.

Þegar sagt er að nýja GSR Bjallan sé "eins og í gamla daga" er það ekki rétt nema að sáralitlum hluta.

Gamla Bjallan var með vélina fyrir aftan afturhjól og afturhjóladrif. Vélin var flöt "boxaravél" og loftkæld.

Nýja Bjallan er með vélina þversum fyrir framan framhjól og framhjóladrif. Vélin er upprétt "línuvél" og vatnskæld og bíllinn nær tvöfalt þyngri og miklu stærri en gamla Bjallan.

Það eina sem er "eins og í gamla daga" er ytri útfærsla og snertir aðeins yfirborðið að innan og utan, ekki vél og drifbúnað.

Svipað má segja um nýja Fiat 500, sem er tvöfalt stærri en gamli Fiat 500, en er þó afar vel heppnaður, fæst með frábærri tveggja strokka vél og er best heppnaður "retro-bílanna" hvað útlit varðar.

Mini og Porsche 911 eru trúir uppruna sínum hvað snertir uppsetningu og staðsetningu véla og drifbúnaðar.

Um tíma var það ætlun Volkswagen að hafa vél WW Up! þversum aftast og afturdrif en þeir heyktust á því, enda afar erfitt að leysa vandamál varðandi illviðráðanlega aksturseiginleika með svo mikinn þunga aftast í bílnum.

Porsche-verksmiðjunum tókst hins vegar það sem virtist ómögulegt, að hafa meira en þriggja lítra og yfir 300 hestafla sex strokka boxaravél langt fyrir aftan afturhjól og gefa bílnum samt ótrúlega aksturseiginleika.

Þetta er tæknilegt afrek, en byggist á því að helstu kaupendur bílsins sættu sig ekki við það þegar slátra átti þessum bíl fyrir 35 árum, heimtuðu að fá að kaupa hann áfram og keyptu hann en ekki Porsche 928 og 924 sem áttu að taka við.

Það eina, sem Porsche 911 varð að beygja sig fyrir var að ekki var hægt að hafa vélina loftkælda þegar nýjar kröfur um mengun og fleira urðu harðari. Hún er því vatnskæld en gamla boxarahljóðið er þó enn við lýði, sem betur fer og bíllinn er ekki mikið þyngri eða stærri en gamli Porsche 911 var.

Mér finnst líka að útlitið mætti vera ögn líkara því sem það áður var.

Ég bíð eftir því að fram komi Volkswagen Bjalla með fjögurra strokka boxaravél afturí og afturdrif og Fiat 500 með upprétta tveggja strokka aftur í og afturdrif.

Þá fyrst verður hægt að tala um Bjöllu eins og í gamla daga.  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Antonsson

WV Up er ótrúlega einfaldur og þægilegur í akstri. Rennur eins og skeiðklukka austur yfir fjall. Ekki þarf mörg hestöfl í þá keyrslu. Þegar ég var strákur varð að kæla vélarnar í Kambabrekkunum með vatni úr ánni sem kemur af heiðinni. Var þá ekki kominn vatnslás? Gaman væri að heyra meira um þetta.

WV Up eyðir sára litlu og hentar í 70% af heimilisakstri. Vélin fer í biðstöðu á ljósum. Er þetta ekki sú nýja Bjalla sem menn hafa beðið eftir, Alþýðuvagninn? Rómatíkin er góð en best að vera á jörðinni eins í pistlum þínum.

Sigurður Antonsson, 25.7.2013 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband