20.9.2013 | 09:44
Árangursríkasta byltingin í bílvélum.
Sú var tíðin að það þótti bara nokkuð gott þegar afköst dísivéla í bílum voru rúmlega 20 hestöfl á lítra rúmtaks og togið um 50 newtonmetrar. Núna eru margar dísilvélar 4-5 sinnum aflmeiri, þökk sé forþjöppunum, og eyðslan samt minni.
Það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem vélar eins og dísilvélin í Volkswagen Golf breyttu ímynd dísilvéla úr kraftlitlum,hávaðasömum, þungum, mengandi og dýrum drifkrafti í svo hljóðlátar og þýðgengar vélar, að stundum átta bílstjórar og farþegar sig ekki á því að það sé dísilvél í bilnum.
Þegar dísilvélarnar virtust ætla að stinga bensínvélarnar af fyrir nokkrum árum uppljóstraði bílvélafrömuður Fiat verksmiðjanna um það að á döfinni væru byltingarkenndar bensínvélar þar á bæ, sem myndu jafna muninn.
Hann stóð við orð sín með margverðlaunuðum Twin-Air vélum sem kreista á milli 100 og 125 hestöfl út úr hverjum líta sprengirýmis og Ford fylgdi í kjölfarið með Ecoboost vélunum, sem eru á svipuðu róli.
Hver hefði trúað því fyrir bara nokkrum árum að boðið væri upp á slöttungsstóran bíl eins og Ford Mondeo með þriggja strokka eins líters vél sem afkastaði samt 125 hestöflum og eyddi minna en allra minnstu bílarnir fyrir aðeins áratug?
Eða að Benz myndi dirfast að bjóða upp á fjögurra strokka vél í sinni frægu S-línu stærstu lúxusbíla?
Eða að flugvélaframleiðendur myndu bjóða upp á dísilvélar í flugvélar, svo þungar sem slíkir hreyflar hafa verið?
Forþjappan og framþróun hennar hefur ekki verið það eina sem hefur skapað þessa byltingu. Tveir yfirliggjandi kambásar, bein innspýting og aðrar nýjungar varðandi það svið eiga líka stóran þátt.
Öll þessi tækni hafði að vísu þann ókost að gera vélarnar flóknari og dýrari, en með stanslausum betrumbótum og verulegum árangri hefur þessi mikla bylting orðið að veruleika.
Forþjappa í allar vélar VW | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.