Raunsæi og "list hins mögulega."

Ummæli Jóns Gnarr borgarstjóra um Reykjavíkurflugvöll sýna þann vott af raunsæi og ábyrgð sem þarf að ríkja hjá stjórnmálamönnum þegar ljóst er að ekki er nema um einn kost að velja.

Sagt hefur verið að stjórnmál séu "list hins mögulega" og það virðist Jón skilja ef marka má ummæli hans.

Það er vel hægt að reikna það út að best væri að flytja bæði flugstarfsemina og hafnarstarfsemina til Suðurnesja ef menn gefa sér það að staðsetning íbúðabyggðar í höfuðborg sé aðalatriðið en hlutverk hennar sem höfuðborgar og samgöngumiðstöðvar sé aukaatriði.

Það er enn auðveldara að finna það út að reisa háreista íbúðabyggð á hinu auða svæði Öskjuhlíðar.

Flugvöllurinn og Reykjavíkurhöfn eru álíka langt frá þungamiðju byggðar höfuðborgarsvæðisins, um 4 kílómetra, og taka álíka mikið pláss.

En með því að útrýma þessum höfuðþáttum í tilverugrundvelli borgarinnar er kippt burtu ástæðunni fyrir því að hún varð til.

Við Elliðaárdal eru stærstu krossgötur landsins og við krossgötur myndast byggð. Samgöngur eru ekki aðeins á landi heldur einnig á sjó og í lofti. Nú er svo að sjá að Jón Gnarr átti sig á því og er það vel.

Niðurstaðan ætti að verða svipuð og varðandi Brommaflugvöll í Stokkhólmi þar sem menn sáu, að staðsetning samgöngumannvirkja er langtímamál, annars eyðileggur óvissan notagildi þeirra.

Þar var ákveðið að flugvöllurinn stæði að minnsta kosti í 30 ár í viðbót, og að þeim tíma liðnum yrði sest niður og staðan metin.

Mun vindasamara er á Íslandi en í austanverðri Svíþjóð. Ekki þarf annað en að bera saman "vindrósirnar" í Stokkhólmi og Reykjavík til að sjá, að tvær flugbrautir eru lágmark á Reykjavíkurflugvelli og að þriðja flugbrautin gerir það að verkum að halda vellinum opnum í nokkra daga á ári sem hann væri annars lokaður.

Og þegar Reykjavíkurflugvöllur er lokaður lokast allir aðrir innanlandsflugvellir sjálfkrafa, þótt þar sé fært til flugs, af því að Reykjavíkurflugvöllur er endastöð alls flugs frá þeim.

Ég hef bent á möguleika á því að gera völlinn að T-flugvelli í stað X-flugvallar, en forsenda fyrir því er að hrófla ekki við flugvallarstæðinu eins og það er, svo að slíkur breytingarmöguleiki sé ekki eyðilagður.     


mbl.is „Ljóst að flugvöllurinn þarf að fara“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enginn hefur ákveðið að innanlandsflugið verði flutt frá Reykjavík til Keflavíkur.

Og beinlínis rangt að halda því fram að innanlandsflugvöllur geti ekki verið á öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu en Vatnsmýrarsvæðinu, til að mynda á Hólmsheiði eða landfyllingu.

Isavia hélt því fram 21. mars síðastliðinn að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði um 93%?!

Á árunum 2002-2004 var nýtingarhlutfall Ísafjarðarflugvallar um 93% en Reykjavíkurflugvallar OG Vestmannaeyjaflugvallar um 98%.

Tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2007-2018, bls. 30


"Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum hefur frá árinu 1921 verið veðurathugunarstöð, sem er fræg fyrir að hafa mælt einn mesta vindhraða sem mælst hefur á norðurhveli jarðar."

Og harla ólíklegt er að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði og Ísafjarðarflugvallar yrði það sama.

Ísafjarðarflugvöllur er
á landfyllingu úti í sjó við rætur brattrar fjallshlíðar og fjallið Kubbur (Kubbi) er nokkur hundruð metrum frá suðurenda flugbrautarinnar.

"Skutulsfjörðurinn er girtur bröttum fjöllum, sem eru nærri sjö hundruð metrar að hæð."

11.1.2008:


"Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær áskorun til samgönguyfirvalda um að leggja til fjármuni svo hægt verði að gera þær úrbætur sem nauðsynlegar eru til að Ísafjarðarflugvöllur geti þjónað millilandaflugi."

Þorsteinn Briem, 3.10.2013 kl. 10:09

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

7.9.2013:

"Það eru skýr hagkvæmnisrök fyrir því að þétta borgina í stað þess að halda áfram að þenja hana út, nýta þannig betur fjárfestinguna í gatna- og veitukerfum, draga úr umferð og auðvelda fólki að ganga, hjóla eða nota almenningssamgöngur til að ferðast á milli staða.

Kannanir sýna að nýjar kynslóðir borgarbúa vilja frekar búa þétt en dreift.

Í þriðja lagi fylgir flugvellinum ógn við öryggi borgarbúa með stöðugu lágflugi yfir íbúðahverfi.

Sú ógn fer vaxandi ef umsvif á vellinum aukast með fjölgun ferðamanna. Völlurinn er líka orðinn frekari á umhverfi sitt en áður, eins og áform um fyrirferðarmikil lendingarljós og fellingu gamals skógar á útivistarsvæðum borgarbúa sýnir.

Völlurinn
er raunar á alls konar undanþágum frá öryggisreglum, sem ekki þyrfti ef hann væri annars staðar."

Hjarta á röngum stað - Ritstjóri Fréttablaðsins


Ákveðið hefur verið að Landspítalinn verði áfram við Hringbraut, samkvæmt deiliskipulagi sem samþykkt var af borgarstjórn Reykjavíkur 13. desember síðastliðinn, Reykvíkingar starfa flestir vestan Kringlumýrarbrautar og þar er nú verið að þétta byggðina.

Deiliskipulag fyrir Landspítala við Hringbraut samþykkt


Og þeir sem starfa bæði og búa vestan Kringlumýrarbrautar, til að mynda á Vatnsmýrarsvæðinu, geta gengið eða hjólað í vinnuna í stað þess að fara þangað akandi frá austurhluta Reykjavíkur, sem veldur mun meiri innflutningi á bensíni, meira sliti á götum og bílum, meiri mengun, mun fleiri árekstrum og slysum.

En það er einskis virði í augum "umhverfisverndarsinnans" Ómars Ragnarssonar.

Þorsteinn Briem, 3.10.2013 kl. 10:12

3 Smámynd: Þorsteinn H. Gunnarsson

Nú fékkstu dembuna frá Steini Briem Ómar. Hvað gerir þú nú?

Þorsteinn H. Gunnarsson, 3.10.2013 kl. 10:23

4 identicon

Ég hætti að nenna að lesa athugasemdina þína þegar þú reyndir að halda því fram að Hólmsheiði væri möguleiki. Það er búið að jarða þann kost. Þú hljómar eins og þú hafir ekki einu sinni lesið Isavia-skýrsluna sem þú vísar í.

http://www.isavia.is/files/flugvallarstaedi-holmsheidi---nothaefisstudull_vefur.pdf

Arnar G. (IP-tala skráð) 3.10.2013 kl. 10:44

5 identicon

Það er ótrúlegt að fólk tali enn um Hólmsheiði sem valkost. Það nægir að benda á veðrið í gær, fyrradag og daginn þar áður. Þá var svartaþoka á Hólmsheiði og ekki minnsti möguleiki að lenda en Reykjavíkurflugvöllur var opinn. Hann var meira að segja opinn í sjónflug í einhvern tíma og ég tók mynd af vellinum þar sem ég var á lokastefnu 13 (til austurs) og þar má sjá vel hversu galin þessi hugmynd um Hólmsheiði er enda sést bara þoka í þá átt sem Hólmsheiðin er.

Nú er ég bara að tala um skyggnið á Hólmsheiði samanborið við Reykjavíkurflugöll en það er bara einn vinkill. Vindur er annar handleggur sem einn og sér grandar þessari hugmynd líka. Sumsé, það þarf ekki einu sinni að setja öll rökin saman í eitt því öll eru rökin svo sterk gegn Hólmsheiðarflugvelli að þau duga ein og sér.

Ingvar (IP-tala skráð) 3.10.2013 kl. 10:44

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flugsvið Landhelgisgæslunnar yrði að sjálfsögðu einnig á innanlandsflugvelli á Hólmsheiði.

Þyrlur Landhelgisgæslunnar fljúga á um fimm kílómetra hraða á mínútu, þannig að það tæki þær um þrjár mínútur að fljúga með sjúkling af flugvelli á Hólmsheiði á þyrlupall við Landspítalann við Hringbraut, ef á þyrfti að halda, eða jafn langan tíma og nú tekur að flytja sjúklinga með sjúkrabíl frá flugvellinum á Vatnsmýrarsvæðinu að Landspítalanum við Hringbraut.

Og í langflestum tilfellum eru sjúklingar fluttir með sjúkrabíl að Landsspítalanum af öllu höfuðborgarsvæðinu.

Þar að auki eru sjúklingar á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðvesturlandi nú þegar fluttir á Landspítalann með þyrlum.

Og í fjölmörgum tilfellum eru sjúklingar á öðrum landsvæðum einnig fluttir þangað með þyrlum, auk allra þeirra sem sóttir eru af hafinu allt í kringum landið í alls kyns veðrum.

"Fastur kostnaður flugsviðs Landhelgisgæslunnar er um 80-85% af árlegum rekstrarkostnaði sviðsins og að mestu óháður því hversu margar flugstundir loftfaranna eru.

Það þýðir meðal annars að fækkun eða fjölgun flugtímanna fer ekki að hafa áhrif fyrr en hún er orðin veruleg."

Ársskýrsla Landhelgisgæslunnar 2003, bls. 9-10


Og enginn hefur ákveðið að sjúkraflug með flugvél frá Norðausturlandi og Austurlandi til Reykjavíkur yrði lagt af með því að færa Reykjavíkurflugvöll af Vatnsmýrarsvæðinu.

Mun kaldara og snjóþyngra er á veturna á þúsundum flugvalla í Norður-Ameríku og Evrópu en á Hólmsheiði, þar sem meðalhitinn er -0,8 stig í janúar, eina mánuðinum sem þar er undir frostmarki, og hér á Íslandi fer lofthitinn hækkandi.

Arlandaflugvöllur við Stokkhólm
er bæði millilanda- og innanlandsflugvöllur, eins og fjöldinn allur af öðrum flugvöllum við höfuðborgir í Evrópu, og meðalhiti í Stokkhólmi í janúar er -2,9°C, rúmlega tveimur gráðum lægri en á Hólmsheiði.

"Stockholm Arlanda Airport is 37 km north of Stockholm."

"Since its opening Stockholm Arlanda has always managed to continue its operations during heavy snowfall and difficult weather.

The airport administration claims to be world-leading at clearing snow from the runways.

Arlanda has a policy to never close due to snowfall."

"The airport was first used in 1959."

Og enda þótt meirihluti Reykvíkinga starfi vestan Kringlumýrarbrautar búa langflestir íbúa á höfuðborgarsvæðinu austan hennar og flestir þeirra búa mun nær Hólmsheiði en Vatnsmýrarsvæðinu.

Fjölmörg fyrirtæki
eru einnig austan Kringlumýrarbrautar, frystur fiskur og saltfiskur er fluttur út frá Sundahöfn og ferskur fiskur með flugi frá Keflavíkurflugvelli.

Og engin ástæða til að leggja af millilandaflug til Reykjavíkurflugvallar, enda þótt flugvöllurinn yrði færður til innan Reykjavíkur.

Þorsteinn Briem, 3.10.2013 kl. 10:57

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég fæ engan veginn séð að borgarstjórinn í Reykjavík hafi breytt afstöðu sinni í þessu máli:

"Við berum mikla virðingu fyrir lýðræðislegum rétti fólks til að tjá sig og koma sínum skoðunum á framfæri."

"Framsetningin á kostunum í þessari umræðu finnst mér svolítið sérkennileg.

Þetta er eiginlega sett fram sem tveir kostir: Viltu flugvöll með öllu í Vatnsmýrinni eða tortíma Reykjavík og öllu landinu?"

"Ég hef setið endalausa fundi um þennan flugvöll og er algjörlega fullviss um að flugvöllurinn þarf að fara."

"Hann fer og annað kemur ekki til greina."

Flugvöllurinn þarf að fara - Borgarstjórinn í Reykjavík, bls. 50-52

Þorsteinn Briem, 3.10.2013 kl. 13:02

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þessar tvær tilvitnanir þínar Ómar, segja í rauninni allt sem segja þarf um þetta mál.  Þú hittir naglann beint á höfuðið:7

"Það er vel hægt að reikna það út að best væri að flytja bæði flugstarfsemina og hafnarstarfsemina til Suðurnesja ef menn gefa sér það að staðsetning íbúðabyggðar í höfuðborg sé aðalatriðið en hlutverk hennar sem höfuðborgar og samgöngumiðstöðvar sé aukaatriði".

"Flugvöllurinn og Reykjavíkurhöfn eru álíka langt frá þungamiðju byggðar höfuðborgarsvæðisins, um 4 kílómetra, og taka álíka mikið pláss.

En með því að útrýma þessum höfuðþáttum í tilverugrundvelli borgarinnar er kippt burtu ástæðunni fyrir því að hún varð til".

 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.10.2013 kl. 14:55

9 identicon

Sammála #12.
Hef engan flugmann hitt enn sem hristir ekki hausinn yfir Hólmsheiðar-ruglinu.

Jón Logi (IP-tala skráð) 3.10.2013 kl. 22:26

10 identicon

Afsakaðu Ómar að ég skuli koma hér með allta aðra pælingu en pistillinn gefur tilefni til. Rakst á merkilega "endurbót" á Skyline, á netinu. Einskonar framstél. Helv. merkilegt mögnuð flugtök og lendingar með þessu. http://www.youtube.com/watch?v=5eSFqGyKgsw

Það má kanski tenga þetta umræðuni um Reykjavíkurflugvöll með því að brautirnar gætu verið snöggtumm styttri ef fleiri vélar þróast í þessa átt!  ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 3.10.2013 kl. 22:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband