Umfjöllunar og umræðu er þörf. Annars lagast ekkert.

Þegar ákveðin söguskoðun er nánast löggilt kynslóðum saman er erfitt að hagga henni, jafnvel þótt nýjar upplýsingar og ný viðhorf komi fram. Þess vegna vil ég þakka þeim mörgu, sem hafa sent inn fróðlegar og athyglisverðar upplýsingar,  röksemdir og skoðanir við bloggpistilinn "Það er ekki lengra síðan".

Nú  er það efni, sem birtist í þessum athugasemdum orðið mun lengra en pistillinn sjálfur. Er það vel og ég hvet fólk til að kynna sér þær.

Ég tengi þennan pistil við frétt um það að Landssamband smábátaeigenda "þakkar velvild þjóðarinnar í garð strandveiða." 

IMG_9681

Sjálfur er ég ekki í þeim samtökum, þótt ég eigi smábátinn sem ber heitið "Örkin", en gæti vel hugsað mér að láta gamla draum rætast, að fara á eigin bátskel, í þessu tilfelli Örkinni, hafa barnabörnin mín með mér og veiða nokkra fiska.  

Það þurfti að berjast fyrir strandveiðunum á sínum tíma. Í kosningunum 2007 voru það eiinkum tvö framboð, Íslandshreyfingin - lifandi land og Frjálslyndi flokkurinn sem lögðu þunga áherslu á að þeim yrði komið á fó

Það var skyldleiki með þessari hugsun og því að rýmka almennt hlut almennings og kjör þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu.

Í strandveiðunum snerist það um að rétta hlut "litla mannsins" gegn ofurvaldi hinna útvöldu í kerfi, þar sem síðustu árin hefur myndast ástand leiguliða gagnvart eigendum kvótanna, sem um margt hafa svipaða stöðu og landeigendur og aðalsfólk fyrr á tíð.

Það er ekki tilviljun að orðið sægreifar varð til.

Nú er það svo eins og alltaf, að forðast verður alhæfingar. Fjölmörg sjávarútvegsfyrirtæki um allt land eru vel rekin og skila mun meiri arði til þjóðfélagskins en hinar mislukkuðu bæjarútgerðir á öldinni sem leið.

Hliðstæður er að finna frá öllum tímum. Kristur umgekkst ríkt fólk og tollheimtumenn, sem voru af sauðahúsi þeirra sem verst voru þokkaðir af alþýðu á þeim tíma, af því að innan um var ágætis fólk.  

En síðan má sjá dæmi úr íslenskri samtíð sem ganga fram af fólki.  

Svo var komið að kvótaverðið var orðið svo hátt, að þeir sem leigðu þá voru í svipaðri aðstöðu og bláfátækir leiguliðar fyrri tíma.  

"- lifandi land" er síðari hluti nafns Íslandshreyfingarinnar hugmyndin um strandveiðar snerist um það að hleypa lífi í strandbyggðir, sem höfðu verið drepnar í dróma, - gera þær að lifandi landi en ekki dauðu. 

Í því gátu falist margfeldisáhrif, til dæmis gagnvart öðrum atvinnugreinum eins og verslun, þjónustu, samgöngur og menningu, að ekki sé talað um ferðaþjónustuna, þar sem vaxandi hluti ferðafólks sækist eftir því að kynnast sérkennum lífshátta og þjóðfélags á hverjum stað, eins og í sjávarbyggðunum.

Þótt auðvitað megi ýmislegt bæta varðandi strandveiðarnar eins og allt annað, sem maðurinn tekur sér fyrir hendur, sést að þjóðin hefur haft skilning á því að opna þyrfti kvótakerfið eftiir því sem það væri unnt og skynsamlegt.

Þjóðin sýndi þessu velvild af því að hún skynjaði það sem réttlætismál almennings og alþýðu.  

 


mbl.is Þakka velvild gagnvart strandveiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Verð á aflakvótum hækkaði verulega á "góðærisárunum" hér á Íslandi fyrir nokkrum árum og bankarnir tóku veð í kvótunum.

Verð á óveiddum þorski
innan ársins var svipað og fékkst fyrir þorsk á fiskmörkuðunum hér og þá var eftir að bæta við útgerðarkostnaðinn til dæmis launum, olíu og veiðarfærum.

Þorsteinn Briem, 2.8.2013 kl. 21:01

2 identicon

Seini B.i..  í skíta ham

vitur varðar vegin

allt hanz logg er skíta spam

viitur varðar vegin

BMX (IP-tala skráð) 2.8.2013 kl. 23:22

3 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Já ég er einn af þeim sem las "Það er ekki lengra síðan" fátt kemur á óvart enda rætt málið við höfund.

Ég velti því fyrir mér hver á að hafa gagn af svona pistlum, ekki afi sem færði húsbónda sínum 300 kr. í peningum og sex hesta af harðæti eftir vertíðina en hafði sjálfur 2 kr. í árskaup. Ekki er amma og afi Ómars neinu bættari. 

Árið 2144 munu afkomendur okkar skrifa að árið 2013 hafi allflestir landsmenn staðið í stórskuld við verkalýðshreyfinguna, að verkalýðshreyfingin hafi átt megnið af smásöluversluninni í landinu, að verkalýðshreyfingin hafi verið stærsti atvinnurekandinn,  að verkalýðshreyfingin hafi staðið harðast gegn launahækkunum, að verkalýðshreyfingin hafi innheimt meira í sjóði sína af vinnandi fólki en ríkissjóður, að verkalýðshreyfingin hafi gengið um vinnustaði og heimtað af fólki reisupassa* og verið það eina erindi sem verkalýðshreyfingin átti við "félagsmenn sína" . Menn munu skrifa að ekki nokkur einasti fréttamaður, þingmaður, frambjóðandi, bloggari hafi minnst á þetta ekki einu sinni fylliraftar hafi vogað sér í verstu drykkjuköstum sínum að brækja að verkalýðshreyfingunni.

Bæði Ómar og ég verðum þá löngu dauðir.

*(vinnustaðaskýrteini ekki samk Píningsdómi heldur samkvæmt lögum nr. 42/2010)

Kristján Sigurður Kristjánsson, 2.8.2013 kl. 23:32

4 Smámynd: Sigurður Antonsson

Í kvöld bragðaði ég á glóðarsteiktum makríll í blíðviðri við Hvaleyravatn. Fiskur veiddur á stöng í Garðinum. Grillaður krabbi af Suðurnesjum var hafður með lambakjöti á teini. Makríllinn er herramannsmatur ef hann er boraður samdægurs. Ekkert leyfi var skráð en hver veit hvað reglur gilda fyrir morgundaginn.

Afi minn og niðjar hans gátu veitt fisk á smábátum á fengsælum miðum við Snæfellsjökull. Í dag þarf ótal leyfi og kvóta til að koma báti á flot. Strandveiði er takmörkuð veiði, þar sem aðeins þeir harðdrægustu geta náð í fiska fyrstu daga mánaðarins.

Gott er að þakka, en er það nóg smábátum að stunda einungis "strandveiði"? Hvaðan eiga sjálfsbrotnir útgerðamenn framtíðarinnar að koma. Ekki kaupa þeir kvóta af afrakstri strandveiða.

Íslandshreyfingin var með mörg góð málefni. Hefði eflaust getað dregið úr hrunsáhrifunum hefði hún náð yfir 5 prósent þröskuldinn. Við sem kusum hana 2007 vorum fíflaðir eins og græningjar. Tókum áhættu og kosningaseðlum okkar var hafnað af fjórflokknum og þeim sem smíðuðu kosningalöggjöfina með óþarfa takmörkunum. Eigum við að þakka fyrir það?

Sigurður Antonsson, 2.8.2013 kl. 23:52

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég hélt að þúfutittlingarnir hétu AMX.

Þorsteinn Briem, 2.8.2013 kl. 23:53

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég gríp til tilvitnunar Boga Ágústssonar. Fólk verður að þekkja söguna. Annars endurtekur hún sig.

Ómar Ragnarsson, 3.8.2013 kl. 02:01

7 Smámynd: Árni Gunnarsson

Strandveiðarnar urðu að raunalegu rugli. Allir sem eiga haffæra báta og hafa tekið "pungaprófið" geta sótt um og fengið strandveiðileyfi. Ég hef stundum orðað það svo að ekki sé nú mikið á sig lagt fyrir jafnræðishugsjónina þegar biskupinn, seðlabankastjórinn og borgarstjórinn geta nýtt sér þessa "krækiberjatínslu" til jafns við sjávarbændur og heimilisfeður í kvótalausum sjávarþorpum.

Hvað er eiginlega inni í hausnum á því fólki sem hefur tekist á hendur að drýgja þessari þjóð örlög?

Nú er landburður af vænum þorski á grunnslóð og færakarlarnir ná dagskammti sínum á fáum klukkustundum. Stjónvöld eru á sama tíma að reikna út hvort og hvernig eigi að halda uppi lágmarksþjónustu á sjúkrahúsum.

Strandveiðiskammturinn er að verða búinn.

"Okkur tókst með mikilli ráðsnilld að verja velferðarkerfi okkar"! sögðu vinstri afglaparnir þegar þeir skáskutu sér útum dyrnar á stjórnarráðinu að lokinni sinni glæstu stjórnarsetu.

Árni Gunnarsson, 4.8.2013 kl. 16:55

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Nú er vá fyrir dyrum ef veiðar á örlitlum og vandlega afmörkuðum hluta af fiskistofnum við landið kemur í veg fyrir hægt sé að halda uppi lágmarksþjónustu í sjúkrahúsum.

Sér annars einhver það fyrir sér að biskupinn, borgarstjórinn eða seðlabankastjórinn muni fara á sjó? Og munu þeir þá með því framferði sínu kollvarpa heilbrigðiskerfinu?

Ómar Ragnarsson, 4.8.2013 kl. 19:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband