Gamla Bjallan gat flotið með smá tilfæringum.

Gamla Volkswagen Bjallan innleiddi alveg nýtt fyrirbrigði í bílaflota heimsins, - hún var svo þétt og vel sett saman að maður fékk hellu fyrir eyrun ef hurð var skellt með lokað fyrir miðstöðvarkanalinn. VolkswagenBeetle-001[1]

Mörg voru dæmi þess að Bjallan væri látin fljóta með smá tilfæringum og henni jafnvel siglt eitthvað.  

Nordhoff, fyrsti forstjóri verksmiðjanna, gerði, að því er mörgum fannst, fáránlega strangar kröfur til samsetningar á bílnum og þeirra efna, sem notuð væru.

Til dæmis krafðist hann þess að í legur og slithluti væri aðeins notað sterkasta og endingarbesta efni sem völ væri á, jafnvel þótt það kostaði einhverja hækkun á framleiðsluverðinu.

Vélin var loftkæld og því meiri hitasveiflur í henni en í vatnskældum vélum. Nordhoff krafðist þess að vélin entist jafn vel í miklu álagi ísköld í tuga frosta kulda á norðurslóðum sem í 40-50 stiga hita í heitum löndum.  

Ef Nordhoff hefði ekki staðið fastur á þessu er ólíklegt að Bjallan hefði náð þeim gríðarlegu vinsældum, sem hún náði. Vinsældirnar fóru fyrst að aukast þegar í ljós kom eftir að bíllinn hafði verið framleiddur í tæpan áratug að hún gekk og gekk og gekk.IMG_9550

Sem dæmi um hið gagnstæða má nefna að á fyrstu árum NSU Prinz 1-III 1958-1962 voru notuð hágæðaefni í sveifaráslegurnar. Þegar salan stórjókst var freistast til að nota ódýrara stál í sams konar vél í NSU Prinz 4.

Það olli því að legurnar urðu stundum ónýtar eftir nokkra tuga þúsunda kílómetra akstur. NSU_Prinz_rot[1]

Í fyrradag hitti ég mann sem átti Fiat 500 Giardinera fyrir hálfri öld, en það var skutbílsútgáfa af Fiat 500 með liggjandi tveggja strokka loftkældri vél undir gólfi farangusrýmisins aftast í bílnum.

Hann sagði að sveifaráslegurnar hefðu ekki enst nema í 20-30 þúsund kílómetra akstur.

Þetta kemur mér á óvart, því að mest ekni Fiat 126 bíllinn sem ég á (126 er í grunninn sami bíll og 500) er enn með þessar legur í góðu lagi.

Ástæðan kann að vera betri kæling uppréttrar vélar í stóru auðu rými heldur en liggjandi vélar Giardinera í þröngu rými undir gólfi.   MHV_Fiat_500_Giardiniera_01[1]

Útlitslega var Bjallan orðin úrelt á þeim tíma sem vinsældir hennar og sala á henni jukust hraðast og síðasta áratuginn, sem hún var framleidd í Þýskalandi var hún líka orðin tæknilega úrelt.  

Ending Bjöllunnar og einföld smíði skapaði ný viðmið, ekki aðeins í framleiðslu lítilla bíla, heldur bifreiðaframleiðslu almennt.

Fyrsta áratuginn eftir stríð voru bandarískir bílar afar vandaðir. Það heyrðist traustvekjandi lágt hljóð þegar dyr féllu nákvæmlega að stöfum og vöndunin sein út úr því þegar gírstöng og stjórntæki voru hreyfð.

Með efnahagsuppsveiflu rokkáranna slaknaði á kröfunum og er eitt besta dæmið hvernig stórkostlega glæsilega hannaðir bílar Chrysler-verksmiðjanna 1957, sem skópu útlitsbyltingu, skiluðu stóraukinni sölu aðeins í fá ár, vegna þess að ákafi framleiðendanna bitnaði á gæðunum.  


mbl.is Nýr Fiat 500 bíll eða bátur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Bjallan...?!?

Það er nú ekkert...

Jagúarinn sem tryggingasvindlararnir settu útaf NATO-bryggjunni í Hvalfirði var enn á floti þegar lögreglan í Borgarnesi koma að... Löggan batt spotta í, dró í land og eftir að hafa skipt um kerti og þessháttar setti tjónaeftirlitsmaðurinn bílinn í gang og honum svo ekið til Reykjavíkur...

Jagúar er líklega betri smíði en flotinn þeirra... ;-) 

Sævar Óli Helgason, 28.7.2013 kl. 17:45

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Inga Lind er öll á floti,
enginn þó í hana poti,
rík er hún í skúmaskoti,
skelfilegur er sá bloti.

Þorsteinn Briem, 28.7.2013 kl. 18:45

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta er ótrúleg saga af Jagúar, en ég átta mig ekki á því hvort þessi Jagúar var smíðaður áður en verksmiðjan var seld og ömurlegum gæðum afburða vel hannaðs bíls bar umturnað í gæðum, sem sæmdu slíkum eðalvagni.

Ef það var áður er þetta líklega heimsmet.

Ómar Ragnarsson, 28.7.2013 kl. 21:43

4 identicon

Jagúar sem gat flotið eða ekki flotið!

Er þetta athyglisvert?

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 28.7.2013 kl. 22:23

5 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Einhverjir rugludallar gerðu sér lítið fyrir og sigldu slíkri bjöllu lítt breyttri yfir Ermarsund. Ég átti svona bíl, og eyðslan var óskapleg þótt vélin væri bara 1200 cc. Þess má geta að það var enginn annar en Adolf heitinn Hitler sem hannaði útlit bjöllunnar í meginatriðum, en vinur hans Ferdinand Porsche sá um skrúfurnar. Hún hét upphaflega „Kraft Durch Freude Wagen“ eða KDF- Wagen. Aðkoma Hitlers að hönnuninni hefur alltaf verið mikið launungarmál, en teikningar hans af bjöllunni eru enn til.

Vilhjálmur Eyþórsson, 29.7.2013 kl. 01:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband