Svo einfalt, og svo afdrifaríkt.

Gagnlegur getur verið sá eiginleiki okkar Íslendinga að leita eigin leiða við að fást við ýmis viðfangsefni.

En hann getur verið skaðlegur þegar ætlunin er að finna upp hjólið í stað þess að nýta sér reynslu annarra þjóða, þúsund sinnum fjölmennari en við og með miklu lengri reynslu og stórfelldar rannsóknir.

Eitt versta dæmið um þetta var það á sínum tíma þegar hér á landi var höfð uppi öflug andstaða við það að lögleiða notkun bílbelta.

Því miður tafði þessi andstaða fyrir því að beltin og notkun þeirra væru lögboðin og það kostaði bæði mannslíf og örkuml, sem komast hefði mátt hjá.

Því var haldið fram að beltin yllu slysum, því að það besta sem gæti hent ökumenn og farþega væri að kasta sér út úr bílnum eða kastast út úr honum ef eitthvað bæri útaf.

Í fyrstu lögunum um bílbeltin var meira að segja heimild til að vera ekki í bílbelti þar sem ökumenn og farþegar teldu sig betur setta með því að vera bundin, til dæmis í miklum bratta.

Þetta kostaði mannslíf þegar bíll fór út af vegi úti á landi og valt, en stöðvaðist án þess að yfirbyggingin legðist saman.

Heyra mátti ótrúleg rök þess efnis að "séríslenskar aðstæður" gerðu það að verkum, að beltin ættu ekki við hér á landi. Rétt eins og hvergi væri til brattlendi eða votlendi og vötn nema hér.

Ég tók eitt sinn viðtal við mann, sem komst lífs af þegar bíll hans steyptist ofan í um tíu metra djúpt þrörngt gljúfur og margvalt í leiðinni.

Hann fullyrti að það hefði bjargað lífi sínu að vera ekki bundinn í belti! Fyrir bragðið hefði hann getað hent sér sjálfur fram og til baka í bílnum í veltunum á leiðinni niður til að koma í veg fyrir að lemstrast til dauðs.

Trú mannsins á mátt sinn og megin beltalausan var svo mikil, að hann taldi sig sjálfan hafa kastað sér til þegar bíllinn valt ofan í gljúfrið !

Ég minnist þess enn hvílík bylgja andmæla reis eftir að ég birti á heilli bílasíðu Vísis tíu rök fyrir því að nota ekki belti og mætti þeim með gagnrökum, sem byggð voru á rannsóknum og reynslu hjá meira en þúsund sinnum fjölmennari þjóðum en við erum.

Enn hærra reis andmælabylgjan þegar ég fór með litla Fiat 126 örbílinn minn inn í fréttastúdíó í Sjónvarpinu og sýndi fram á, að það væri alrangt að það tæki svo langan tíma og væri svo erfitt að spenna á sig beltin, að það væri frágangssök.

Með tímamælingu kom í ljós að þetta tafði bílstjórann um 2-3 sekúndur.

Ég var sakaður um að misnota aðstöðu mína sem fréttamaður með því að taka afstöðu í umdeildu máli.

En Emil Björnsson fréttastjóri, sem alltaf var afar annt um óhlutdrægni og traust fréttastofunnar, svo að mönnum þótti jafnvel nóg um, - varði þennan fréttaflutning.

Síðustu ár hafa ýmsir haft á orði, að nú þurfi ekki frekari öryggisráðstafanir en loftpúðana, sem eru í öllum bílum.

En þetta er alrangt því að framleiðendur púðanna og bílanna segja að notkun bílbeltanna sé forsenda fyrir því að púðarnir virki rétt, - án beltanna gætu þeir beinlínis skaðað þá sem í bílnum eru.

Hönnun púðanna og staðsetning miðast við þá forsendu að fólk sé fast í sætum bílanna.

Ein rökin gegn notkun beltanna er að á stuttum leiðum takið því ekki að nota þau og að hraðinn sé það lítill að það muni ekkert um þau.

Tölurnar sýna annað. Flest slysin verða á stuttum leiðum og fólk getur hlotið slæm meiðsl á litlum hraða ekki síður en miklum. Það er heldur ekki nóg að vera á litlum hraða og lenda í árekstri við miklu hraðskreiðari bíl.  

Bílbelti bjargaði mínu lífi í bílveltu ofan í á á innan við eins kílómetra hraða 1992.

Tölurnar hér á landi og alls staðar í heiminum tala sínu máli. Óbundnir eru í margfalt meiri hættu í bílnum en bundnir og hér á landi deyja 4-5 árlega vegna þess að þeir eru ekki bundnir og kastast til innan í bílnunum eða kastast út úr þeim og verða undir þeim.

Ég lenti einu sinni í rökræðu við þjóðþekktan mann, sem kvaðst þeirrar skoðunar að aðeins ætti að skylda fólk til að vera í bílbeltum í aftursætum bíla, af því að aftursætisfólkið gæti kastast á þá sem eru frammi í og slasað þá.

Hins vegar ættu þeir, sem eru í framsætum að fá að ráða því sjálfir hvort þeir væru bundnir og tækju afleiðingunum af því.

Ég benti honum á að líkamstjón eða dauði fólks í framsætum kostaði gríðarlega fjármuni fyrir þjóðfélagið, þ. e. aðra en framsætisfólkið.

Hann dró þá í land og sættist á það að ef menn skrifuðu undir bindandi yfirlýsingu um það að þeir sjálfir borguðu allan kostnað af slysum vegna beltaleysis, mættu þeir vera óbundnir.

Mér varð ekki að fullu ljóst gildi belta fyrr en ég fór að keppa í bílaíþróttum. Þegar ég kom úr nokkurra daga ralli fann ég til mikils öryggisleysis þegar ég var ekki lengur í fjögurra punkta belti heldur í aðeins þriggja punkta belti þegar komið var í venjulegan bíl.     


mbl.is Voru líklega ekki í bílbeltum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Andstaðan við ESB er af sama toga. Raunveruleg rök gegn aðild eru nánast engin meðan rök fyrir aðild eru margvísleg þar sem þyngst vega meiri stöðugleiki með aukinni samkeppnishæfni og miklu lægri vextir með tilkomu evru.

Forsætisráðherra segir að þótt evran henti vel öðrum Evrópuþjóðum þá eigi það ekki við um okkur enda sérstaða okkar mikil. Vissulega er sérstaða okkar mikil en hún er þvert á móti þess eðlis að við erum í meiri þörf fyrir aðild en aðrar þjóðir vegna ónýts gjaldmiðils og gjaldeyrishafta.

Það liggur fyrir að við missum hvorki fiskimið né aðrar náttúruauðlindir með ESB-aðild. Hvert ár með krónu í höftum verður okkur mjög dýrkeypt. Spurning hvort við munum þola það.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.8.2013 kl. 21:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband