20.9.2013 | 18:01
Prófsteinn á íslenskt réttarfar og gildi laga í landinu.
Gálgahraunsmálið er smám saman að verða miklu stærra og mikilvægara en nemur deilu um framkvæmdir, lögmæti þeirra og nauðsyn á svæði, sem er á náttúruminjaskrá.
Vegagerðin hefur rekið málið þannig að henni komi meðferð málsins fyrir dómstólum ekki við heldur sé nóg að vegamálastjóri ákveði fyrirfram að málið sé unnið af hálfu hennar.
Til hvers eru þá dómstólar og réttarfar ef hver sem er getur farið fram á þennan hátt?
Þetta er alveg einstaklega ósvífinn valdhroki og ekki síður siðleysi, sem felst í því að valda sem mestum óafturkræfum umhverfisspjöllum á meðan dómstólar fjalli um málið, þannig að með því að sniðganga lög og rétt nógu hratt og lengi sé hægt að vinna "sigur" í málinu með beitingu valds vélaherdeildarinnar, sem sett hefur verið í það að mylja Gálgahraun mélinu smærra.
Ég vona heitt og innilega að Vegagerðin láti af þessari hegðun.
Ef afsökunin fyrir því að rótast í hrauninu er sú, að það sé of dýrt að gefa eftir ætti stofnunin ekki að eiga í meiri vandræðum með það en hún virðist eiga við að tapa tveimur nýlegum skaðabótamálum upp á hátt í 300 milljónir króna.
Í morgun var frétt um 30 milljón króna staðabætur vegna framgöngu hennar sem leiddi til skaðabótamáls og ekki er langt síðan en hún var dæmd til greiðslu 250 milljóna króna skaðabóta í öðru máli. Kannski eru ófarir hennar fyrir dómstólum ástæða þess að hún hyggst sniðganga þá hér í Gálgahraunsmálinu.
Alls konar hártoganir eru notaðar til þess að reyna að láta líta svo út sem framkvæmdirnar fari ekki fram í Gálgahrauni heldur Garðahrauni.
Þetta er hlálegt þegar litið er á mynd hér við hliðina, sem ég tók í gær.
Þar sést upplýsingaskilti um hraunið sem gerir kleift að sjá að þarna er um að ræða þann hluta hraunsins þar sem einna mestar sögulegar minjar eru sem og einstök fyrirbæri hraunsins og að þetta skilti er rétt hjá þeim stað þar sem þegar hefur hafist óafturkræf eyðilegging þess. .
Á efri myndinni af skiltinu sést að vísu ekki hvernig ætlunin er að gera þar brautir, sem anni alls 50 þúsund bíla umferð, en til samanburðar fara nú 7 þúsund bílar um Álftanesveg. En í stuttu máli má segja, að með því að fara út í þessar fáránlegu framkvæmdir í stað þess að breikka veginn þar sem hann er núna, verði líkt og krossað stórt X yfir helming þess svæðisins sem sýnt er á skiltinu.
Afsakið að önnur myndanna fór óvart tvisvar inn á síðuna.
Taka fyrir kröfu umhverfissamtakanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Álftanesvegur liggur í apalhrauni (Garðahraun, Gálgahraun) með þunnri gróðurþekju." (Bls. 19.)
"Verkkaupi hefur gert ráð fyrir svæði undir efnisvinnslu í Gálgahrauni við nýjan Álftanesveg milli Garðaholtsganga og Garðastekksganga." (Bls. 17.)
"Þá skal forskera berg í bergskeringum í vegi gegnum Gálgahraun þar sem því verður við komið ..." (Bls. 35.)
Vegagerðin - Álftanesvegur (415) - Útboðslýsing
Þorsteinn Briem, 20.9.2013 kl. 19:11
Samála Ómar það sem stjórnendur eru að gera hér á landi bæði í þessari vegagerð og virkunarframkvæmdum eru landráð og ekkert annað! Mútur og auðvaldsdýrkun er aðal ástæðan fyrir að svona er fram gengið.
Sigurður Haraldsson, 20.9.2013 kl. 20:32
"virkjunarframkvæmdum"
Sigurður Haraldsson, 20.9.2013 kl. 20:33
"....einstök fyrirbæri hraunsins"
Enn nota umhverfisverndarmenn sterkustu lýsingarorð sem finnast til að fá sem flesta í lið með sér.
Ómar er holdgerfingur umhverfisverndar á Íslandi og umhverfissamtök vilja teljast "virt" og nota þessi lýsingarorð óspart og gengisfella þau auðvitað um leið með ofnotkuninni. En einhver slatti af fólki treystir öllu sem frá þessum aðilum kemur, eins og nýju neti.
Hvað er "einstakt" við þetta hraun?
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.9.2013 kl. 21:38
Ekkert annað en það að Kjarval sat þar og málaði vegna blankheita.Hann rak líka við í Austurstræti eins og frægt er orðið.Þess vegna ætti allt að vera óumbreytanlegt þar ef Gálgahraunið á að vera heilagt.
Sigurgeir Jónsson, 20.9.2013 kl. 22:26
Kall greyið, átti hann ekki fyrir Þingvallaferð, blessaður anginn
Gunnar Th. Gunnarsson, 20.9.2013 kl. 22:43
"Í náttúruverndarlögum, sem tóku gildi 1. júlí 1999, eru tilgreindar landslagsgerðir sem njóta sérstakrar verndar.
Þar kemur fram að eldhraun runnin á nútíma [...] á borð við Garðahraun/Gálgahraun eru þar á meðal og forðast skuli röskun á þeim eins og kostur er."
"Gálgahraun er kennt við Gálgaklett, þríklofinn hraunstand nyrst í hrauninu."
"Samkvæmt náttúruminjaskrá afmarkast Gálgahraun af núverandi Álftanesvegi að sunnan en hraunjöðrunum að austan og vestan.
Framkvæmdasvæðið, sem fjallað er um í matsskýrslu þessari, er því að stórum hluta innan svæðis sem er á náttúruminjaskrá."
"Framkvæmdirnar munu því rýra verndargildi hraunsins sem svæðis á náttúruminjaskrá, auk þess sem eldhraun njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum."
"Garðahraun/Gálgahraun er sennilega stærsta hraunið sem enn er ósnortið í miðju þéttbýli á Innnesjum og verndargildi þess er ótvírætt sem slíkt."
Vegagerðin - Nýr Álftanesvegur - Mat á umhverfisáhrifum, janúar 2002
Þorsteinn Briem, 20.9.2013 kl. 22:50
Auglýsing um friðlýsingu Gálgahrauns nr. 877/2009, 6. október 2009
Þorsteinn Briem, 20.9.2013 kl. 23:40
Það er ekkert einstakt við þetta hraun,? Öryggi borgaranna eiga ávallt að ganga fyrir,,hér eru þéttbýliskjarnar allt um kring og þessi vegur er bráð aðkallandi.
Helga Kristjánsdóttir, 20.9.2013 kl. 23:47
"12. gr. Refsiákvæði. Brot gegn reglum 5.-10. gr. auglýsingar þessarar varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 75. og 76. gr. laga um náttúruvernd nr. 44/1999."
Auglýsing um friðlýsingu Gálgahrauns nr. 877/2009
"75. gr. Spjöll á náttúru landsins.
Hver sá sem veldur á ólögmætan hátt spjöllum á náttúru landsins, hvort heldur er af gáleysi eða ásetningi, skal sæta refsingu skv. 76. gr."
76. gr. Refsiábyrgð.
Hver sá sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara eða reglna settra samkvæmt þeim skal sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.
Nú hljótast af broti alvarleg spjöll á náttúru landsins og skal brotamaður þá sæta sektum, að lágmarki 350.000 kr., eða fangelsi allt að fjórum árum.
Lágmarksfjárhæð sekta skal taka mánaðarlegum breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Sektir renna í ríkissjóð."
Lög um náttúruvernd nr. 44/1999
Þorsteinn Briem, 21.9.2013 kl. 00:06
Svandís Svavarsdóttir.... það lá að
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.9.2013 kl. 00:55
Lög um náttúruvernd nr. 44/1999, stjórnarfrumvarp lagt fram 17. febrúar 1999 og samþykkt 22. mars 1999, flutningsmaður Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra
Annað ráðuneyti Davíðs Oddssonar 23. apríl 1995 - 28. maí 1999
Þorsteinn Briem, 21.9.2013 kl. 02:24
Alveg hreint með ólíkindum að leggja skuli veg um þennana demant. Viljirðu á Álftanes, ferðu annað hvort með fjörunni Hafnarfjarðarmegin, eða ekur eins og FORSETINN heim til þín.
Bestu kveðjur og von um óspillt Gálgahraun.
Halldór Egill Guðnason, 21.9.2013 kl. 03:47
Gunnar Th..:
Hefur þú einhverntíma komið í Gálgahraun og veist þú hvar endimörk þess liggja í ALLAR áttir?
Það er ekki nóg að vera bara á móti. Hverju ertu á móti? Ertu meira á móti, eða með einhverju öðru?
Halldór Egill Guðnason, 21.9.2013 kl. 03:52
Ómar Ragnarsson, hinn eini sanni, segir og mælist þar algerlega rétt orð á vör, svona Cirka svona,;:::: Það eru málaferli í gangi.
Þar til úrskurður berst, gerir enginn neitt!
Þetta er grunnurinn! (Sem Vegagerðin NÆRIST Á)
Hvað ef Vegagerðin tapar málinu?
(Jafnvel búið að leggja hálfan veginn)
Aðalgrunnurin þykir mér samt sem áður sá, að hvor leiðin sé valin verður, höfum við engin féráð til klára hvoru tveggja. Ég Meina..... Það er verið að bejast!
Halldór Egill Guðnason, 21.9.2013 kl. 04:06
Ég hef ekki myndað mér fasta skoðun á þessu, Halldór, en af fenginni reynslu af röksemdum náttúruverndarsinna og kunnuglegum efsta stigs lýsingarorðum frá þeim, þá dreg ég í efa verndargildið. Yfirgnæfandi meirihluti fólks sem á heima þarna í grenndinni og þekkir svæðið væntanlega vel, telur að þarna eigi vegurinn að vera. Er ekki lýðræðislegt að hlusta á það?
Eflaust er þetta snoturt svæði og eftirsjá í raskinu að einhverju leiti, en þetta er nú einu sinni í þéttbýli og ég set umferðaröryggi á oddinn.
Mér finnst dálítið skrítið að ekki skuli vera hægt að betrumbæta núverandi veg og ekki séð almennileg rök fyrir að sú leið er ekki farin.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.9.2013 kl. 04:13
Náttúran á alltaf að hafa forgang fyrir mannfólkinu, virðingu skortir gagnvart henni frá mörgum okkar en Ómar er einn af þeim sem virðingu og ástúð ber til náttúrunar hlustum á hann því fáir samlandar okkar hafa haft meiri tengsl við náttúruna en hann.
Sigurður Haraldsson, 21.9.2013 kl. 07:30
Ef við "verðfellum" Gálgahraun, sem er eitt hrauna á náttúruminjaskrá á þessu svæði, þá "verðfellum" við líka Kjarval. Líkast til komst hraunið á náttúruminjaskrá í tíð Birgirs Kjarans eða Eysteins Jónssonar, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksþingmanna.
Þeir voru víst iðnir við að "verðfella" náttúruverðmæti.
Ómar Ragnarsson, 21.9.2013 kl. 11:57
Enginn mælir því bót að Álftanesvegur sé einbreiður. En tvíbreiður vegur á sama stað og nú með einu eða tveimur hringtorgum er fyllilega nógu öruggur og jafnvel öruggari en hraðari vegur í hrauni án öryggissvæða, eins Vegagerðin vill leggja í gegnum hraunið.
Sá vegur hefur sem forsendu að umferð um hraunið sjöfaldist úr 7 þúsund á dag upp í alls 50 þúsund á dag sem er fáranlegt, því að til samanburðar eru umferð um Miklubraut í Sogamýri 90 þúsund bílar á dag.
Ómar Ragnarsson, 21.9.2013 kl. 12:09
http://eyjan.pressan.is/frettir/2013/09/23/hraunavinir-stodva-framkvaedir-i-galgahrauni/
Sjónvarpsmaðurinn Ómar Ragnarsson er einn þeirra sem er á svæðinu, en á heimasíðu sinni segir hann að Vegamálastjóri hafi tekið sér það dómsvald sem felst í að rústa hrauninu.
http://www.visir.is/aetla-ad-rydjast-tharna-inn-med-sinni-velaherdeild/article/2013130929734
„Við vorum að tala um það við Eiður hvað það er ótrúlegt að þetta sé að eiga sér stað,“ segir Ómar. „Það er rétt að byrja málflutningur og þeir ætla að ryðja sér leið um hraunið. Hvers konar réttarríki er það þar sem hvaða fyrirtæki sem er getur farið sínu fram án þess að bíða dómsniðurstöðu?“
Skiptu út Vegagerðinni og ÍAV fyrir bankana og sýslumennina. Þeir gera þetta að meðaltali þrisvar sinnum á dag þegar þeir bjóða upp heimili fólks án undangenginna dómsúrskurða. Engar skaðabætur geta mætt því félagslega tjóni sem af því hlýst þegar fjölskyldur eru með óréttmætum hætti gerðar heimilislausar í svo stórum stíl. Ekki er heldur hægt að skila þeim heimilunum síðar, ef búið er að selja eignirnar til þriðju aðila, slíkt er óafturkræft samkvæmt þeim lögum sem um það gilda.
Í báðum tilvikum er um að ræða óafturkræft tjón sem verður ef vaðið er fram án þess að mál séu fyrst leidd til lykta innan dómskerfisins.
Svarið við spurningunni um í hvaða "réttarríki" slíkt viðgangist er einfaldlega: Ísland.
Sjá til dæmis nýjasta undraverk Hæstaréttar: http://www.haestirettur.is/domar?nr=9028
...Samkvæmt 1. tölulið 3. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 verður lögbann ekki lagt við athöfn ef talið verður að réttarreglur um refsingu eða skaðabætur fyrir röskun hagsmuna gerðarbeiðanda tryggi þá nægilega.
...Þá hefur varnaraðili lýst því yfir í kjölfar dóms Hæstaréttar 30. maí 2013 í máli nr. 50/2013, sem varði bílasamning, að hann hafi hafið undirbúning nýs útreiknings hluta samninga sinna sem áður voru gengistryggðir. Felst í yfirlýsingum þessum næg trygging fyrir því að hagsmunir lántakenda verði ekki fyrir borð bornir
... yfirlýsingar um meinta greiðslugetu gefnar út af fjármálafyrirtækjum sem eru nýbúinn að fara á hausinn eru semsagt nægjanlegar að mati hins virðulega dóms.
Helsta ráðgátan er hvers vegna þessi óvænta og fáheyrða tilfærsla löggjafar- og dómsvalds í landinu yfir til einkafyrirtækja, er ekki aðalfrétt allra fjölmiðla núna?
Guðmundur Ásgeirsson, 23.9.2013 kl. 15:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.