11.8.2013 | 13:52
Heppin að Íslendingar höfðu ekki fyrr lært af Könunum.
Þegar ég var viðstaddur skrúðgöngu Íslendinga í Gimli 1999 áttaði ég mig á því skrúðgangan gegnir gríðarlega miklu hlutverki í þjóðlífinu þar, ekki aðeins Vestur-Íslendinganna, heldur í þjóðlífi Ameríkmanna almennt.
Ég hóf mikinn dýrðarsöng í sjónvarpsfrétt og þætti um ferð forseta Íslands um það, að af þessu gætum við Íslendingar lært, en í þessari skrúðgöngu í Gimli tóku allir þátt, sem vettlingi gátu valdið, leikhópar, hljómsveitir, fyrirtæki, atvinnugreinar (lest dráttarvéla með hey- og kornvagna) o. s. frv.
Í þessum bæ, sem er á stærð við Árborg, voru mun fleiri atriði en eru enn í Gleðigöngunni í 20 sinnum stærra þéttbýli.
Alveg upplagt fyrir hátíðahöldin 17. júní hér heima.
Ég heyrði mótbárur eins og þær að við ættum ekki að vera apa eftir öðrum þjóðum. Nógu ameríkaniseraðir værum við samt.
Jæja? Eigum við þá að fella niður bolludag, sprengidag, öskudag og páska af því að þessir dagar hafa í raun borist til okkar upphaflega með kapólskunni?
Ef þetta hefur svínvirkað í Ameríku í hátt í öld, af hverju ekki hér?
En nú er kannski hægt að segja, að þau, sem standa að Gleðigöngunni hér heima, hafi verið heppin að ekki hafði komist fyrr á nein hefð hér heima varðandi svona göngur.
Fyrir bragðið hefur Gleðigangan orðið að einhverjum vinsælasta og fjölsóttasta viðburði sumarsins og vafasamt að héðan af gæti enn stærri og fjölbreyttari ganga 17. júní komist á, vegna þess að kannski er aðeins pláss fyrir eina svona stóra skrúðgöngu á hverju sumri.
Reykjavík að springa úr gleði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú er mikið um að vera í miðbænum í Reykjavík allt árið og þar eru allir glaðir í skrúðgöngum, á tónleikum, kaffihúsum og veitingastöðum.
Og þaðan eru sérstakar ferðir í Kringluna til að reyna að lokka þangað erlenda ferðamenn.
Sjálfstæðisflokkurinn situr hins vegar hnípinn í Valhöll og opnar þar ekki glugga, þrátt fyrir mikinn vindgang.
Vegna þess að gróðurhúsalofttegundirnar eru ekki til og geta því ekki breytt loftslaginu, að mati flokksins.
Þorsteinn Briem, 11.8.2013 kl. 14:36
Ekki skal alhæfa um skoðanir þeirra, sem segjast í skoðanakönnunum geta ljáð Sjálfstæðisfokknum atkvæði sitt. Hvað eftir annað hefur komið fram í sömu skoðanakönnunum að stærsti flokkspólitíski hópur kjósenda, sem til dæmis var á móti Kárahnúkavirkjun og með heilum stórum þjóðgarði á miðhálendinu, voru fylgjendur Sjálfstæðisflokksins.
En hugtakið "Flokkseigendafélagið" hefur lifað allt frá dögum Alberts Guðmundssonar, þegar þetta hugtak fékk fyrst vængi.
Ómar Ragnarsson, 11.8.2013 kl. 14:44
Þegar ég geri grín að Sjálfstæðisflokknum á ég að sjálfsögðu ekki við alla sem hafa kosið flokkinn.
Þorsteinn Briem, 11.8.2013 kl. 14:55
(Ó)hamingja er smitandi - Alexander Briem
Þorsteinn Briem, 11.8.2013 kl. 15:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.