Umbun og refsing.

Í fyrra voru þær ekki mjög uppörvandi þær fréttir, sem bárust af hag finnska tæknifyrirtækisins Nokia. Fyrirtækið virtist ætla að fara hallloka fyrir erlendum keppinautum sínum, til dæmis Samsung.

 Þetta var ekki gott fyrir Finnland, vegna þess að þetta fyrirtæki var nokkurs konar flaggskip þjóðarinnar og þjóðarstolt, sem skapaði landinu jákvæða ímynd og þarmeð verðmæti.

Allt frá upphafin, fyrsta farsímahlunknum sem ég fékk mér, hef ég skipt við Nokia samfellt. Engin undantekning var þar á þegar ég fékk mér fyrsta snjallsímann, en hins vegar undantekning að því leyti, að í fyrsta skiptið varð ég fyrir miklum vonbrigðum.

Í ljós kom að ekki var útskiptanleg rafhlaða í símanum, þannig, að þegar hún fór að gefa sig eftir tæplega tveggja ára eign, kom í ljós að ekki var hægt að skipta henni út, heldur varð allur síminn að fylgja með.

Þetta var fyrsti síminn í næstum aldarfjórðung, sem var hannaður á þennan slæma og að mér fannst ósvífna hátt og ég dauðsá að hafa ekki lesið allt smáa letrið um hann varðandi þetta. Ef þetta var þá á annað borð nefnt.

Hafði þó þá afsökun að manni dettur ekki í hug að hlutir séu hannaðir á þennan hátt.  Síðan sá ég fréttir um að Nokia væri í hópi þeirra fyrirtækja sem hannaði ákveðna hluta í tækjum þannig, að þeir entust aðeins rétt fram yfir ábyrgðartímann, þannig að kaupendur neyddust til að endurnýja allt tækið þótt aðeins einn lítill hluti þess bilaði.

Í ljós kom að rafhlaðan í símanum mínum bilaði rétt áður en tveggja ára ábyrgðartíminn rann út, þannig að fyrirtækið virtist hafa verið óheppið ef það var rétt, að rafhlaðan væri þannig hönnuð, að hún entist aðeins stutt út fyrir ábyrgðartímann.

Nú hélt ég að ég stæði með pálmann í höndunum en það var öðru nær því að mér var sagt að ekki væri hægt að gera við símann hér á landi og það yrði að senda hann til Svíþjóðar.

Nú fóru í hönd tveir símalausir mánuðir og ekkert bólaði á símanum. Fór svo að ég kreisti peninga undan nöglunum og fékk mér Samsung Galaxy.

Í þann mund kom Nokia síminn frá Svíþjóð og 15 þúsund króna reikningur, sem mér var gert að borga þótt síminn hefði átt að vera í ábyrgð!  Einhver hefði lagt í málaferli út af þessu en það kostar líka peninga þannig að það varð að láta nægja að bölva og borga.

Þegar ég seinna fór að nota Samsung símann kom í ljós, að öll hönun hans og notkun var margfalt auðveldari en á Nokia símanum, og það svo mjög, að maður undraðist hvernig þúsunda milljarða fyrirtæki eins og Nokia gæti látið annað eins frá sér. En um leið kom skýring á því hvernig Samsung brunaði upp í vinsældum og áliti á meðan Nokia féll.

Þetta er svo sem ekkert nýtt. Risafyrirtækið Sony sendi einu sinni frá sér ferðaútvarp sem útlitsins vegna var látið vera með on-off takkann á bláhorni tækisins! Sem olli þvi að tækið mátti ekki rekast utan í neitt á ferðalögunum nema að það kveikti á sér sjálft og eyddi öllu rafmagninu.

Eða ný árgerð af BMW 5 línunni, sem kom fram fyrir nokkrum árunm og var með nýtt og svo flókið kerfi af rafeindabúnaði fyrir hvaðeina í bílnum, að nýir eigendur þurftu að taka sér margra klukkustunda lesningu eða nánast að fara á námskeið til þess að geta stjórnað miðstöðinni!

Erlendir bílablaðamenn stóðu undir skyldum sínum og tóku tvær stjörnur af fimm í álitsgjöf sinni út af þessu atriði. Sðgðu að engu máli skipti hve góður þessi frægi gæðabíll væri ef nýir eigendur gætu ekki ekið honum vegna þess að einhverjum tölvunörd hefði tekist að gera hann ónothæfan með fáránlega flóknum tölvubúnaði.

Nú er mér sagt að Nokia hafi tekið sig hressilega á í samkeppninni við Samsung og aðra keppinauta og sé að rétta úr kútnum eftir verðskuldað álitsfall.

Er það vel, öllum til góðs, ekki síst Finnum, sem þurfa á sem bestri ímynd að halda fyrir framleiðsluvörur sínar. Ekki veitir af.  


mbl.is Nokia hækkar um 45%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Egill Helgi Lárusson

Nokia hefur aldeilis ekki tekið sig hressilega á í samkeppninni við Samsung (né aðra). Að selja farsímadeildina til Microsoft er ekkert annað en algjör uppgjöf. Stefna Nokia er greinilega sú að einbeita sér að símkerfum og láta aðra, og hæfari, aðila slást á farsímamarkaðinum.

Nokia er fórnarlamb eigin hroka.

Egill Helgi Lárusson, 3.9.2013 kl. 10:40

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Tek undir með Agli. Nokia tapaði slagnum því það svaf á verðinum vegna yfirburðastöðu sinnar á sínum tíma. Það hætti einfaldlega að gera leiðandi hluti og brást ekki við fyrr en það varð of seint.

Mín skoðun er sú að Apple eigi eftir að lenda aftur í hremmingum því nú er enginn Steve Jobs til þess að bjarga því - og þeir sem eftir sitja hugsa bara um peninga og arðsemi en ekki tækniframfarir. Þeir eru þegar farnir að tapa markaðshlutdeild þó þeir dæli ennþá inn peningum í kassann.

Svo má ekki gleyma því að flest öll tæknifyrirtæki á vesturlöndum láta austurlönd framleiða fyrir sig. (Ég held meira segja að íslensk fataframleiðsla geri þetta í stórum stíl.)

Sumarliði Einar Daðason, 3.9.2013 kl. 11:35

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Every US specification Nissan LEAF is backed by a New Vehicle Limited Warranty providing: [...] 96 months (í átta ár)/100,000 miles (eða 161 þúsund km.) Lithium-Ion Battery coverage (whichever occurs earlier)."

Nissan LEAF 2013

Þorsteinn Briem, 3.9.2013 kl. 14:01

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir upplýsingarnar, sem ríma raunar við það að í stað metnaðar til framfara í framleiðslunni ráði græðgi mestu um starfsemi fyrirtækisins.

Ómar Ragnarsson, 3.9.2013 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband