1.10.2013 | 12:06
Bíll sem býr til orku og eyðir mengun?
Þegar maður sér auglýsingar um alls konar fríðindi, aukahluti og "ókeypis" þetta og ókeypis hitt þegar bílar eru keyptir, vaknar spurningin: Af hverju er verð bílsins bara ekki lækkað sem þessu nemur?
Það er svo skemmtilegt hvað mönnum dettur í hug varðandi það að fá "ókeypis" þetta og ókeypis hitt varðandi bíla.
Þannig hef ég á ferli mínum sem fréttamaður falið ótal fýluferðir varðandi það að menn hafa talið sig hafa fundið upp alls konar búnað og aðferðir til þess að fá bíla til að spara orku og minnka útblástur.
Fyrir ca 35 árum lét ég ginnast til að flytja eina slíka frétt, sem var um íslenskan bíl, sem gengi fyrir lofti.
Hann var aldrei framleiddur. Síðan hefur fjöldi manna haft samband við mig með nokkuð reglulegu millibili út af alls konar búnaði sem "skapi byltingu" í bílaheiminum.
Ég ákvað eftir loftbílsævintýrið að sannprófa allt sjálfur áður en ég ryki af stað með frétt af svipuðum toga. Þeir eru ófáir dagarnir sem hafa farið í það í gegnum tíðina.
Ein fréttin átti að vera um notkun hamps eða hampsolíu sem átti að eyða útblæstir og draga stórlega úr eyðslu og eyða mengun. Framhaldið átti að verða stórfelld ræktun hamps á Íslandi. Ég eyddi tveimur dögum í þetta, meðal annars við nákvæmar mælingar, sem ég krafðist, þótt uppfinningamennirnir teldu sig hafa næg gögn í höndunum.
Niðurstaðan var sú að þetta var tómur misskilningur. Bíllinn með búnaðinum sýndi engar breytingar. Fyrirhöfn mín til ónýtis, nema hvað ég gat forðað mér frá að flytja bullfrétt og það var þess virði.
Oftast hafa menn komið til mín með aukabúnað á vélarnar til þess að ná fram 20-40% sparnaði á eyðslu og mengun.
Ein hugmyndin fyrir nokkrum árum var ný gerð af blöndungi sem átti að gagnast þriðja heiminum þar sem eru tugir milljóna bíla með blöndungum. Íslendingar áttu að geta orðið vellríkir í tengslum við þessa uppfinningu þar sem nýir íslenskir blöndungar yrðu settir milljónum saman í bíla með blöndungum.
Ekkert hefur frést af þessu síðan og aldrei flutti ég um það frétt.
Nú hefur verið suðað í mér vegna nýrrar aðferðar við að nota vatn sem eldsneyti og er fullyrt að mælingar hafi staðfest að öll mengun frá bílvélinni hverfi.
Ég get ekki sannreynt það og ætla ekki að fara eyða tíma í það, tel mig raunar vera búinn með "kvóta" minn í að hlaupa á eftir svona stórfréttum án minnsta árangurs. Nú verða aðrir og yngri menn að taka við, sem hafa tímann og ævina framundan.
Fá takmörk virðast vera fyrir því hvað hægt er að nota til að knýja bílana. Bæði loft og vatn hafa verið nefnd og hvort tveggja er ókeypis á Íslandi.
Ef ég legg saman allan hinn stórfellda sparnað sem allar þessar uppfinningar hefðu átt að hafa í för með sér, er útkoman bíll, sem notar orkugjafa, sem er ókeýpis, býr til orku og sogar í sig loftmengun og eyðir henni.
Fá frítt bensín í tvö ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sumir hér nú fá það frítt,
en flestir telja ekki nýtt,
hellingur það hefur skítt,
helst er það í blöðum títt.
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 16:02
Áttirðu í einu dæminu við fjölblendirinn?<
http://www.tct.is/
Ef svo er, þá er það sniðugt dæmi, - þekki þar aðeins til. Svo best ég veit hefur markaðssetningin eitthvað verið erfitt, og áhugaleysi stjórnvalda hér megin algert. Í slíkum tilfellum getur sniðugt prinsipp lagst af, eða verið selt út, jafnvel til kaupanda sem vill hafa það oní skúffu.
Jón Logi (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 16:27
Ég eyddi tveimur dögum í þetta, meðal annars við nákvæmar mælingar, sem ég krafðist, þótt uppfinningamennirnir teldu sig hafa næg gögn í höndunum.
Niðurstaðan var sú að þetta var tómur misskilningur. Bíllinn með búnaðinum sýndi engar breytingar. Fyrirhöfn mín til ónýtis, nema hvað ég gat forðað mér frá að flytja bullfrétt og það var þess virði.
Ég myndi nú segja að þetta hafi verið allt annað en "fyrirhöfn til ónýtis", vísindalegar prófanir til að sanna/afsanna hluti/kenningar/staðhæfingar er aldrei til einskis að mínu mati.
Halldór Björgvin Jóhannsson, 1.10.2013 kl. 16:39
Það sem ég meina, sérðu, sko, vertu ekki að neinu rugli: Bara að reyna að drepa tvo steina með einum fugli.
Hrúturinn (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 18:14
Gylliboðin eru mörg en oftast byggja þau á glópagulli.
Það má þó reyndar segja að "vatn" í eldsneyti er ekki alveg út í bláinn. Reyndar er ekki um hreint vatn að ræða, enda sennilega tilgangslítið hér á landi yfir veturinn. Út í það er sett eitthvað efni sem ég kann ekki að nefna. Og eftir því sem ég kemst næst er þetta ekki látið fara gegnum sprengjurými vélarinnar, heldur látið fara samanvið útblásturinn við hana. Þetta á einkum við um díselvélar.
Sjálfur hef ég sannreynt að mengun frá bíl með þessum búnaði virðist vera mun minni, það er ef maður leggst við pústið og þefar þar. Hvort eitrið sé eitthvað minna veit ég ekki, kannski bara einhver önnur og skaðsamari, að það efni sem sett er samanvið vatnið búi til einhverja nýja eitrun.
Annars geta þeir félagar sem reka Ib bílasöluna á Selfossi svarað þessum spurningum. Þeir flytja inn bíla með þessum búnaði og víst er að hin gamalkunna díselbræla finnst ekki af þeim bílum sem þann búnað hafa. En best er auðvitað að hafa samband við þá um þetta mál, ef vilji er til að kynna sér það nánar.
Gunnar Heiðarsson, 1.10.2013 kl. 19:26
Ansi fyrir austan fjall,
í ánum held ég sjatni,
ef á bíla ausi kall,
öllu þessu vatni.
Þorsteinn Briem, 1.10.2013 kl. 22:17
Ekki er þetta nýtt undir sólinni. Sjá:
http://en.wikipedia.org/wiki/Water_injection_%28engines%29
Ómar hlýtur að þekkja MW tæknina. Galli var tæring í vélum, muni ég rétt. Var notað grimmt í seinna stríði.
Jón Logi (IP-tala skráð) 1.10.2013 kl. 23:40
Í rúm 40 ár hef ég öðru hvoru heyrt flökkusögu um mann í BNA sem blandaði einhverju efni út í vatn, og notaði sem eldsneyti á bílinn sinn. Þetta vakti lítinn fögnuð olíurisanna, og maðurinn fannst látinn í vegaskurði, og formúlan að efninu dó með honum. Hvort sem samhengi er þar á milli eða ekki.
Hörður Björgvinsson (IP-tala skráð) 2.10.2013 kl. 08:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.