Mismunandi geta líkamans.

Íþróttir reyna á misjafna getu líkamans. Spretthlaup reyna á snerpu, vöðvastyrk, sem þó má ekki þyngja hlauparann um of. Hlaup frá 1500 metrum og upp úr reyna á þol og léttleika.

Enginn getur komist í fremstu röð hlaupara á svo mislöngum vegalengdum og því er erfitt að velja vegalengd, þar sem spretthlaupari getur keppt við millivegalengdarhlaupara á jafnréttisgrundvelli.

Íþróttir eins og tennis og boltaíþróttir reyna á blöndu af snerpu og úthaldi sem kalla mætti sprettþol, þ. e. getuna til að geta tekið marga snögga spretti í langan tíma, jafnvel klukkustundum saman eins og í tennis.

Einkum er hægt að dást að fremstu tennisleikurum heims í þessu tilliti.

Jón Pétursson var einstakur íþróttamaður á sinni tíð, að geta átt Íslandsmet í þrístökki án atrennu, vera fyrsti Íslendingurinn til að stökkva tvo metra í hástökki og jafnframt Íslandsmeistari í kúluvarpi.

Í hnefaleikum geta menn náð gríðarlegum höggþunga með sérstakri þjálfun sem eykur vöðvamassa, en á móti kemur að það þarf mikið úthald til að geta slegið hundruð þungra högga í bardögum, sem standa stundum í heila klukkustund.

Dæmi um slíka hnefaleikara, rotara, eru Mike Tyson, George Foreman og Sonny Liston. Á fyrri hluta ferils síns urðu allir frægir fyrir að afgreiða andstæðinga sína í fáum lotum, oft í fyrstu lotu, með rothöggi.

Tyson varð snemma ógnvekjandi með því að hvert einasta högg sem hann sló var rothögg, - þ. e. ef það hitti. Suma bardagana unnu hann, Foreman og Liston með augnaráðinu einu saman við upphaf bardaganna. Andstæðingarnir glúpnuðu.

Ali fann það út, þegar hann skoraði á Liston, að ef hann kæmist í gegnum fyrstu loturnar á móti Liston, myndi Liston hægja á sér eftir að hafa sóað miklum kröftum í vindhögg sem voru hvert um sig slegin eins og rothögg.

Þetta gekk eftir, Ali lék sér að honum og niðurlægði hann.

Ali átti undir enn meira högg að sækja gegn hinum unga Foreman, sem hafði valtað yfir sjálfan Joe Frazier og líka Ken Norton, sem Ali átti í ógurlegu basli með.

Aðstoðarmenn Alis bjuggust við því að Ali yrði fluttur stórslasaður á spítala eftir að Foreman væri búinn að slátra honum í "Rumble in the Jungle" í Zaire.

Ali hafði hins vegar stúderað bardaga Foremans og séð að einn þeirra hafði farið í fulla lengd á móti Jose Ribalta, sem var ekki í fremstu röð.

Ali lbyrjaði því bardagann á miklum hraða, lét Foreman sóa kröftum sínum og espaði hann með því að kalla til hans í hringnum: "Þú veldur mér miklum vonbrigðum. Þú slærð eins og stelpa!"

Því æstari og órólegri sem Foreman varð, því meiri kröftum sóaði hann og varð æ ráðvilltari.  

Þegar höggþyngd Foremans minnkaði lagðist Ali á kaðlana, hvíldi sig og leyfði Foreman að berja sig án þess að gefa honum færi á rothöggi, en gaf honum inn á milli eitraðar stungur, sem hjálpuðu til að draga máttinn, bæði líkamlegan og andlegan, enn frekar úr Foreman. 

Þessi aðferð fékk heitið "Rope-a-dope" eða Reypadóp.

Í áttundu lotu hafði Foreman eytt kröftum sínum og Ali rotaði hann í lok lotunnar þegar tvær sekúndur voru eftir og kraftar Foremans minnstir í lotunni. Hrein snilld, tímasett upp á sekúndu!

Rocky Marciano var rotari eins og Liston, Foreman og Tyson og sló og sló og sló og sló afar klunnalega öllum öðrum fremur. Aðeins "Smoking" Joe Frazier náði að sýna svipað, í örfá ár meðan hann var á toppnum og slá Ali niður í 15. lotu með höggi, sem margir kalla besta vinstri krók allra tíma.

En Rocky hafði einstaka hæfileika til að viðhalda kröftum sínum allan feril sinn í allt að 15 lotur ef með þurfti og var jafn hættulegur í hverri einustu lotu. Finnast varla önnur dæmi um þessa hæfni, þótt Foreman gæti á síðara keppnistímabil sínu, kominn á fimmtugsaldur, skipulagt bardaga sína betur en fyrr.

Þessi einstaka blanda af snerpu og yfirgengilegu úthaldi gerði Marciano kleift að snúa töpuðum heimsmeistaratitilbardaga sér í vil og steinrota Jersey Joe Walcott í 13. lotu í svakalegasta rothöggi allra tíma. ´

Ég get vel ímyndað mér að úthald af einni gerð geti hjálpað til við að efla úthald af annarri gerð hraðar en ella.

Eftir að við Þorvarður Björgúlfsson, ( "Varði harði" eða "Vardi hardi" eins og ég kalla hann) gengum í djúpum snjó með þung tæki frá Hornvík yfir á Hornbjargsvita um hávetur óaði mér við og kveið því að þurfa að ganga til baka og endurtaka þessa raun.

Ég var með gott sprettþol úr knattspyrnunni en ekki langþol.

Tveimur dögum síðar gengum við til baka og þá kom í ljós að með því að ganga einu sinni yfir fjallið hafði ég aukið langþolið furðu mikið og að áhyggjurnar höfðu verið óþarfar.  

 


mbl.is Bolt tók vel í áskorun Farah
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ráð var undir rifi hverju,
í reipa Ali góðu dópi,
góð hann átti vopn og verju,
en Varði bestur í þeim hópi.

Þorsteinn Briem, 29.7.2013 kl. 12:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband