7.10.2013 | 00:18
Næsta skref: Geimfaraferðamennska í Gjástykki?
Þrettán ár eru síðan Bob Zubrin, forystumaður alþjóðlegra samtaka áhugafólks um ferðir til mars, kom til Íslands til að kynna sér möguleikana hér á landi til að æfa marsfara framtíðarinnar. Zubrin var um svipað leyti aðalviðmælandinn í forsíðugrein Time um marsferðir.
Ég flaug með Zubrin yfir Kverkfjöll og til Mývatns og ári síðar kom hingað sendinefnd samtakanna sem valdi sér æfingasvæði í Gjástykki.
Allar götur síðan þá hef ég verið að reyna að benda á þá möguleika sem þetta gefur á þessu svæði ásamt því að í Gjástykki er eini staðurinn í heiminum þar sem menn hafa orðið vitni að því að heimsálfurnar hafa rifnað hvor frá annarri og nýtt land, Ísland, komið upp á gossprungu.
Teknar voru bæði ljósmyndir og kvikmyndir af þessu og ummerkin sjást greinilega.
Þessi viðleitni mín hefur alla tíð verið litin hornauga af þeim sem vilja gera svæðið að virkjanasvæði líku því sem er á Hellisheiði en þó ekk með von um nema brot af orku Hellisheiðar.
Slóðinn frá Kröflu norður í Gjástykki er meira að segja lokaður með keðju.
Geimferðamennska á Húsavík? Sjálfsagt mál. Samt skoðuðu geimfarar ekkert á þeim stað.
Geimferðamennska í Gjástykki? Ekki að ræða það. Það verður að virkja!
Geimfaraferðamennska á Húsavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það yrði nú leiðinlegt ef Framsóknarflokkurinn dytti niður á milli heimsálfanna og hyrfi.
Þorsteinn Briem, 7.10.2013 kl. 02:25
Ánægjulegt er að áláhugamaðurinn Örlygur Hnefill hafi fundið annað áhugamál en álbræðslur.
Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein meðan áliðnaður á í miklum erfiðleikum. En þessi ríkisstjórn sem nú er hefur ekki sýnt ferðaþjónustunni mikill skilning.
Fjárlagafrumvarp „Broskallastjórnarinnar“ er um margt einkennileg. Framlag til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða er lækkað verulega og er gert ráð fyrir að 216,6 milljónir nægja en framlagið á þessu ári er 575,6 milljónir sem er í raun eina skiptið sem umtalsvert fé hefur verið sett í þennan málaflokk. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur sýndi skilning í verki að ferðaþjónustan er stærsti vaxtabroddurinn í íslensku samfélagi. Þá hyggjast broskallarnir lækka framlag til átaksins „Ísland allt árið“ úr 300 milljónum í 200 milljónir og telja sennilega það framlag nægja.
Þess má geta að aðgengi að vinsælum ferðamannastöðum er víða mjög slæmt eða bágborið. Þannig eru slóðirnar að vinsælum skriðjöklum, Sólheimajökli og Svínafellsjökli að öllu leyti ófullnægjandi. Núna um miðjan september neitaði bílsstjóri minn að aka þangað með ferðahóp enda vegurinn nánast ófær bæði smáum sem stærri bílum. Skal engum bílsstjóra með ríka ábyrgðartilfinningu núið um nasir að bregðast þannig við enda hefur veghefill ekki sést á þessum slóðum árum saman. Þessir vegaspottar teljast ekki vera með þeim lengri, einungis örfáir kílómetrar. Vegagerðinni er til vansa að forgangsraða verkefnum þannig að lagt er út í rándýra og umdeilda vegagerð um Gálgahraun í Garðabæ en láta vegheflana fremur standa ónotaða í skúrum Vegagerðarinnar úti á landi.
Ferðaþjónustan er langstærsti vaxtabroddurinn íslensks þjóðlífs sem þarf að hlúa að fremur en að grafa undan með vísvitandi hætti eins og núverandi ríkisstjórn vill.
Góðar stundir.
Guðjón Sigþór Jensson, 8.10.2013 kl. 18:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.