Mér fannst "töff" að hjóla.

Ég hjólaði eins og vitleysingur þangað til ég varð 19 ára og hljóp yfir skellinöðruæviskeiðið. Mér fannst sjálfum "töff" að hjóla og kærði mig kollóttan um það þótt öðrum fyndist það ekki.

Mamma var hrædd um að ég gæti brotið framhjólsgaffalinn þegar ég fór í allt að 150 kílómetra ferðir á hjólinu á holóttum malarvegum þess tíma, enda hjólaði ég eins og ég væri í Tour de France, og fór til dæmis á sjö klukkustundum frá Reykjavík upp í Norðurárdal.

En ég keypti mér þá sérstakan styrktan gaffal sem fjöðruðu, höfðu höggdeyfa. Að sjálsögðu keypti ég mér þrjá gíra, en á þeim tíma voru hjól ekki með gíra.

Hjólið bauð upp á endalausa möguleika á því að fara í hjólaþrautir, standa kyrr og láta það hoppa, "teika" vörubíla með annarri hendinni og sleppa jafnvel hinni af stýrinu (vona að barnabörnin lesi þetta ekki) og ég meira að segja æfði mig á því að stökkva af hjólinu á ferð, svo að hægt yrði að grípa til þess ráðs ef keðjan slitnaði eða hjólið yrði bremsulaust.

Ég stökk þá af hjólinu og æfði þetta stökk þanni, að ég sleppti vinstri hendinni sekúndubroti síðar en þeirri hægri af stýrinu, þannig að ég kippti í hjólið svo það kollsteypist í stað þess að halda áfram!

1. apríl í 6. bekk þorði ég ekki að koma á NSU-Prinz örbílnum mínum í skólann af ótta við hrekkjabrögð skólafélaganna, heldur kom á hjólinu.

Var ég þá manaður til að sýna hvernig ég stykki af hjólinu. Í löngu frímínútunum stilltu áhorfendur sér upp fyrir framan skólann en ég brunaði niður túnið og stökk af hjólinu.

En því miður klikkaði trikkið með að kollsteypa því svo það hélt áfram niður túnið og fór fram af brúninni, en fyrir neðan hana sat kona á bekk að bíða eftir strætó og hjólið stefndi beint á hausinn á henni !

Eitt skelfilegt augnablik hélt ég að ég myndi valda hræðilegu slysi, en þá vildi svo vel til að strætó var að koma og konan beygði sig fram til að taka upp skjóðu sína áður en hún færi inn í vagninn.

Hjólið lenti á baki bekksins, sem hún hafði setið á, og framgjörðin fór í keng, en konan slapp.

Varð að vísu hverft við hávaðann og leit við, steinhissa á því að sjá ónýtt reiðhjól liggja aftan við bekkinn, þar sem það hafði fallið niður.

Hjólið gerði margfalt gagn, hélt manni í formi enda notaði ég allar ferðir á því eins og ég væri í keppni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Þykir ekki nógu „töff“ að hjóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ómar ætíð skrítin skrúfa,
á skalla hvíldi blá derhúfa,
sem vindur þaut um vegi hrjúfa,
vildi ólmur hljóðmúr rjúfa.

Þorsteinn Briem, 13.9.2013 kl. 00:11

2 identicon

Er nærri fertugur, hef hjólað alla mína ævi hvert sem er, snattferðir sem og lengra. Hef verið fjarverandi frá Íslandi í nær tvo áratugi og fíla það bara vel að geta hjólað hvert sem er í 20-til-30 gráðu hita. Hér er tekið tillit til hjólreiðafólks, víðir vegir og sér hjólreinar meðfram flestum götum.

-Kveðja frá Bandaríkjunum.

Hjólfari (IP-tala skráð) 13.9.2013 kl. 15:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband