8.9.2013 | 21:41
Öskubakki í boði Himmlers.
Rúbínhringur með merki hakakross, sem áður var í eigu Adolfs Hitlers, er hugsanlega 16 milljón króna virði ef marka má frétt af væntanlegu uppboði á honum. En í eigu minni er þó gripur sem vekur ekki minni hrylling en þessi hringur Hitlers.
Það er stór, forláta öskubakki með hauskúpu og krosslögðum leggjum, sem gerður var af Íslendingi sem fór í boði Heinrichs Himmlers, foringja hinna illræmdu SS-sveita, til Dachau í Þýskalandi 1938 til að nema þar þau fræði, sem tengjast höggmyndasmíði og leirkeragerð, en Himmler var ástríðufullur áhugamaður um þessa list og tengingu hennar við germanska hámenningu.
Hauskúpan og krosslögðu leggirnir voru merki SS-sveitanna inni í áletruðum borða, sem ekki er á öskubakkanum, enda var hann gerður 1948 og því glannalegt að ganga alla leið þá að stríði nýloknu.
Íslendingarnir voru tveir, sem dvöldu í boði Himmlers í Dachau, en þar voru þá illræmdustu fangabúðir í Þýskalandi og raunar í heiminum öllum og þurfti ekki mikið ímyndunarafl til að sjá þessa landa sína fyrir sér við iðn sína en handan við múrinn gyðingar í hlekkjum við að höggva handa þeim grjót.
Annar Íslendinganna var Baldur Ásgeirsson, sem var besti heimilisvinur foreldra mínna og sat oft á kvöldin að tafli með föður mínum. Þeir reyktu pípur og vindla við jasstónlist af hljómplötum, sem ég spilaði fyrir þá sem sjö ára plötusnúður þegar Baldur gaf pabba bakkann í afmælisgjöf.
Baldur var sérstakt ljúfmenni og heiðursmaður á alla lund og ákaflega gaman að taka þátt í gamninu með þeim á kvöldin.
Öskubakkinn var gerður í þeim sérkennilega hálfkæringi og gálgahúmor sem stundum blossaði upp á þessum fjörlegu kvöldum. Mér finnst hann samt nógu hryllilegur til þess að taka hann niður um hver jól í stað þess að láta hann standa beint fyrir framan augun á jólagestunum.
Heinrich Himmler var líkast til enn meira skrímsli í mannsmynd en sjálfur Hitler.
Ég reikna með því að hafa hann með mér í Landnámssetrið í Borgarnesi í lok mánaðarins þegar ég hef frásögn mína þar af fólki og fyrirbærum á lífsleið minni þegar ég byrja á að segja frá því helsta sem fyrir mig hefur borið í stað þess að skrifa um það.
Hringur í eigu Hitlers á uppboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Skull & Bones öskubakka hef ég aldrei áður séð. Þú ættir að prufa hvor einhver í Skull & Bones reglunni væru til í kaupa hann af þér.
Hér er listinn
http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_Skull_and_Bones_members
Davíð, 9.9.2013 kl. 00:47
Baldur Svanhólm Ásgeirsson var undir það síðasta orðinn leikari í sjónvarpauglýsingum.
En hvað varðar ímyndunaraflið þá er engum vafa undirorpið, að þegar Íslendingarnir voru að læra hjá Allach verksmiðjunum í Dachau, sem frá 1936 voru í eigu SS og Himmlers, þá voru fangar úr Dachau búðunum þrælkaðir í verksmiðjunni. Baldur hlýtur að hafa séð það og vitað. Menn voru ekki alveg blindir þó þeir færu til Þýskalands árið 1936.
Það var bölvað, smáborgaralegt kitsch sem framleitt var í þessu verksmiðjum, og ekkert líkt öskubakkanum hans Baldurs Ásgeirssonar.
Hins vegar fékk Hermann Jónasson styttu af SS-riddara frá Himmler, sem búinn var til hjá Allach, og Steingrímur sonur hans var mikið hrifinn af þeirri "list". Kannski er Guðmundur kominn með hana á puntuhilluna. Sjá t.d. hér http://defendinghistory.com/emanuelis-zingeris-star-of-the-red-brown-road-show-turns-up-in-reykavik/41744
FORNLEIFUR, 9.9.2013 kl. 07:48
Allur heimurinn vissi um Dachau fangabúðirnar 1936 en samt voru Ólympíuleikarnir haldnir í Berlín. Halldór Laxness fylgdist með útrýmingarréttarhöldum Stalíns og lét sér vel líka.
Ekkert, ekki einu sinni loforð Obama, virðist geta haggað fangabúðunum á Guantanamo.
Þyrluflugmennirnir bandarísku sem sölluðu með ánægju niður óbreytta borgara í Bagdad, voru ósnertanlegir en þann, sem kom upp um ódæðið á að senda í langa fangelsisvist.
Ómar Ragnarsson, 9.9.2013 kl. 11:47
Og ekki má gleyma Þórbergi Þórðarsyni sem ritaði um Kvalaþorsta nasista þegar árið 1933. Hann fékk harðan refsidóm í Hæstarétti 1934 að kröfu þýska konsúlsins. Ef íslenska ríkisstjórnin yrði ekki við essari „vinsamlegu“ ábendingu yrði teki fyrir allan innflutning á fiski frá Íslandi til Þýskalands. Hrammur nasismans náði semsé hingað þegar á fyrsta ári þessa umdeilda kanslara. Þess má geta að Þórbergur ritaði kóngi bréf og bað um náðun. Þessu náðunarmáli var fyrst lokað 1941 og ekki útilokað að Bretar hafi átt einhvern þátt í því!
Guðjón Sigþór Jensson, 9.9.2013 kl. 18:07
Ertu, Ómar Ragnarsson, virkilega að líkja gyðingum í Dachau við fanga í Guantanamo?
Allir heimsbúar, sem vilja, vita fyrir hvað menn sitja í Guantanamo.
Einum Dana sem þar sat var sleppt. Fékk hann þá vinnu hjá póstinum og hélt uppi uppteknum hætti og stal vegabréfum og greiðslukortum úr póst.
Hann hélt aftur á vit "ævintýranna" og nú er talið að hann hafi verið drepinn á Sýrlandi:
http://www.dr.dk/Nyheder/Indland/2013/02/18/0218142559.htm
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 9.9.2013 kl. 22:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.