9.9.2013 | 16:47
Svipuð jafnvægislist og hjá Bretum gagnvart Evrópu?
Það er kunn sagnfræðileg staðreynd að öldum saman byggðist utanríkisstefna Breta á því að viðhalda jafnvægi á meginlandi Evrópu. Altént lögðust þeir yfirleitt á sveif með því meginlandsstórveldi sem var minni máttar og risu gegn stórveldi sem var líklegt til að ná allsherjar yfirráðum.
Þeir voru gegn Frökkum allt þangað til Þjóðverjar urðu Frökkum yfirsterkari. Þá fóru þeir að gera bandalag við Frakka gegn Þjóðverjum og síðar við alla tiltæka gegn Sovétríkjunum.
Hugsanlega er skásta ástandið, sem Bandaríkjamenn geta hugsað sér í Miðausturlöndum, að ekkert eitt ríki verði þar of voldugt. Það heitir á fínu máli að viðhalda "friði og jafnvægi."
Þegar Írakar fóru í stríð við Írana og Íranir virtust líklegir til að hafa betur, studdu Kanarnir Saddam Hussein með öllum tiltækum ráðum. Þá var ekki allt upp í loft vegna þess að hann beitti efnavopnum, bæði gegn Írönum og Kúrdum.
Fyrir Bandaríkjamenn er hvorugur kosturinn góður, að Assad sigri í borgarastyrjöldinni eða stjórnarandstæðingar með öfga- og ofstopamenn innanborðs.
Skásti kosturinn eftir ísköldu mati er líklega sá að hvorugur hafi betur. Sagt er að stjórnarherinn hafi verið að sækja á að undanförnu og ef koma á í veg fyrir að hann gangi milli bols og höfuðs á stjórnarandstæðingum er upplagt að dæla hæfilega miklu af flugskeytum á stjórnarherinn til að jafna stöðuna.
Þetta er nefnilega hægt að lesa út úr þeim orðum John Kerrys utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að því fylgi meiri áhætta að gera ekkert en að gera eitthvað.
Með "hóflegum" loftárásum á sýrlenska stjórnarherinn geta Bandaríkin ráðið því hve mikið þeir breyta vígstöðunni til þess að "viðhalda stöðugleika" á svæðinu.
Kerry: Meiri áhætta að gera ekkert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.