6.8.2013 | 13:39
Gef oss 2003-2007 aftur!
Það er varla hægt að lesa neitt annað út úr því sem nú er að gerast á Fróni en að krafan sé sú að þjóðinni gefist aftur uppsveiflan frá árunum 2003 til 2007 og jafnvel helst sem allra líkasta því.
Það felst í svipuðum kosningaloforðum nú og 2003 um að fundnir verði peningar og þensla sem geti gefið öllum færi á að auka neyslu sína. 2003 var lofað stærri lánum og meiri skuldum til að fjármagna neyslu og nú er lofað afslætti af skuldum svo að hægt sé að nota hann til hins sama, aukinnar neyslu.
Á fyrsta vinnudegi nýrrar ríkisstjórnar hljómaði hæst krafan um nýtt álver auk þess sem stefnan um stóriðju á Bakka var ítrekuð.
Allar samanburðartölur um hag þjóðarinnar miðast við 2007 og með því er sjálfkrafa hafin á loft krafan um að það ár komi aftur og forstjórar fyrirtækja ríða á vaðið, rétt eins og forðum.
Þótt nú megi heyra að einhverjir séu farnir að efast eins og Yngvi Hrafn Jónsson, sem undrast sumarleyfi og fjarveru ráðamanna í stað þess að þeir haldi vikulega opinbera fundi eins og Jóhanna og Steingrímur gerðu þó í úpphafi sinnar stjórnartíðar,- og þrátt fyrir að fylgi loforðaflokksins fari síminnkandi skiptir það ekki máli. Meirihluti þjóðarinnar, að vísu afar naumur, rúm 50% í kosningunum og nú kominn niður í 44%, vildi núverandi stjórn og þar með þá stjórnarhætti, góða eða slæma, sem hér verða næstu fjögur árin.
Siglum hraðbyri inn í 2007-ástand | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Og var ekki þarna um árið, að einhver "spekingurinn" - (háskóla spekingur, mynnir mig) - sem sagði að þeir hefðu "fundið" í bönkunum, - (og takið nú eftir), ... dautt fjármagn, sem ENGINN ÁTTI.
Greinilega, þá hefur það verið létt verk að stela 100 ára uppsöfnuðu sparifé þjóðarinnar, ... fyrst að Enginn Átti það, .. þetta steindauða fjármagn.
Og menn spyrja sig, á nú að fara að endurtaka leikinn ? Það virðist hafa safnast upp í milljarðavís, steindautt nýtt fjármagn sem enginn á !
Tryggvi Helgason, 6.8.2013 kl. 14:07
Þó að fylgi stjórnarflokkanna hafi minnkað eftir kosningar, og sé nú vel undir meirihlutafylgi, þá held ég því miður að skýringin sé ekki að fólk sé farið að hugsa um þær skelfilegu afleiðingar sem myndu fylgja því ef loforðin verða efnd.
Mér sýnist nokkuð ljóst að skýringin sé frekar að menn hafa misst trú á að svo verði. Meirihluti kjósenda virðist aðeins upptekinn af að bæta eigin hag strax en kærir sig kollótta um framtíðina og þar með hag afkomenda sinna.
Helmingur þjóðarinnar virðist tilbúinn í allsherjar fyllerí með SDG sem veislustjóra. Börnin og barnabörnin borga ef þau geta. Den tid, den sorg. Krafan er 2007 aftur og það strax. Vegna mikilla skulda ríkisins verða afleiðingarnar miklu alvarlegri en 2007.
Ásmundur (IP-tala skráð) 6.8.2013 kl. 14:09
Góður pistill og þarfur.
Ég sagði það þá og ég segi það enn. Ef kvótakerfið og EINOKUN í sjávarútvegi verður ekki afnumin náum við engum bata og húrrum áfram niður brekkuna.
Með EINOKUN á arðinum í sjávarútvegi í höndum jafn fárra og raun ber vitni ná peningarnir aldrei út fyrir fjármálageirann og fólkið þarf að horfa uppá dansinn í kringum gullkálfinn úr fjarlægð.
Það sem hryllir mig er hve fáir þora að tala um þetta því þetta er sannleikurinn eins skýr og hann getur birst okkur.
Ólafur Örn Jónsson, 6.8.2013 kl. 15:06
Mér finnst nú ríkja hér algjört stjórnleysi,stjórnsýslan í fríi,ríkisstjórninn í fríi einhverstaðar í útlöndum veifandi til fólks,það er gott að vera í einhverjum kóngaleik meðan er að verða eldur úr glæðunum eftir hrunið.
Mér líkar ekki þessi vinnubrögðog eru reyndar enginn vinnubrögð því það virðist vera sem öll stjórnsýslan sé lömuð.
Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 6.8.2013 kl. 16:12
Tímabilið 2003 til 2007 kemur ekki aftur þökk sé erlendum lánadrottnum.
Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 6.8.2013 kl. 18:43
Munum bara að hafa þögn um fiskveiðarnar.
Árni Gunnarsson, 7.8.2013 kl. 12:14
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.