29.7.2013 | 01:09
Dyngjuleið enn lokuð, og um hana vilja menn leggja heilsárshraðbraut.
Fyrir aldarfjórðungi upphófst mikil alda áhuga á því að leggja hraðbrautir þvers og kruss um hálendi Íslands, jafnvel að reisa þar "Háborg" og þéttbýli.
Á þeim tíma var ég nokkuð spenntur fyrir þessu. Ég er af jarðýtukynslóðinni og í sveitinni dundaði maður sér við að leggja vegi, stífla vegi og byggja drulluhús hvar sem því varð við komið.
Langt fram eftir aldri var ég í hópi þeirra sem vildi helst reisa mannvirki og leggja dýra og hábyggða vegi sem allra víðast um landið, - helst ekki láta neitt svæði sleppa.
Ferðalög til svæða á norðurhveli jarðar, sem sambærilegust eru við Ísland, svo sem 28 þjóðgarða og 18 virkjanasvæði, fengu mig hins vegar til að skipta um skoðun.
Víðerni af því tagi sem enn eru eftir á miðhálendi Ísland eru að verða algert fágæti og verðmæti þeirra sem slíkra fer sífellt vaxandi.
Enn eru fyrrum skoðanabræður mínir af yngri og eldri jarðýtukynslóðum þó óhaggaðír í framkvæmdaást sinni. Í nýju skipulagi Miðhálendisins er gert ráð fyrir "mannvirkjabeltum" bæði um Kjöl og Sprengisand og einróma vilji að gera svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki að iðnaðarsvæði.
Nú er uppi hreyfing manna sem vill leggja beina heilsárshraðbraut frá Egilsstöðum til Reykjavíkur og trú þessara manna er svo mikil á reglustikuna að þeir telja að þessi leið geti orðið nánast jafn stutt og bein flugleið.
Vaða á yfir svæði norðan Vatnajökuls sem liggja upp í allt að 1000 metra hæð og hafa engar áhyggjur að þeim veðrum sem þar eru á veturna.
Nú er að koma ágúst og Dyngjuleið er enn lokuð en ekkert virðist bíta á trú manna á dýrð þess að dreifa steypu og malbiki sem víðast um allt landið.
Hópur manna er búinn að eyða fjármunum í að undirbúa og láta teikna og hanna risastóra olíuskipahöfn í Loðmundarfirði, eina eyðifirðinum, sem eftir er fyrir utan Hornstrandir, og þaðan eiga að liggja jarðgöng yfir á Hérað og bein hraðbraut yfir hálendið til Reykjavíkur!
Í tímabili var harðsnúinn hópur manna sem vildi leggja heilsárshraðbraut millli Norðurlands og Suðvesturlands um veðravítið Stórasand, sem er í 800 metra hæð yfir sjó og þverskera hálendið norðvestan Langjökuls með trukkavegi.
Á meðan garga fjölfarnir vegarkaflar í byggð um allt land á það að vera endurbættir og fjallvegir milli byggða, sem liggja mun lægra en óskavegir jarðýtuunnenda eru farartálmar.
Á leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar væri hægt að stytta leiðina um alls tæplega 20 kílómetra í byggð og ein þeirra, við Blönduós, er langsamlegasta hagkvæmasta vegagerð, sem hægt er að framkvæma á landinu, en sumir þeirra sem eru ólmir í milljarðatuga vegaframkvæmdir á hálendinu mega ekki heyra það nefnt.
Dyngjuleið enn lokuð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Menn verða að spyrja sig til hvers vegakerfið er og kannski sérstakleg til hvers þjóðvegirnir eru. Er ekki rétt að áætla að þeir séu til að tengja saman byggð í landinu? Og er þá rökrétt að þjóðvegirnir liggi sem mest í byggð og sem næst flestum byggðarkjörnum þess?
Fjarlægðir eru auðvitað afstæðar, en samt er eins og "stytting" vega sé númer eitt, þegar rætt er um vegabætur. En stytting fyrir hverja?
Vel má stytta vegakerfi landsins, með því einu að leggja vegina eins beina og kostur er, þar sem landslag býður upp á slíkt. Víða um landið eru vegir meða ótal beygjum, að því er virðist án nokkurrar ástæðu. Þetta á sérstaklega við um nýlega vegi og má nefna nokkur dæmi:
Frá göngum undir Hvalfjörð og inn að Grundartanga eru um tuttugu beygjur á veginum. Þarna hefði mátt leggja nánast beina braut.
Nýlegar vegabætur við Kolás í Borgarfirði eru teknar með ótrúlegri beygju niður í kvos og síðan til baka upp eftir ásnum. Þarna hefði mátt leggja beinan veg frá söluskálanum Baulu upp á Kolás.
Vegurinn yfir Þröskulda er sérstakt fyrirbrygði í sögu veglagningar á Íslandi, en ekki ætla ég þó að skrifa um hana hér að öðru leyti en nemur óþarfa beygum á þeirri leið. Að norðanverðu liggur þessi vegur um Arnkötludal og þar hefði auðveldlega verið hægt að leggja veginn í beinni línu allt innundir sjálfa Þröskulda. Einhverra hluta vegna eru þó fjölmargar beyjgur á þessari leið.
Fyrir utan augljósa hættu af óþarfa beygjum á þröngum þjóðvegum okkar er ljóst að þær lengja vegakerfið og gera það að öllu leyti dýrara, bæði í uppbyggingu og rekstri.
Skýrasta dæmi þessara öfga er kannski nýr vegur að Dettifossi. Þessi annars ágæti og þarfi vegur er allur lagður í beygjum, ekki einn einast beinn kafli er á honum. Bein lína frá þjóðveginum á Mývatnsöræfum að bílastæðinu við Dettifoss er 17 km., en vegurinn sjálfur er 22 km. Vegstæðið er allt á melum og hrauni og engin sjánleg ástæða fyrir þessum betgjum á honum. Því er þarna fórnar mun meira svæði af óspilltu landi undir veginn en þörf var á, auk þess sem vegagerðin sjálf var a.m.k. 25% dyrari en þörf var, einungis vegna aukinnar lengdar.
Gunnar Heiðarsson, 29.7.2013 kl. 10:01
Gunnars er þar beina brautin,
böðlast áfram holdanautin,
best þó þegar beggja skautin,
í blíðu liggja og undir lautin.
Þorsteinn Briem, 29.7.2013 kl. 13:23
Mikið er ég nú sammála þér í þessu Ómar. Að leggja hálendisvegi er á pappír lítið mál og í sjálfu sér ekki erfið framkvæmd, en að nota veginn allt árið er hinsvegar allt annar hlutur og þar held ég að menn mireikni sig allverulega..
T.d. var snjódýpt við skálana í Dreka á annan meter um miðjan Maí, og eins og þessi frétt ber með sér, ekki enn búið að opna suðurfyrir Dyngjuhraun. Að vísu yrði uppbyggður vegur fyrr auður og nothæfur en það er ekki ófærðin sem mér hugnast síst, heldur veðrin, hver á að tryggja öryggi á þessum leiðum þegar veður eru sem verst, og misvelútbúnir bílar stoppa sökum storma og skafrennings.. ?
Það skyldu þó ekki vera sjálfboðaliðar björgunarsveitanna sem eiga að tryggja það.. Ég sé ekki í hendi mér að nokkur annar gerið það og við skulum hafa í huga að á miðri þessari leið eru yfir 300km í bjargir í hvora átt, margir klukkutímar í ferðalag í vondu veðri...
Byrjum á því að bæta það sem fyrir er, það er nóg af vegspottum til að laga og klára að byggja upp áður en ráðist er í þessa framkvæmd...
Eiður Ragnarsson, 29.7.2013 kl. 14:13
Mér skilst að það sé að sumra mati öryggisatriði að hafa ekki mjög langa beina kafla af því að það slævi athygli ökumanna. Ég held hins vegar að með því að "riffla" vegina í miðju og í köntunum með tannaförum eins og búið er að gera á nokkrum köflum á Suðurlandi megi ná betri árangri í þessu efni.
Auk þess skerða beygjur til hægri útsýni ökumanna við framúrakstur.
Ómar Ragnarsson, 29.7.2013 kl. 14:20
Það mætti líka að setja nokkurt fjármagn í að breikka núverandi vegi, sérstaklega þjóðveg no. 1. Allvíða er vegurinn óþarflega mjór.
Erlingur Alfreð Jónsson, 29.7.2013 kl. 17:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.