3.8.2013 | 01:43
Methöfnun - og síðan metfrægð.
Skyldi fréttin um höfnun 2000 sinnum á umsóknum um atvinnu fela í sér met fyrir heimsmetabók Guinnes? Það er ekki gott að segja en sagan geymir ótal dæmi um það að góðum hlutum hafi verið hafnað svo tugum eða jafnvel hundruðum tilfellum skiptir.
Ég sá einhvers staðar á netinu að eitt af heimsmetunum í Guinnes bókinni sé bókin, sem útgefendur höfnuðu 122 sinnum en var síðan loks gefin út og seldist í 5 milljón eintökum.
Söngflokkurinn The Platters var búinn að starfa í þrjú ár með engum árangri og meðal annars fá þann dóm um lagið "Only you", að það væri algerlega vonlaust og ekki útgáfuhæft.
Síðan sló lagið sló skyndilega í gegn hjá þeim af því að þeir sungu það aftur inn á plötu.
Söngvarinn Frankie Laine lapti dauðann úr skel í 17 ár í upphafi ferils síns. 1949 var svo komið að hann svaf á bekk í Central Park í New York og átti aðeins nokkur sent.
En hann hafði alltaf verið að, komið sér í kunningsskap við allar stóru söngvarana, Bing Crosby, Frank Sinatra og kó, og datt inn í það að syngja lag, sem virtist alveg vonlaust og stórsöngvaranir höfðu ekki áhuga á, enda gerólíkt þeim dísætu lögum sem þá voru í tísku.
En einstæður, kraftmikill og tilfinningaþrunginn flutningur Frankie Laine á laginu "Jezebel" færði honum heimsfrægð á mettíma og í kjölfarið fylgdi áratugur, þar sem hann var einn um hituna varðandi túlkun af þessu tagi á topplögum, eða þar til Ray Charles ruddi soul-söngnum braut á toppinn með allri þeirri tilfinningu og túlkun sem fylgir þeim söng.
En á þessum áratug var Frankie Laine einn af allra vinsælustu söngvurum heims.
Þegar Fréttablaðið kvaddi til "sérfræðinga" á sviði dægurlagatónlistar í ársbyrjun 2003 til að tilnefna 30 bestu íslensku dægurlagasöngvarana voru kunnugleg nöfn á toppnum, Elly Vilhjálms, Haukur Morthens, Bubbi Morthens, Vilhjálmur Vilhjálmsson o. s. frv.
Ragnar Bjarnason komst hins vegar ekki á blað, svo ótrúlegt sem það virðist nú. Meira að segja ég og Jón Ólafsson frá Bíldudal komumst á listann !
Ég man að það fauk í mig og ég ætlaði að skrifa skammarbréf, en þetta gerðist einmitt þegar ég vann dag og nótt að myndinni "Á meðan land byggist" og ég hafði aldrei tíma til þess.
Ég ætlaði í skammargreininni að spyrja sérfræðingana hvort þjóðin hefði verið úti að aka á árunum 1957 fram undir 1970 þegar Haukur Morthens og Ragnar kepptu um vinsældatoppinn og Ragnari veitti oftast betur.
Líka að spyrja um hvort einhver annar gæti sungið betur jafn ólík lög og "Vertu ekki að horfa..", "Vorkvöld í Reykjavík", "Kokkur á kútter frá sandi" og lögin úr Járnhausnum.
Kornungur Austfirðíngur, Vilhjálmur Einarsson að nafni, bað íþróttaþjálfara nokkurn að leggja mat á hvort hann ætti einhverja möguleika á að ná árangri í frjálsum íþróttum.
Þjálfaranum leist ekki vel á þennan útskeifa og þyngslalega ungling en sagði, að hugsanlega gæti hann orðið liðtækkur kúluvarpari !
Nokkrum árum setti Vilhjálmur Ólympíumet í þrístökki á leikunum í Melbourne og hreppti að lokum silfrið. Íslandsmet hans hefur staðið í 53 á, enginn Íslendur komist nálægt því og Vilhjálmur líklega mesti íþróttamaður, sem Ísland hefur alið..
Svona mætti lengi telja dæmi þess að í kjölfar höfnunar hafi fylgt velgengni, frægð og frami.
Og það getur verið huggun fyrir alla taparana sem eygja smá von um að komast að einhvern tíma.
Baldvin hafnað 2.000 sinnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
You win a few, you loose a few. Málið er að gefast aldrei upp.
Halldór Egill Guðnason, 3.8.2013 kl. 03:17
Bítlunum var hafnað æ ofan í æ, allt þar til að Brian Epstein, síðar, og í beinu framhaldi, umboðsmaður þeirra, fékk ábendingu um þá....og restina veit alheimur.
Már Elíson, 3.8.2013 kl. 05:01
Tja, hvernig stendur á þessu.
Sjálfur er ég búinn að vinna hjá...ööööö....eitthvað 3 aðilum bara í sumar, og þeir hefðu getað verið fleiri, svo og að ég er bara að sækja um á afmörkuðu sviði.
Ef maður tekur nær hverju sem er, og er til í að færa sig úr stað, er alveg fullt í boði.
Sumt er reyndar e.t.v. erfiðara líf en bótalífið....
Jón Logi (IP-tala skráð) 3.8.2013 kl. 10:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.