"Kubaneren!..."

Þegar mjög hlutdrægir norskir íþróttafréttamenn lýstu mikilvægum leik Íslendinga og Norðmanna í landsleik, sem var liður í stórmóti og réði úrslitum um gengi þess liðs, sem ynni, héldu þeir norsku mjög með sínum mönnum.

Svo rammt kvað að þessu að í hvert skipti sem Robert Duranona skoraði og jók með því forskot Íslendinga kölluðu þeir norsku alltaf upp: "Kubaneren!", þ. e. "Kúbverjinn!".

Í hvert skipti sem Duranona gerði eitthvað, fékk boltann, spilaði honum, ógnaði, skaut eða skoraði, nefndu þeir hann aldrei hans rétta nafni heldur alltaf "Kubaneren". "Kúbverjinn skorar! Kúbverjinn á skot!" "Kúbverjinn fiskar víti!"  

Ef nokkur leikmaður hefur í nokkrum leik fengið meiri kynningu á föðurlandi sínu var það Duranona í þessum leik. Hann var fæddur og uppalinn á Kúbu en átti samt heima á Íslandi, var íslenskur ríkisborgari, og spilaði í íslenska landsliðinu.

Þegar fimm mínútur voru eftir af fyrrnendnum leik og ljóst að Íslendingar myndu sigra, sneru norsku íþróttafréttamennirnir skyndilega við blaðinu, hættu að kalla Duranona Kúbverjann en fóru að gera mikið úr því með miklu stolti að "litli bróðir úti í Atlantshafinu" myndi komast áfram og halda uppi heiðri Norðurlandaþjóðanna í úrslitum hins mikla móts !

Við þekkjum það að íslenskir íþróttamenn fá mikla auglýsingu á landi sínu, jafnvel þótt þeir spili með erlendum liðum. Þeir fá jafnvel viðurnefni eins The Iceman".

Á sínum tíma létum við Íslendingar það okkur vel líka að Duranona notaði tækifæri, sem honum gafst, þá orðinn fullorðinn maður, og kominn í landslið Kúbu, að skipta um ríkisfang til að fá að spila með íslenska landsliðinu. 

Hann vissi að það voru miklu meiri líkur á að íslenska liðið næði langt á stórmótum en það kúbverska og í ljós kom að það mat hans var rétt.

Margt er líkt með skyldum og það kemur upp í hugann, þegar hegðun norsku iþróttafréttamannanna og hentistefna er rifjuð upp.

Það sem okkur líkaði svo vel þegar Duranona átti í hlut, er nú fordæmt af stjórn KSÍ og mörgum Íslendingum og reynt að koma af stað hálfgerðum ofsóknum allrar þjóðarinnar á hendur Aroni Jóhannssyni til að þvinga hann til að skipta um skoðun.  

Er Aron þó fæddur og uppalinn til þriggja ára aldurs í Bandaríkjunum, en það er meira en Duranona gat sagt um Ísland.

Okkur fannst það siðlegt og gott við Íslendingar nytum þess að kúbverska samfélagið hafði kostað fé til að ala Duranona upp og gera hann að frábærum íþróttamanni en erum nú mörg hver full hneykslunar á vali Arons Jóhannssonarí hliðstæðu máli.

Auðvitað langar okkur öll til þess að Aron spili með íslenska landsliðinu. En við höfðum ekki mikla samúð með Kúbumönnum og þeirra væntingum þegar við kræktum í Duranona.

Aron Jóhannsson á eftir að varpa ljóma á Ísland þótt hann spili með erlendum liðum, rétt eins og Duranona gerði bæði fyrir Kúbu og Ísland, þótt hann spilaði með íslenska landsliðinu.

Ótal dæmi eru um að afburða fólk hafi kosið að koma fram fyrir hönd annars lands en föðurlands síns.

Við vorum nú til dæmis ekki svo lítið ánægð með það að Vladimir Askenasy skyldi gerast íslenskúr ríkisborgari.

Við verðum að vera okkur sjálfum samkvæm þegar við dæmum hliðstæða hegðun og ákvarðanir íþróttamanna og afreksfólks víða um heim og virða ákvörðunarrétt þess.

 

P. S. Í athugasemd er minnst á Alexander Petterson. Merkilegt að mér skyldi sjást yfir þessa íslensku þjóðhetju og íþróttamann ársins á Íslandi !  Sennilega er hann besta dæmið, sem hægt er að nefna varðandi þetta mál.

 

 


mbl.is Aron valdi Bandaríkin út af HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

 
3.10.2012:
 
"Alþjóða knattspyrnusambandið FIFA gaf í morgun út nýjan heimslista fyrir októbermánuð en á listanum er [karla]landsliðum heimsins raðað eftir árangri og getu.
 
Athygli vekur að íslenska landsliðið hoppar upp um 21 sæti á nýja listanum og skipar nú 97. sæti listans."
 
93. Tógó
94. Kongó
95. Óman
96. Malaví
97. Ísland
98. Líbería
99. Mósambík
100. Súdan
101. Katar
 

Þorsteinn Briem, 10.8.2013 kl. 10:58

2 identicon

Mörg orð um lítið mál.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 10.8.2013 kl. 11:18

3 Smámynd: Guðmundur Pétursson

Er þetta bara ekki hinn háværi minnihluti sem er að gagnrýna þetta val Arons? Ég held það og held jafnframt að flestir skilji þessa ákvörðun piltsins.

Guðmundur Pétursson, 10.8.2013 kl. 11:44

4 identicon

Einn risamunur á þessum 2 málum... Duranona var flóttamaður... Það er hinn alíslensksi Aron ekki...

Rómeó (IP-tala skráð) 10.8.2013 kl. 12:02

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Sammála, Ómar.

Rómeó, hann var ekki flóttamaður í hefðbundnum skilningi. Hann sá bara tækifæri á að auðgast á hæfileikum sínum, sem hann gat ekki í heimalandinu, kommúnistaríkinu.

Hins vegar held ég að hann hafi aldrei ætlað sér að vera Íslendingur til langframa, heldur einungis notað okkur sem stökkpall yfir til Þýskalands, þar sem hann býr enn... að ég held. Það má því eiginlega segja að hann hafi "keypt" sér íslenskan ríkisborgararétt.

 Mér finnst það dálítið umhugsunarvert.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.8.2013 kl. 13:41

6 Smámynd: Guðmundur Pétursson

Já, Dúndra núna var aldrei flóttamaður. Hann var bara að gæta eigin hagsmuna sem við gerum öll að ákveðnu marki, reyndar mismiklu :)

Guðmundur Pétursson, 10.8.2013 kl. 14:34

7 identicon

Sammála þér Ómar. Skil ekki þessi læti frá knattspyrnu sambandinu þó að maður með amerískt ríkisfang skuli vilja spila í Ameríku frekar en á Íslandi.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 10.8.2013 kl. 18:03

8 Smámynd: Viðar Friðgeirsson

 KSÍ alveg úti að skíta í þessu máli. Hvað vilja menn segja um Lexa, Alexander Petterson ? "Hvaðan kom hann, hvert er hann að fara"? hrópaði íslenskur íþróttafréttamaður í lýsingu á frægum landsleik handboltalandsliðsins. Hefur einhver eitthvað verið að velta sér upp úr því, þ.e. hvaðan hann kom? Erum við ekki bara himinlifandi að hann skuli hafa kosið að gerast íslenskur til að leika með íslenska landsliðinu?  Vera sjálfum sér samkvæmur.

Viðar Friðgeirsson, 10.8.2013 kl. 20:57

9 Smámynd: Snorri Hansson

Mig rámar í að þegar KA náði í Duranona hafi hann verið án ríkisfangs. Þ.E.A.S. Flóttamaður. Framkoma forystu K.S.Í. er furðuleg.  Ef forystan nær sínu fram. Dettur þeim í hug að maðurinn hafi áhuga á að spila með landsliðinu eftir slíkt ofbeldi ?

En af hverju eru menn með þessar dylgjur um Duranona. Er hann ekki frjáls maður?

Snorri Hansson, 10.8.2013 kl. 21:40

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Hvaða dylgjur eru það, Snorri?

En varðandi Aron Jó, þá held ég að hann hafi ekki séns í íslenska landsliðið á næstunni. Okkur hefur ekki skort sóknarmenn að undanförnu, frekar varnarmenn. Fyrir á fleti í sókninni eru Alfreð, Kolbeinn, Arnór Smárason, Gunnar Heiðar, Björn Bergmann og sennilega höfum við Eið eitthvað áfram.

Fínt að strákurinn fari í USA, þá getur maður haldið með Kananum í Brasilíu

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.8.2013 kl. 22:04

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Mér finnst Alexander Patterson svo gott og óumdeilandlegt dæmi að ég er að hugsa um að setja hann í p. s. við bloggpistilinn.

Ómar Ragnarsson, 11.8.2013 kl. 14:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband