29.7.2013 | 14:12
Meira en 60 ára gamall draumur.
Fyrir 60 árum var gefin út bók sem hét "Undur veraldar". Þar voru kaflar um mál af ýmsum toga og meðal annars fróðlegur kafli um fjallið Everest og önnur hæstu fjöll heims í Himalayja og Karakórum.
En athyglisverðasti og áhrifamest kaflinn fjallaði um beislun sjávarfallastrauma, sem spáð var að yrði helsta lausnin á orkuvandamáli mannkynsins en myndi einnig langt frammi í framtíðinni valda því að mannkynið og allt líf á jörðinn færist í framhaldinu.
Afleiðingar virkjana sjávarfallanna, sem stafa af áhrifum tunglsins, yrðu þær, að smám saman myndi hægjast á snúningi jarðarinnar.
Við það myndi miðflóttaaflið minnka, sem viðheldur fjarlægð tungls frá jörðu, en það ylli því síðan að tunglið færðist nær jörðinni með vaxandi hraða og skylli á henni í lokin.
Var lýsingin á þessum ragnarökum afar grípandi.
Svo langt er síðan ég las þessa bók að ég man ekki lengur á hvaða forsendum menn komust að þessari niðurstöðu, en draumurinn um virkjun sjávarfalla og sjávarstrauma hefur lifað góðu lífi, hvað þá draumar um að virkja afl sjávaröldunnar, sem Einar Benediktsson notar svo myndrænt í lýsingu á mannkyninu í hendingum sálms síns:
Til moldar oss vígði hið mikla vald, -
hvert mannslíf, sem jörðin elur.
Sem hafsjór þau rísa, fald við fald,
og falla, - en Guð þau telur...
Sjávaröldurnar eru besta samlíkingin sem skáldið finnur við hið fjölmenna mannkyn.
Víst er að aflið í sjávaröldunum kringum Ísland er á pappírnum margfalt meira en í öllum orkulindum okkar á landi.
Menn hafa horft til virkjana í mynni Breiðafjarðar og Gilsfjarðar en helsti gallinn við þær, jafnvel þótt þær yrðu að veruleika, er að aflið er aðeins tiltækt á meðan fellur út og fellur inn, en ekki á liggjandanum.
Til þess að sjávarfallavirkjanir við Ísland virkuðu almennilega þyrfti að virkja á fleiri svæðum en einu, svo að liggjandinn yrði á mismunandi tíma. Einnig er galli, að sjórinn rennur til skiptis út og inn, en það flækir úrlausnarefnið óneitanlega miðað við virkjun vatnsfalls á landi, sem rennur alltaf sömu leið.
Ég hef heyrt greint frá þeirri útfærslu að grafa 7,5 kílómetra löng jarðgöng milli botna Gilfjarðar og Bitrufjarðar, láta sjó renna þar í gegn og nýta sér það að tímamunurinn á sjávarföllunum er nokkrar klukkustundir á milli þessara tveggja fjarða.
Gallinn við þessa hugmynd virðist vera sá, að óhemju víð og dýr jarðgöng þyrfti til þess að sem mestur sjór gæti runnið þarna fram og til baka.
Miðað við það hve langan tíma hugmyndin um sjávarfallavirkjanir hefur mallað sýnist ekki blása byrlega fyrir þeirri hugmynd að þær leysi orkuvanda heimsins.
Og enn síður mikil líkindi á því að tunglið fari að taka upp á því að detta ofan í hausinn á okkur.
![]() |
Prófanir á sjávarhverfli gengu vel |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Margur er hér vondur vandi,
í virkjun sjávar sem á landi,
til Himalaya og Karakórum,
á kynorkunni sperrtir fórum.
Þorsteinn Briem, 29.7.2013 kl. 15:19
Nú skal ég segja smá:
1: SjávarSTRAUMAvirkjanir eru á teikniborðinu og jafnvel komnar á tilraunastig. Prinsippið er nærri eins einfalt og hjá vindmyllu, annað hvort skrúfur, eða þá spaðar innan í hólki. Þessu yrði sökkt í sæ, og væri á miklu dýpi í reglulegum straumi. s.s. ekki sjávarfalla heldur sjávarstraumavirkjun.
2: Mannanna fótspor við nokkuð skverlegar sjávarfallavirkjanir yrðu eins og krækiber í helvíti miðað við allt það orkubrúk sem sjórinn skellir á land um allt.
3: Það hefur hægst á snúningi jarðar í miljarði ára. Man ekki hvenær sólarhringurinn var 14 klst, - því miður of ungur ;)
Jón Logi (IP-tala skráð) 29.7.2013 kl. 18:03
Sjávarorka og möguleg virkjun sjávarfalla hér við land - Orkuþing
Vísindavefurinn - Hvammsfjarðarröstin og Reykjanesröstin
Sjávarfallavirkjanir - Orkubloggið
Þorsteinn Briem, 29.7.2013 kl. 18:42
Mikill straumur er við Garðskaga og Packard presidentsins þar trúlega í molum í flaki Goðafoss.
Flak breska olíuskipsins Shirvan finnst á 100 metra dýpi við Garðskaga - Myndband
Þorsteinn Briem, 29.7.2013 kl. 20:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.