4.8.2013 | 14:45
Er hægt að hella eldsneyti úr bíl? Já.
Það hefur komið fyrir furðu marga að setja óvart bensín á dísilbíla eða disiloliu á bensínbíla.
Þótt það sé misjafnt eftir framleiðendum hvort þeir telji þetta óhætt í smáum stíl, er það þó viðurkennt að það sé í lagi, þótt allt að 5% magns í geymi dísilbíls sé bensín. Í sumum tilfellum leyfir framleiðandi þetta.
Setjum sem svo að fylla eigi dísilbílinn og óvart sett bensín á hann, en að það uppgötvist áður en ca fimm lítrar eru komnir, á að vera hægt að bæta fyrir þetta með því að fylla geyminn af dísiloliu.
Menn setja stundum nokkra lítra af steinoliu eða bensíni á jöklajeppa ef aka á þeim í miklu frosti því að við það verður olían þynnri, en hún er ólík bensíni eða steinoliu að því leyti, að hún verður leiðinlega þykk í miklu frosti.
Mér er hins vegar ekki kunnugt um að nokkur bílaframleiðandi leyfi að segja dísilolíu í bensín.
Eitt af því, sem ég hef alltaf meðferðis í ferðum mínum er hæfilega mjó gegnsæ plastslanga og hefur hún komiið sér vel í tugum skipta ef þurft hefur að viðhafa tilfæringar á eldsneyti.
Ég lenti einu sinni í því að setja óvart 15 lítra af dísilolíu á litinn gamlan Súkkujeppa 12 kílómetra frá Egilsstöðum. Var orðinn bensínlaus en hafði með mér brúsa sem því miður var ekki með bensíni heldur dísiloliu.
Ég glápti á ónothæfan jeppann og sá verkefni helgarinnar fokin út um gluggann.
Það var helgi og hvergi hægt að fá verkstæðisþjónustu. En nú kom sér vel hafa slöngu meðferðis.
Ég lagði hana fyrst niður um opið eins langt ofan í bensíngeyminn og unnt var og saug það upp úr honum yfir í tóma brúsann. En það var bara lítill hluti af olíunni.
Þegar ég stóð þarna og horfði til skiptis á Súkkuna og brúsann, laust allt í einu hugmynd niður í hausinn á mér.
Ó, hvað þetta var einfalt. Spurningin var þessi: Ef þú ert með ílát og vilt hella úr því, hvað gerir þú þá?
Jú, þú hallar ílátinu og hellir úr því.
Súkkan var bara ílát rétt eins og brúsinn. Ef þú er með ílát í formi bíls og vilt hella úr því, hvað gerir þú þá? Jú, þú hallar honum bara og hellir úr honum !
Ég hringdi í vin minn á Egilsstöðum sem kom á jeppa til hjálpar.
Við ýttum Súkkunni upp að hallandi bakka, lögðum taug í gegnum báðar framdyrnar og yfir þakið, bundum hana í dráttarkrók bíls vinar míns og hann tók síðan með henni í Súkkuna þangað til hún vó salt í jafnvægi.
Þá tók ég að mér að halda við hana þannig að hún ylti á hvoruga hliðina meðan aðstoðarmaður minn losaðii spottann, færi bil sinn hinum megin við Súkkuna og tyllti spottanum þeim megin í hana svo að haldið væri við hana á þann hátt.
Síðan lét vinur minn bíl sinn síga ofurhægt áfram þanngað til Súkkan lagðist utan í mjúkan grashallann án þess að skemmast neitt en olían rann á meðgan rólega eftir slöngunni ofan í brúsann.
Síðan veltum við Súkkunni aftur við, drógum hana á bensínstöð og fylltum hana. Í ljós kom að aðeins nokkur hundruð grömm af olíu höfðu orðið eftir í geyminum !
Niðurstaða: Ef þú fyllir bíl þinn af röngu eldneyti, hvað gerir þú þá? Svar: Hallar honum og hellir því úr honum.
Eftir á var ég mest hissa á því að það skyldi taka mig heilan klukkutíma að finna út jafn augljósan og einfaldan hlut og eyða þeim tíma öllum í tóma vitleysu og rugl.
Kærður vegna bensíns á díselbíl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Engin skrúfa er þar laus,
aldrei deyr hann ráðalaus,
Ómar alveg óvitlaus,
oft er þó með mikið maus.
Þorsteinn Briem, 4.8.2013 kl. 15:05
Ef maður blandar óvart einhverju af bensíni á díselvél, þá gerir það lítið til svo fremi að vélin fari gang. Vélin brennir þá eldsneytinu en er kraftminni.
En að blanda díselolíu eða steinoliu saman við bensín getur verið verra. Díselolía þolir ekki jafnmikla samþjöppun (þrýsting) eins og bensínið. Það getur því "sprungið" í strokknum áður en neistinn kemur sem að öllu eðlilegu kveikir í bensíngufunni. Vélin getur farið í gang og gengið þannig en það heyrast háværir smellir líkt slegið með hömrum, og því háværari sem meira er stígið á gjöfina. Í versta falli gæti þetta skemmt vélina, eða að vélin færi alls ekki í gang.
Tryggvi Helgason, 4.8.2013 kl. 18:00
Lenti í því á leið til Siglufjarðar að setja óvart bensín á díselbíl. Var kvart tankur og ég fyllti hann í Borgarnesi, þegar ég var rétt ókominn til Sauðakrók, sló bíllinn skyndilega af og gekk bara hægagang, Ég komst á Krókinn en þar þurfti ég að skipta um eldsneytissíu. Varð ekkert var við það fyrr en hún fór. Díselsían þoldi ekki bensínið og leystist upp og varð þétt.
Hafni (IP-tala skráð) 4.8.2013 kl. 20:07
Það dettur engum svona í hug nema Ómari! Frábært
Jakob S. Jónsson (IP-tala skráð) 4.8.2013 kl. 21:11
Tryggvi Helgason. Þetta er í raun þveröfugt hjá þér. Það er erfiðara að þjappa saman dieselolíu svo úr verði hiti og bruni heldur en bensíni.
Hafþór Atli Hallmundsson (IP-tala skráð) 4.8.2013 kl. 23:17
Haha já man þegar ég var 16 og nýbyrjaður að vinna sjoppu að bóndi í sveitinni tók ranga dælu og dældi 5 lítrum af bensín á Landróverinn áður en ég náði að slökkva á dælunni. Hann hló bara og sagði að þetta myndi hreinsa betur út. Þegar hann svo lagði af stað fá dælunni þá hóstaði Landróverinn þvílíkt og skaut miklum skotum aftur úr sér en ekki var að sjá að þetta hefði að öðru leiti nein skaðleg áhrif..
Jón Óskarsson, 5.8.2013 kl. 00:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.