Ósiðir okkar eru margir. Furðulegir úrskurðir.

Ósiðir okkar Íslendinga í umferðinni hafa verið landlægir lengi. Og umdeilanlegt er margt í henni. 

Lítum á myndir, sem voru teknar í dag á Kringlumýrarbraut og Miklubraut.

IMG_9485

Á undan mér var vörubíll með einhvers konar hjólakrana á pallinum. Bóma hjólakranans stóð bæði langt aftur fyrir vörubílspallinn og langt upp fyrir hann eins og þessar myndir sýna. 

Þegar vörubílinn tók beygjur, til dæmis frá Kringlumýrarbraut vestur Miklubraut, sveiflaðist bóma hjólakranans langt út fyrir akrein hans og var þá tilviljun hvort það hár bíll var við hlið hans að þessi breiða karfa/pallur á bómunni rækist utan í hann.

IMG_9481

Á einum stað var ekið undir slá, og þar hægði bíllinn á sér alveg niður undir kyrrstöðu og virtist bílstjórinn ekki viss um hvort karfan/pallurinn kæmist undir hana!  

Engin veifa var á körfunni né neitt annað sem benti til annars en að bílstjóri vörubílsins teldi það hið sjálfsagðasta mál að aka um borgina og sveifla þessu hlassi sínu í allar áttir.

Furðu algengt er að sjá svipaða sjón, til dæmis stóra sendibíla, sem eru með afturhlerann standandi láréttan aftur úr bílnum á fullri ferð í umferðinni. 

IMG_9482

 

Fyrir 15 árum ók vöruflutningabíll lafhægt á undan mér á hliðargötu og fór hægt. Ekið var á móti lágri morgunsól um hávetur, engin umferð framundan, og ég hugðist fara fram úr honum.

Þá beygði flutningabíllinn skyndilega til hægri án þess að hafa gefið stefnuljós, og heyrðist þá mikill hávaði í hægri hlið bíls míns.

Kom í ljós að flutningabíllinn hafði verið með afturhlerann niðri, svo að hann skagaði langt út úr bílnum og skar upp alla hægri hlið bíls míns eins og niðursuðurdós.

Engin leið var að sjá þennan hlera þegar horft var á móti sól, enda afturbrún hans þunn eins og hnífsblað og engar veifur á bílnum, enda algerlega ólöglegt að aka með hlerann niðri.

Tryggingarfélögin skiptu tjóninu í tvennt þannig að báðir bílstjórar urðu að borga sjálfsáhættu og missa bónus! 

Talið var að ég hefði átt að vita að bíllinn fyrir framan mig myndi geta sveiflað afturhlera, sem ég gat ekki séð, út og yfir á minn götuhelming!

Þessu varð ekki hnekkt en ég sendi bréf þar sem ég sagði að tryggingarfélagið hefði verið heppið að ég hefði ekki komið akandi  á minni og lægri bíl á móti flutningabílnum, því að þá hefði hlerinn hoggið af mér hausinn, og ekki væri hægt að svipta hauslausa og dauða ökumenn bónusum. 

Ég frétti siðar að vinur minn einn hefði ekið á svona hlera og mátt þakka fyrir að drepa sig ekki, en samt dæmdur í órétti fyrir að sjá ekki hlerann !

Þetta samsvarar því að maður gengi um á fjölfarinni gangstétt með beitt sverð standandi út undan frakka og sveiflaði því í allar áttir, en ef einhver yrði fyrir því, yrði hann dæmdur sekur um slysið að hálfu fyrir að hafa ekki búist við því fyrirfram eða séð það.  

 


mbl.is Alvarleg slys rakin til símanotkunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér er allt nú hægt að tryggja,
haus og vit og allt hvað er,
ekkert þó er á að byggja,
og Ómars þar af skorið der.

Þorsteinn Briem, 24.7.2013 kl. 20:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband