30.9.2013 | 20:44
"Seljum fossa og fjöll! Föl er náttúran öll!..."
Það þarf að virkja upp undir 700 megavött til þess að anna orkuþörf fyrir lágmarksstærð álvers í Helguvík, sem talsmenn Norðuráls segja að verði að verða með 360 þúsund tonna framleiðslu á ári.
Öll restin af Þjórsá dugar ekki nema fyrir um helmingnum af því. Til þess að brúa bilið verður að njörva landið allt frá Reykjanestá, austur í Skaftafellssýslur og upp undir mitt hálendið með virkjanamannvirkjum og háspennulínum.
"Einróma stuðningur" ríkisstjórnarinnar við álver í Helguvík þýðir einfaldlega það sem Flosi Ólafsson orti á sínum tíma:
Seljum fossa og fjöll !
Föl er náttúran öll !
Og landið mitt taki tröll !
Þess vegna hefur þegar verið gefin út sú dagskipun að eftir þörfum verði þau svæði, sem áttu að fara í verndar-nýtingarflokk í niðurstöðum faghópa rammaáætlunar, færð í orku- nýtingarflokk.
Álver er nú í lágmarki vegna gríðarlegra birgða í Kína og víðar þannig að nú verður aftur að gefa út ákall ríkisstjórnar Davíðs og Halldórs frá 1995: "Lowest energie prices!", "lægsta orkuverð í heimi!" "Sveigjanlegt mat á umhverfisáhrifum!" Allt verður leyft!
Jarðvarmavirkjanirnar, sem þarf fyrir álverið, verða rányrkja, þar sem orkan verður að meðatali uppurin eftir 50 ár! Áfram verður samt logið upp í opið geðið á öllum um að orkan sé "endurnýjanleg og hrein" og að með þessu virkjanaæði séu Íslendingar í fararbroddi meðal þjóða heims í sjálfbærri þróun.
Snorri Hjartarson brýndi sig og landa sína fyrir 60 árum í ljóðinu "Land, þjóð og tunga" til að "verja heiður og líf landsins gegn trylltri öld." Hann hefði varla órað fyrir því hve margfalt meiri ástæða væri fyrir slíku nú en þá.
Einróma stuðningur við álver í Helguvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
í stað þess að tala um fegurð náttúrunar, ættu menn þess í stað að benda á það að verið sé að setja öll eggin í sömu körfu. Verð á ál, fer lækkandi og þar með mun lækka það verðgildi sem fæst fyrir orkuframleiðsluna. Síðan þarf að taka upp, ákaft og án afláts þá staðreynd að álver veitir enga vinnu fyrir landsmenn. Og þegar Ísland er í þeim bobba sem það er, þá mun slíkt hafa áhrif.
Að sífellt að benda á náttúruna, hefur engin áhrif.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 07:38
Svo er sá vinkill líka til að meðan löggæsla er í lágmarki, menntastofnanir í fjársvelti og heilbrigðiskerfið að hruni komið þá sé spurning fyrir hvern verið sé að passa alla þessa moldarhauga, hraunbreiður og ársprænur ef aðeins eru mánuðir í að ekki verði búandi á landinu og mannslíf séu í húfi.
Seljum fossa og fjöll.
Föl er náttúran öll.
Svo búi hér annað en tröll !
Hábeinn (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 10:50
Ferðaþjónustan er að verða stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og sá sem aflar mests gjaldeyris, minn kæri Hábeinn.
Ómar Ragnarsson, 1.10.2013 kl. 12:13
Og það þarf nokkra starfsmenn í ferðaþjónustunni til að skila jafn miklum gjaldeyri og hver starfsmaður í stóriðju skilar. Fjöldi láglaunastarfa með litla framlegð er ekkert eftirsóknarvert. Neðsta skattþrepið fjármagnar ekki heilbrigðiskerfið.
Gjaldeyristekjur árið 2012 voru 238 milljarðar og var ferðaþjónusta með 23,5%, sjávarafurðir 26,5%, stóriðja 22% og annað 28%. Fleiri starfa við ferðaþjónustu en sjávarútveg og stóriðju til samans.
Hábeinn (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 16:10
Stefna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins byggist að stórum hluta á að taka gríðarlega há erlend lán til að fjármagna framkvæmdir ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar til að búa hér til störf í erlendri stóriðju sem eru margfalt dýrari og um þrisvar sinnum færri en í ferðaþjónustunni.
Fyrirtæki í ferðaþjónustunni hér á Íslandi eru hins vegar íslensk einkafyrirtæki, sem eru í öllum bæjum, þorpum og sveitum landsins.
En stóriðja er og verður einungis á örfáum stöðum á landinu.
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 16:27
Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu um 500 manns í árslok 2009, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness, og á vef félagsins er tekið sem dæmi að starfsmaður, sem unnið hefur í sjö ár hjá Norðuráli, hafi fengið 308.994 króna mánaðarlaun í nóvember 2010.
12. 6.2008:
"Á vefsíðu Fjarðaáls kemur fram að meðallaun framleiðslustarfsmanna eru tæpar 336 þúsund krónur á mánuði, með innifalinni yfirvinnu, vaktaálagi og fleiru."
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 16:31
Samkvæmt launakönnun VR, sem gerð var í ársbyrjun 2009 og tæplega ellefu þúsund manns svöruðu, voru heildarmánaðarlaun á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum 362 þúsund krónur, í samgöngum á sjó og landi og flutningaþjónustu 377 þúsund krónur og flugsamgöngum 391 þúsund krónur.
(Og í matvæla- og drykkjariðnaði voru heildarmánaðarlaunin 391 þúsund krónur, lyfjaiðnaði 411 þúsund krónur, ýmsum iðnaði og byggingastarfsemi 441 þúsund krónur, byggingavöruverslunum 363 þúsund krónur og stórmörkuðum, matvöruverslunum og söluturnum 352 þúsund krónur.)
Félagssvæði VR nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Álftaness, Kjósarhrepps, Akraness og nágrennis, Húnaþings vestra, alls Austurlands og Vestmannaeyja.
Launakönnun VR 2009 - Grunnlaun, heildarlaun og vinnutími á hótelum, veitingahúsum, ferðaskrifstofum, í samgöngum á sjó og landi, flutningaþjónustu og flugsamgöngum - Sjá bls. 23-25
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 16:32
Um 1.600 íslenskir flugmenn, flugfreyjur, flugþjónar, flugvirkjar og flugumferðarstjórar starfa hér í ferðaþjónustunni við innanlandsflugið og millilandaflugið.
Þeirra laun hafa ekki verið tekin hér með í reikninginn og þau hækka að sjálfsögðu meðallaunin töluvert í ferðaþjónustunni.
Rúmlega 600 eru í Félagi atvinnuflugmanna (FÍA), rúmlega sjö hundruð í Félagi flugfreyja. um 200 flugvirkjar vinna hjá Icelandair og Flugfélagi Íslands og um 100 flugumferðarstjórar starfa hér á Íslandi.
Meðallaun flugmanna virðast vera um ein milljón króna á mánuði, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar 2009 og þar má finna flugfreyjur með 400 og 500 þúsund krónur á mánuði, flugvirkja með 400 og 700 þúsund krónur á mánuði og flugumferðarstjóra með um eina milljón króna á mánuði.
Félag íslenskra atvinnuflugmanna
Flugfreyjufélag Íslands
Flugvirkjafélag Íslands
Flugumferðarstjórar í BSRB
Ræstingafólk vinnur í öllum fyrirtækjum, bæði í þjónustu- og framleiðslufyrirtækjum, álverum sem ferðaþjónustu.
Herbergisþernur vinna á hótelum og sumarið 2008 voru 300 hótel og gistiheimili á landinu, misjafnlega stór að sjálfsögðu.
Og á móti þeirra launum koma mun hærri laun flugmanna, flugfreyja, flugþjóna, flugvirkja og flugumferðarstjóra.
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 16:34
Gjaldeyristekjur árið 2012 voru 238 milljarðar og var ferðaþjónusta með 23,5%, sjávarafurðir 26,5%, stóriðja 22% og annað 28%.
Fleiri starfa við ferðaþjónustu en sjávarútveg og stóriðju til samans en skila ekki helmingi af þeim gjaldeyri sem þær greinar skila.
Laun einhverra flugmanna koma því og þjóðartekjum ekkert við. Okkur vantar gjaldeyri og lækna, ekki flugmenn.
Hábeinn (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 17:16
Heildarlaun (heildargreiðslur) verkfræðinga hér á Íslandi eftir þriggja ára starf voru að meðaltali 420 þúsund krónur í september 2009, samkvæmt kjarakönnun Verkfræðingafélags Íslands.
Heildarlaun þeirra voru því lægri en heildarmánaðarlaun starfsfólks í VR í ýmsum iðnaði og byggingastarfsemi í ársbyrjun 2009, sem voru þá 441 þúsund krónur, samkvæmt launakönnun VR.
Og heildarlaun nýútskrifaðra verkfræðinga voru 325 þúsund krónur í september 2009 og því lægri en heildarmánaðarlaun starfsfólks í VR í stórmörkuðum, matvöruverslunum og söluturnum, sem voru 352 þúsund krónur í ársbyrjun 2009.
Verkfræðingafélag Íslands - Kjarakönnun í september 2009, bls. 14
Launakönnun VR 2009 - Grunnlaun, heildarlaun og vinnutími á hótelum, veitingahúsum, ferðaskrifstofum, í samgöngum á sjó og landi, flutningaþjónustu og flugsamgöngum, bls. 23-25
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 17:35
Samtök iðnaðarins:
"Mikilvægi hátækniiðnaðar fyrir atvinnulíf framtíðarinnar speglast í því að fimmtungur allra nýrra starfa sem urðu til í landinu á árunum 1990-2004 sköpuðust vegna hátækni.
Á sama tíma fjölgaði aðeins um 500 störf í stóriðju og fækkaði um fjögur þúsund í sjávarútvegi..
Í lok tímabilsins störfuðu 5% vinnuaflsins, 6.500 manns, við hátækni, 900 við stóriðju (0,7%) og ríflega 10 þúsund í sjávarútvegi.
Í hátækni eru 40% starfsfólksins með háskólamenntun og um 60% með háskóla- og iðnmenntun.
Ef borinn er saman virðisauki Íslendinga af stóriðju og hátækni sést að virðisauki framleiðslunnar í hátækni er rúmlega þrefalt meiri en í stóriðju.
Þetta skýrist af því að hátæknigeirinn er vinnuaflsfrekur og í innlendri eigu, einungis þriðjungur virðisaukans í stóriðju verður eftir í landinu en um 70% eru flutt úr landi."
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 17:40
CCP á Grandagarði í Reykjavík seldi árið 2009 útlendingum áskrift að Netleiknum EVE Online fyrir um 600 milljónir króna á mánuði sem myndi duga til að greiða öllum verkamönnum í öllum álverunum hér á Íslandi laun og launatengd gjöld.
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 17:47
Útgjöld erlendra ferðamanna til íslenskra fyrirtækja voru 238 milljarðar króna í fyrra, árið 2012.
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 17:52
En veður Hábeinn í villu og svíma. Úttekt fleiri en eins hagfræðiprófessors á þeim virðisauka sem atvinnugreinar skila í þjóðarbúið sýnir að stóriðjan er vel innan við hálfdrættingur á við ferðaþjónustuna og sjávarútveginn. Enda fer arðurinn af stóriðjunni beint til útlanda en við erum í henni í hlutverki þjóða þriðja heimsins sem verða að láta sér láglaunastörf og gjafverð á orku nægja.
Ómar Ragnarsson, 1.10.2013 kl. 23:16
Undirönd Ómarz aðalandar hér, Nafni Brjánzlækjarbarn, ztendur þvílíkt vaktina að aðdáunarvert er.
Kollhúfa ofan fyrir því.
Steingrímur Helgason, 2.10.2013 kl. 01:04
Sæll Ómar
Er núna staddur í Colorada að skoða stórkostlega náttúr þar. Þú hefur margsinnis bent á hvað við Íslendingar erum langt á eftir hvað náttúruverndarmál varðar og hvað við eigum margt eftir ólært. Var í fyrradag í Klettafjallaþjóðgarðinum og í gær í Gunnison þjóðgarðinum og skoðaði Svörtu gljúfur.
Því miður eru allt of margir landar okkar búnir að setja sig inn í einhverjar blindgötur sem þeir vilja ekki út úr, hversu lítil skynsemi er að láta sig hverfa inn í þær.
Bestu kveðjur
Guðjón Sigþór Jensson, 2.10.2013 kl. 03:40
Árið 2007:
Framsóknarflokkurinn - Árangur áfram, ekkert stopp!
Árið 2008:
Guð blessi Ísland! - Ávarpið í heild
Þorsteinn Briem, 6.10.2013 kl. 14:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.