Hálfum metra hærri og 100 kílóum þyngri?

"Stóra strigaskómálið" vekur að vísu ekki athygli mína þegar ég sé myndina af Obama með leiðtogum Norðurlanda heldur það hvernig myndin er tekin.

Það er nefnilega ekki sama hvernig myndir eru teknar. Þegar um er að ræða jafningja getur ljósmyndarinn breytt því með því hvernig hann tekur myndina. Hann getur stækkað einn og minnkað annan að vild eftir því hvernig uppstillingin og fjarlægðin er.

Ef einhverjir halda að þetta sé smáatriði þá er það rangt. Sem dæmi má nefna að þegar tekin eru sjónvarpsviðtöl við fólk hefur það óviðráðanleg sálræn áhrif á áhorfandann hvort sá, sem talað er við, þarf að horfa upp á við þegar hann talar eða horfa niður á við.

Sama hvað fólk heldur, dregur það sálrænt úr trúverðugleika viðmælandans ef hann þarf að horfa upp í myndavélina en eykur trúverðugleika hans að tala "ofan frá" og niður á við.

Þetta lögmál er því miður allt of oft brotið eða ekki haft í huga í sjónvarpsviðtölum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, okkar ungi og vörpulegi forsætisráðherra, er að visu myndarlegur og fríður, en þegar ljósmyndarinn setur hann nær myndavélinni en aðra, verður hann næstum því afkáralega stór á ljósmyndinni, sýnist vera hálfum metra hærri en lægsti ráðherrann og allt að 100 kílóum þyngri ! Prófið bara sjálf að mæla þetta með milimetramáli.

Ljósmyndarinn hefði átt að hafa konuna og tvo lágvöxnustu karlmennina nær á myndinni en þá hávaxnari og Sigmund Davíð fjærst.

Þannig gat hann jafnað út stærðarmuninn svo allir fengju að njóta sín.

Mér finnst með ólíkindum ef það hefur verið atvinnuljósmyndari sem tók þessa mynd.


mbl.is Ósamstæðir skór vegna sýkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Afskaplega illa fór,
ótrúlega virðist feitur,
hann er lítill, hann er mjór,
hökustór og undirleitur.

Þorsteinn Briem, 5.9.2013 kl. 12:54

2 identicon

Ames herbergið sýnir vel hvernig hægt er að brengla stærðarhlutföll:

http://www.youtube.com/watch?v=vhoSqSHMIAc

Spurning hvort ljósmyndarinn hafi lært þessa tækni þar!

Eyjólfur (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 14:41

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Hvernig fórstu að því að finna þetta út með þyngdina Ómar?Jú auðvitað,Þú hefur náttúrulega viktað myndina,hvernig læt ég.

Jósef Smári Ásmundsson, 5.9.2013 kl. 16:08

5 identicon

En af hverju eiga ljósmyndarar og tökufólk á sjánvarpstöðum að hafa áhrif á trúverðuleika viðmælanda?

Sigurður Þórólfsson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 16:49

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mynd

Þorsteinn Briem, 6.9.2013 kl. 00:03

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sjónvarpsfólk á að láta viðmælendur hafa jafnstöðu gagnvart hver öðrum. Það þýðir að viðmælendurnir tali allir, hvort sem þeir eru háar renglur eða lágir stubbar, beint framan í viðmælandann og myndavélina en ekki annað hvort ofan frá eða upp í móti.

Það er margreynt að sjónræn atriði geta haft gríðarleg áhrif á það sem fólk er að segja.

Þannig álpaðist formaður eins stjórnmálaflokksins í Nóregi til þess að vera með alveg einstaklega skræpótt og litríkt hálsbindi í kappræðum hér um og fylgið hrundi í kosningunum, ekki vegna þess sem hann sagði, heldur vegna þess að á flestum heimilum fór einhver áhorfandinn í stofunni að tala um bindið þannig aðrir fóru líka að leggja orð í belg og enginn heyrði eða hlustaði á hvað maðurinn var að segja.

Kennedy var vel sminkaður og virtist sólbrúnn, hraustur og sællegur í fyrstu stóru sjónvarpskappræðunni 1960 en Nixon var grár og gugginn. Nixon tapaði.

Geir Hallgrímsson stóð skjálfandi í 10 stiga frosti úti undir fjólugrænni þakrennu á Þórshamarshúsinu  í sjónvarpsviðtali örlagakvöld í janúar 1980, með rauðþrútið nef af kulda, en Gunnar Thoroddsen þaut upp í sjónvarp og kom þar fram inni í hlýju stúdíói, vel sminkaður og flottur, geislandi af sjálfstrausti og fór á kostum.

Þetta hafði gríðarleg áhrif.

Það vill svo til að ég hef kynnt mér sérstaklega hæðarhlutföll og áhrif þeirra á þyngdir manna í hnefaleikum.

Á myndinni, sem ég er að tala um, er minnsti forsætisráðherra ca 1,60 miðað við það Sigmundur sé 2,15. Hnefaleikarar af þessum stærðum og hæðum væru um 55 kíló sá minni, en um 155 kíló sá stærri.

Ómar Ragnarsson, 6.9.2013 kl. 01:13

8 identicon

Góð ábending!

Minnir á annað dæmi um myndatökur í fjölmiðlum sem er réttarhaldið yfir fyrrum háttsettum manni í Kína sem nú standa yfir eða er nýlokið, áhugavert hvernig lögreglumennirnir tveir og sérstaklega sá sem stendur nær myndavélinni, í útsendingum á kínversku stöðinni sem næst í gegnum myndlykil, gnæfa yfir sakborninginn þrátt fyrir að hann sé um eða yfir tveir metrar að hæð.

Tóti (IP-tala skráð) 6.9.2013 kl. 19:38

9 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Það var og.En fyrri athugasemdin byggðist á veiðisögu sem ég heyrði og var á þá lund að tekin var mynd af veiðimanninum og laxinum eins og venja er og laxinn viktaður.Og bara myndin var tuttugu pund.

Jósef Smári Ásmundsson, 7.9.2013 kl. 10:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband