3.8.2013 | 10:54
Fjölbreytnin er fyrir öllu.
Fjölgun erlendra ferðamanna á landinu hefur leitt í ljós hið augljósa: Ferðamennirnir eru eins margvíslegir og með eins margvíslegar óskir og þeir eru margir.
Sem aftur þýðir það að ferðaþjónustufólk verður að kynna sér þessar óskir og þarfir og finna "markhópa" sem vilja borga fyrir að fá þær uppfylltar.
Síðan er annað atriði: Ef ferðamönnunum líkar vel við það sem þeir upplifa í Íslandsferðinni eru þeir líklegir til að koma aftur seinna og þá getur tvennt gerst:
1. Þeir sækjast eftir endurupplifun fyrri ferðar, oft í fylgd með maka eða samferðafólki, sem þeir vilja deila upplifuninni með.
2. Kjör þeirra hafa breyst og þeir eru komnir í nýjan "markhóp", sem vill veita sér meiri þægindi en þeir höfðu áður efni á.
Oft blandast þetta saman hjá ferðamönnunum.
Ferðaþjónustan verður að laga sig að þessu og sífellt að kynna sér hvað sóst er eftir.
Dæmi um hóp númer 1:
Meðal bíla sem bílaleigan Geysir leigir út eru Lada Sport jeppar. Það er ekki aðeins vegna þess að þetta sé ódýrasti jeppinn og sá óbreyttasti í 36 ár sem völ er á, heldur lika vegna þess að sumir þessara ferðamanna komu hingað ungir og lítt efnum búnir fyrir um 30 árum og ferðuðust þá á Lada Sport.
Vilja upplifa svipað að nýju. Læt fylgja með mynd af gamalli Lödu, sem reyndist mér vel sem farartæki og gististaður fyrir tveimur árum.
Dæmi um hóp númer 2:
Hef áður nefnt þetta dæmi, Ulrich Munzer prófessor sem kemur árlega til landsins með hóp nemenda sinna og hefur efni á að velja sér gististað eftir því sem kröfur hans til þæginda segja til um. Þegar Ulrich kom fyrst til landsins 1976 var hann skilgreindur í hópi "bakpokalýðs" sem þótti óæskilegur, af því að það fólk ferðaðist á puttanum, tjaldaði og skildi lítið eftir af peningum.
Dæmið um Ulrich sýnir, að fjölbreytnin er fyrir öllu í framboði á aðstöðu og upplifun fyrir ferðafólk.
Það getur skilað sér síðar í mörgum tilfellum.
Í Noregsferðum mínum hef ég ferðast á mismunandi hátt og við misjafnar aðstæður. Í 14 daga ferðalagi mínu 1998 gistum við hjónin í 12 nætur á venjulegum hótelum. Í minningunni renna þau öll saman við tugi hótela um allan heim með svipuðum aðbúnaði sem við öll þekkjum.
En í tvær nætur gistum við á gerólíkum stöðum, annars vegar í hálendisskála á Harðangursheiði og hins vegar í afar gamaldags sveitahóteli í Suður-Kjós í Finnmörk, þar sem áttræð kona var hótelhaldari.
Þessi tveir gististaðir lifa í minningunni en enginn hinna.
Fjallakofinn og frumstæða og gamla sveitahótelið veittu öðruvísi og minnisstæðari upplifun og voru norskari en hótelin, sem voru öll eins. Þeir voru ómissandi hluti af upplifun á því stórkostlega landi sem Noregur er.
Í kvikmyndagerð minni innanlands sækist ég ekki eftir hótelum þegar ég er einn á ferð, heldur gisti í litlu gömlu bílunum mínum, oft á tjaldstæðum. Margfalt ódýrara að sjálfsögðu en hóteldvalir, og vegna bakveiki og bakflæðis sef ég best í þeirri stellingu, sem afturhallanleg framsæti veita.
Ég hef ekki komið í lúxushótelið Grímsborgir en þekki Ólaf Laufdal og einnig Friðrik Pálsson, sem rekur hótel Rangá. Samkvæmt tengdri frétt er Ólafur natinn við gestina og bæði hann og Friðrik leggja sig í líma við að vera sjáanlegir á hótelum sínum og sýna gestunum, hve annt þeim sé um að þeim líði sem best og fái sem besta þjónustu.
Þetta eru dugnaðarforkar og natni þeirra skilar sér áreiðanlega til afspurnar, sem er besta auglýsingin.
Síðari hluti orðsins ferðaþjónusta lýsir best höfuðatriði hennar hvað varðar þá, sem við hana starfa, en það er þjónustulundin, sem við Íslendingar þurfum að rækta betur og gleymum stundum í ásókn okkar eftir skjótfengnum gróða.
Ef þjónustulundin er fyrir hendi kveikir hún nauðsynlega fjölbreytni af sjálfu sér, sem skilar sér síðar í ágóða. Fjölbreytning getur spannað svið allt frá bakpoka til lúxushótels. Lúxushótel er jafn sjálfsagður hlutur og lúxusmatur, til dæmis sá sem er á borðum hjá okkur á stórhátíðisdögum, eitthvað til að gera sér dagamun.
Og afrakstur fjölbreytninngar skilar sér einnig í uppfyllingu þess skilyrðis viðskipta að báðir aðilar hagnist á þeim.
Lúxushótel Óla Laufdal slær í gegn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Með bakveiki og bakflæði,
í bílnum Ómar sefur,
hann er oft með heymæði,
hann þó af sér gefur.
Þorsteinn Briem, 3.8.2013 kl. 11:39
Þessi getur sýnt ferðamönnum risasveppi - Mörg er matarholan
Þorsteinn Briem, 3.8.2013 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.