29.7.2013 | 22:25
Einhliða og neikvæð frásögn lögreglunnar?
Í áratugi hefur það verið ein af venjunum hjá fjölmiðlunum að hringja í lögregluna á hinum ýmsu stöðum, þar sem margt er um manninn um helgar til að spyrja frétta.
Á Húsavík var haldin mörg þúsund manna árleg hátíð um helgina og lögreglan gaf að sjálfsögðu þau svör að fangelsi hefðu orðið yfirfull og fjöldi alvarlegra ofbeldismála komið upp.
Þegar fjölmiðlar segja frá þessu bregður svo við að forráðamenn hátíðarinnar kvarta yfir því að lögreglan hafi haft í frammi í einhliða og neikvæða frásögn af hátíðinni, - þvert á móti hafi hátíðin farið afar vel fram og verið hin ánægjulegasta fyrir alla.
Í þessu kemur fram gamalkunnug viðleitni til þöggunar á því, sem hefur löngum verið áberandi í hegðun Íslendinga á hátíðum og skemmtunum og getur varla talist annað en þjóðarskömm.
Og þessi hegðun verður ekkert betri fyrir það að fyrir þessu sé sjö áratuga hefð, aðeins hluti hátíðargesta hagi sér svona og fyrirbærið sé algengt, svo algengt að sannur fréttaflutningur af henni sé gagnrýndur og yfirfull fangelsi og mörg ofbeldismál ekki fréttnæm. .
Ofbeldisfull ölæðishegðun hefur lengi verið dásömuð í söngvum eins og setningarnar "...Það var karl sem að kunni að / kyssa, drekka og slást.." og "...þá fæ ég mér snabba ef karlarnir kvabba / og keyri sem hraðast í höfn..." bera með sér.
Dani einn, Finn að nafni, sem var starfsmaður hjá Sjónvarpinu fyrstu árin, undraðist þá mótsögn að neyslutölur áfengis á Íslandi væru lágar en samt væri ölæði og fyllerí algengt.
Hann orðaði þetta skemmtilega: "Íslendingar eru skrýtnir. Þeir drekka lítið, - en oft, og þá mikið!"
Endurskoða Mærudaga vegna óláta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Finnur var frábær. þetta urðu fleyg orð. Hef stundum vitnað til þeirra.
Eiður (IP-tala skráð) 29.7.2013 kl. 22:56
Það var óþjóðalýður úr höfuðborginni sem stóð fyrir þessum ólátum.Aðkomumenn.
Sigurgeir Jónsson, 29.7.2013 kl. 22:58
Nei nei, þetta voru bara heimamenn og flestir bara heima hjá sér. Ekki kenna aðkomumönnum um allt þar sem flestir þeirra komu ekki einu sinni´.
Eyjólfur Jónsson, 29.7.2013 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.